fbpx

TRENDNÝTT

HVERNIG HEFUR ÞÚ ÞAÐ MAGNEA EINARSDÓTTIR?

FÓLK

Hæ Magnea.
Til hamingju með nýju dásamlegu línuna þína!

Ljósmyndari: Íris Dögg Einarsdóttir, Módel: Birta Abiba, Rósa Bóasdóttir, Sandra Gunnarsdóttir, Urður Vala Guðmundsdóttir, Makeup & hár: Sara Björk Þorsteinsdóttir og Ester Rut Þórisdóttir, Stílisti: Júlía Grønvaldt, Listræn stjórnun: Magnea Einarsdóttir.

Hvernig hefur þú það?

Takk fyrir! Ég er í skýjunum með viðtökurnar á video frumsýningunni á Trendnet, ótrúlega gaman að finna fyrir svona jákvæðum móttökum. Ég er vön að sýna nýjar línur á tískusýningum og ætlaði að gera það í ár, en breyttir tímar kalla á breyttar nálganir og ég fékk með mér frábært teymi til að gera hugmyndir mínar að veruleika á nýjum miðli sem var mjög skemmtilegt ferli og gaman að stíga svolítið út fyrir þægindarammann.

Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður

Fyrir þá sem ekki vita, hver er Magnea Einarsdóttir? Hvar lærðir þú og hvað ertu búin að vera lengi í bransanum?

Ég lærði fatahönnun í Central St Martins í London og útskrifaðist 2012. Eftir útskrift flutti ég til Íslands og hef unnið sjálfstætt síðan, hannað og sýnt línur hér heima og erlendis, unnið að samstarfslínum og fleira. Einnig hef ég starfað fyrir Fatahönnunarfélag Íslands sem stendur meðal annars að verkefninu #íslenskflík og svo rak ég verslun í samstarfi við Anítu Hirlekar í nokkur ár. Í haust sameinuðumst við fleiri hönnuðum undir hatti Kiosk Granda sem er staðsett við Grandagarð 35.

Frábært að línan sé öll unnin á Íslandi, hvernig gekk sú þróun?

Ég átti fyrsta fund með framleiðendum rétt áður en heimsfaraldurinn skall á og það hefur vissulega sett strik í reikninginn en á sama tíma eru það mikil forréttindi að hafa verksmiðjuna í næsta nágrenni á meðan heimurinn hefur verið hálf lokaður. Ég hafði ekki hannað nýja línu í dálítinn tíma og hef verið að velta fyrir mér umhverfismálum og hvernig ég geti lagt mitt af mörkum sem hönnuður. Ég hef unnið með íslenska ull í gegnum tíðina og ákvað að skora á sjálfa mig að hanna vörulínu sem væri 100% upprunnin í Reykjavík og því með lágmarkað kolefnisspor. Titill videoverksins “made in reykjavík” felur í sér ákveðna vitundarvakningu. Innan í fötunum okkar er alltaf að finna miða sem segir til um uppruna flíkurinnar sem oftar en ekki hefur ferðast nokkra hringi kringum jörðina áður en hún berst til eiganda síns.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=9U0nusmfQNQ]

Hvar fær maður innblástur á þessum furðulegu tímum?

Það er sem betur fer ekki skortur á honum hjá mér allavega og nóg að gera. Við sem stöndum að Kiosk fáum mikið af þessari spurningu og mörgum finnst djarft að opna verslun á þessum tímum en við erum að fá frábærar viðtökur þrátt fyrir flóknar aðstæður og greinilegt að fólk vill versla íslenska fatahönnun.

Áttu þér uppáhalds yfirhöfn úr línunni?

Mér finnst erfitt að gera upp á milli en það var mjög gaman að vinna að Agatha kápunni og ég er mjög ánægð með útkomuna. Ég pæli mikið í frágangi og smáatriðum í flíkum, að mínu mati skipta þau svo miklu máli og mig langaði að gera kápu sem væri jafn fín að innan og utan. Úr varð þessi flík sem er hægt að nota á báða vegu. Þannig er hún dökk og munstruð öðru megin en ljós með grófum saum hinumegin sem gefur henni sterkan karakter. Litirnir í kápunni eru þróaðir af mér í samstarfi við ullarframleiðanda hér heima og mynda litapallettu línunnar sem er mjúk og dálítið draumkennd og minna mig á brögð og lyktir.
Agatha kápa. Fæst: HÉR

Uppáhalds hönnuður fyrir utan þig sjálfa?

Það eru hönnuðirnir sem reka með mér Kiosk Granda – Aníta Hirlekar, Eygló, Helga Lilja og Hlín Reykdal. 

Hvað er framundan hjá Magneu?

Það er komandi jólatörn í Kiosk Granda sem er skemmtilegasti tíminn í verslunarrekstri. Ég hvet alla til að kíkja á okkur fyrir jólin eða njóta þess að skoða vöruúrvalið heima á netversluninni www.kioskgrandi.com

//

Takk fyrir spjallið, Trendnet óskar þér góðs gengis áfram og ávallt.

Skoðið netverslun Magneu: HÉR
Instagram: HÉR

TRENDNET

Zara opnar netverslun á Íslandi - senda hvert á land sem er

Skrifa Innlegg