KRISTINA KROGH ♡

Hönnun

Enn á ný dreymir mig um verk eftir hina hæfileikaríku dönsku Kristinu Krogh sem ég hef nokkrum sinnum áður fjallað um. Það hefur verið gaman að fylgjast með henni þróa sinn stíl í gegnum árin og eru nýjustu verkin hennar þónokkuð ólík þeim fyrstu sem komu út en eiga það þó sameiginlegt að fókusinn er á ólíkar áferðir og efni og alveg jafn hrikalega flott. Ég hef verið með augun á röndótta svart hvíta plakatinu síðan í byrjun sumar og núna er sveimér þá kominn tími til að panta mér eintak. Ég mæli með að skoða allt úrvalið hennar á kkrogh.dk

  

Myndir: Kristina Krogh

Það sem ég er hrifnust af er áferðin á plakötunum sem hvert og eitt er prentað á gífurlega vandaðann pappír, flest þeirra eru prentuð með ‘giclée’ sem er nokkurskonar alþjóðlega viðurkennd listaverkaprentun sem notuð er m.a. af söfnum. Ásamt því má sjá Kristinu notast við sérstakan speglapappír og gullfólíur í hönnun sinni. Ég hef fylgst með Kristinu Krogh í nokkur ár núna og tók einnig viðtal við hana fyrir H&H árið 2013 áður en að nokkur íslensk verslun hóf að selja hennar verk og hef síðan þá verið dyggur aðdáandi enda er ekki erfitt að verða skotin í svona hæfileikaríkum hönnuði.

LOKSINS STOFUBREYTINGAR

HeimiliPersónulegt

Draumasófinn er loksins kominn heim og við erum nýbúin að klára að setja hann saman. Þið sem fylgst hafið lengi með kannist líklega við það að ég hef verið í sófaleit í nokkra mánuði ef ekki ár og að lokum ákvað ég að kaupa Söderhamn sófann frá Ikea með bleiku áklæði og tungu. Það kemur inn mynd af “nýju” stofunni minni innan skamms – en þangað til getið þið séð smá á bakvið tjöldin á Svartahvitu snappinu, hér að neðan tók ég saman stemminguna sem ég er að leitast eftir núna. Ég viðurkenni að ég hef lengi verið mjög þreytt á stofunni minni sem þarfnaðist alvarlega smá yfirhalningar.

Eins og fram hefur komið þá keypti ég mér bleika Söderhamn sófann sem er reyndar ekki þessi samsetning sem sjá má að ofan. Ég keypti mér einnig ljósbrúnt kýrskinn fyrir dálitlu síðan en vinkona mín sem var að flytja heim erlendis frá kom með skinnið í gær og það er gullfallegt. Mitt skinn er keypt frá Hiderugs í Englandi en ég vil þó benda á að kýrskinn fást hér heima hjá t.d. Sútaranum á Sauðárkróki og einnig til dökkbrúnt í Ikea. Ég er alltaf að koma mér í það að halda smá bílskúrssölu en ég hafði hugsað mér að losa mig við mikið af plakötunum mínum og gæti vel hugsað mér í staðinn nýtt frá elsku Kristinu Krogh sem er svo hæfileikarík, það ásamt draumaspeglinum frá Further North sem varð loksins minn nýlega og fær sinn stað í stofunni.

Ég þarf svo líklega að skipta út sófaborðinu mínu sem er gamalt Stockholm 60’s borð frá Ikea en nota þá Svartan borðið frá Ikea sem hefur nýst sem plöntustandur lengi vel og fær núna loksins að vera í aðalhlutverki. Ég lenti í smá tjóni nýlega með svarta Flowerpot lampann minn og eins óheppin og ég get verið þá er svarti lampinn hættur í framleiðslu svo ég skipti honum þá líklega út fyrir matt-gráann (ég er a.m.k. að vona að heimilistrygginging aðstoði hér).

Ég hlakka mikið til þess að raða upp á nýtt í stofunni en mikið sem ég hef verið löt við að breyta til á heimilinu mínu. Það kemur jafnvel til greina að mála!

Eigið annars góða helgi – hæ hó og jibbý jei.