fbpx

TRENDNÝTT

NÝJAR PRADA TÖSKUR UNNAR ÚR RUSLI ÚR SJÓNUM

Á meðan flest hátísku húsin státa sig af því að vörur þeirra séu gerðar úr heimsins fínasta leðri, silki eða kasmír þá fer Prada nýjar leiðir. Þeir nota að sjálfsögðu enn þessi fínu efni en nýjasta verkefni þeirra snýst um að endurnýta fiskinet og plast sem finnst í sjónum og framleiða úr því nýja línu af töskum.

Verkefnið sem nefnist Re-Nylon er skref þeirra í áttina að sjálfbærari tískuiðnaði. Stefna þeirra er að allar vörur fyrirtækisins sem innihalda nylon verði úr endurunnum efnum árið 2021. Nylon töskur frá Prada hafa verið einstaklega vinsælar síðustu ár og eiga stóran þátt í velgengni fyrirtækisins og því er þetta mjög jákvætt skref hjá fyrirtækinu.

Nýju töskurnar eru gerðar úr efni sem kallast Econyl og er blanda af endurunnu rusli úr sjónum og efnaafgöngum. Þannig eru þeir að breyta mengandi efni og úrgangi í nytsamlega hátísku hönnunarvöru.

Fyrsta línan inniheldur 6 unisex töskur og er verðmiðinn í hærri kantinum, í kringum 150.000 – 200.000 kr. Töskurnar eru merktar með klassísku Prada logoi ásamt merki sem sýnir heiminn og þríhyrning sem lokar hringnum sem sýnir líftíma vöru. Þannig vilja þau sýna að þegar notkun töskunnar er lokið þá má auðveldlega breyta henni í nýja og kannski allt aðra vöru og hefur varan því enga endastöð.

Tískuiðnaðurinn er einn mest mengandi iðnaður heimsins og það er því gríðarlega mikilvægt að stór og ráðandi fyrirtæki á markaði eins og Prada minnki neikvæð umhverfisáhrif og komi með “statement” sem hvetur önnur fyrirtæki til að fylgja í kjölfarið.

//TRENDNÝTT

FATASALA DAGSINS

Skrifa Innlegg