fbpx

SVÍNALUND MEÐ GEITAOSTA FYLLINGU

Matur


Þessi réttur er alveg fullkomin á svona vetrarkvöldi með góðu rauðvíni. Heitur réttur sem er stútfullur af brögðum !
Mér þykir fyllt svínalund ótrúlega góður matur og er dugleg að prófa mig áfram með allskonar fyllingar. Svínalund er frekar ódýrt kjöt og heil lund er mjög bragðgott kjöt. Lundin á það til að verða þurr og bragðlaus við eldun. Þess vegna fylli ég þær alltaf og vef svo annaðhvort beikoni eða parmaskinu utan um lundina. Þannig bý ég til smá fitulag utan um kjötið til að halda rakanum inni.

Í fyllinguna nota ég nú bara oftast það sem ég á til í heima eins og til dæmis fetaost, parmesan ost, hnetur, t.d. furuhnetur, sólþurrkaða tómata, kryddjurtir, sveppi, lauk, spínat og ólífur. Um að gera að nota bara það sem þú átt til og þér dettur í hug og vera óhrædd við að prufa þig áfram.

Fylling:
Geitaostur (getur notað hvaða ost sem er ef þú ert ekki fyrir geitaost eins og t.d camenbert eða fetaost)
Grilluð paprika
Sólþurrkaðir tómatar
Spínat
Valhnetur
Beikon

Byrjaðu á því að sjóða spínatið í 1 mínútu og kældu það síðan undir köldu vatni. Þurrkaðu það með því að kreista vökvan frá og saxaðu það síðan smátt og settu í skál. Skerðu sólþurrkuðu  tómatana smátt, grillaðar paprikur og valhnetur.
Blandaðu þessu öllu saman í skál með smá olíu, salti og pipar.

Svínalundina skar ég í tvennt. Skerðu í miðjuna og svo út í hliðarnar og reyndu að fletja hana út eins mikið og þú getur en passaðu að skera ekki í alveg í gegn eða alveg út í endana. Notaðu lítinn hníf og skerðu rólega. Byrjaðu á því að raða fyllingunni ofan á lundina og raðaðu svo nokkrum geitaostasneiðum yfir. Að lokum klemmdu hana aðeins saman og rúllaðu beikonsneiðum í kringum hana.

Í pott eða eldfast mót settu 1 dós af kjúklingabaunum með smá olíu, salti, pipar og smá rósmarín. Leggðu svínalundirnar ofan á kjúklingabaunirnar. Lokaðu pottinum eða settu álpappír yfir og settu inn í ofn í 45 mínútur við 180° gráður. Taktu lokið af síðustu 10 mínúturnar.

Kjúklingabaunirnar draga í sig allann kraftinn frá kjötinu, fyllingunni og beikoninu og verða alveg ótrúlega góðar. Ég bauð uppá létt salat með lundinni en fyllingin og kjúklingabaunirnar eru líka alveg nóg með. Ég átti smá rauðlauksultu sem passaði líka vel með. Ef þér finnst vanta sósu getur þú gert einhverskonar sósu með en það er mikill kraftur og bragð af lundinni svo mér finnst óþarfi að hafa sósu með þó það sé auðvitað hægt.

Marta Rún

BALSAMIC LAX MEÐ KÚS KÚS

Skrifa Innlegg