fbpx

SKREF FYRIR SKREF FULLKOMIN OFNBAKAÐUR KJÚKLINGUR


Það er auðvelt að klikka heilum ofnbökuðum kjúkling þannig hann verði of þurr. Þegar ég var eitt sumar í Boston hjá frænku minni, sem er kokkur, lærði ég að gera fullkomin heilgrillaðan kjúkling. Hún gerði hann svo góðan í hvert einasta skipti. Hún kenndi mér nokkur mikilvæg atriði að gera til þess að hann verði fullkominn í hvert einasta skipti. Þegar þið prufið að fylgja þessum reglum á kjúklingalífið ykkar eftir að breytast og þessar aðferðir verða að rútínu.
Þetta er matur sem ég geri hvað oftast á mínu heimili og klikkar aldrei. Bera fram með góðu meðlæti, kartöflum og þá ertu komin með veislumat! Hér verða nokkur atriði tekin fyrir ásamt þremur tegundum af frumlegu meðlæti.

1. Smjör, smjör, smjör. Byrjaðu á því vera með 3-4 matskeiðar af smjöri við stofuhita. Rífðu niður 1 hvítlaukgeira, smá af sítrónuberki, 1 tsk af þurrkaðri eða ferska steinselju, salt og pipar og blandaðu vel saman. Hér getur þú notað hvaða krydd sem er, rósmarín, basilíku eða eitthvað annað. Síðan ferðu með höndina undir neðst hjá bringunni og losar skinnið frá bringunni. Búðu svo til litla bolta úr smjörinu og settu undir skinnið á báðar bringur og dreifðu vel úr því. Taktu síðan meira smjör og dreifðu yfir allan kjúklinginn.

2. Alltaf að vera með nóg af grænmeti í sama fatinu sem þú eldar kjúklinginn. Hafðu 1-2 lauka, hvítlauksgeira, gulrætur, og sítrónusneiðar. Þú getur sett hvaða grænmeti sem þér finnst gott með í fatið ásamt smá ólífuolíu, salti og pipar. Síðan setur þú kjúklinginn ofan á  grænmetið þegar hann fer inn í ofn. Það grænmeti notar þú síðan til þess að bera fram sem meðlæti.

3. Alltaf að skera eina sítrónu í tvennt og lauk og setja inní kjúklinginn. Þannig má búa til raka inní kjúklinginum og bragð sem fer í hann.

4. Áður en þú setur kjúklinginn inn í ofn þá hellir þú smá ólífuolíu yfir kjúklinginn til að koma í veg fyrir að smjörið brenni. Næst hellir þú eins og hálfum bolla af vatni í fatiðog hylur með álpappír. Síðan stillir þú ofninn þinn í hæsta hitastig. Þegar ofninn hefur hitnað setur þú kjúklinginn inn í 10 mínútur og lækkar hann svo niður í 180° og eldar hann í 35-40 mínútur til viðbótar með álpappír yfir en tekur álpappírinn síðan af síðustu 10 mínúturnar. Þarna fær kjúklingurinn “sjokk” og lokast fljótt og heldur rakanum inni.

5. Aðalatriðið til þess að kjúklingurinn verði ekki þurr er að leyfa honum að standaí minnsta kosti 15-20 mínútur yfir álpappír. Á meðan gerir þú sósuna sem myndast í fatinu. Taktu grænmetið í fatinu og setjið í skál til að bera fram með. Það er mikill kraftur og safi sem verður eftir í forminu frá grænmetinu og kjúklingnum og er það besti parturinn af uppskriftinni. Taktu sítrónurnar sem voru inní kjúklingum og kreistu í fatið, Saltaðu og pipraðu og smakkaðu til. Notaðu soðið sem sósu fyrir kjúklinginn, stútfullt af brögðum og miklu betri kostur en einhver rjómaostasósa.

Mér finnst ótrúlega gaman að prufa mismunandi meðlæti og reyni að festast ekki með sama salatið og kartöflur. Fyrir þetta matarboð var ég með nokkur mismunandi meðlæti og ætla ég að leyfa uppskriftunum fylgja með hér líka.

Grillaðar sætar kartöflur með myntu, chilli & hvítlaukssósu
2 sætar kartöflur, skornar í þunnar sneiðar
Ólífuolía,
Salt og pipar

Dressing:
2 hvítlauksgeirar
Smátt söxuð mynta
½ smátt saxaður chillipipar
Ólífuolía
Rauðvínsedik

Aðferð:
Penslaðu kartöflurnar með olíu, salti og pipar og steiktu á grillpönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið.
Raðaðu síðan a ofnplötu og settu inn í ofn á 200° í 6-7 mínútur. Ef þú átt ekki grillpönnu geturðu auðvitað sett þær beint inn í ofn á 180° í 15 mínútur.
Blandið öllum hráefnunum fyrir dressinguna í litla skál og hellið yfir kartöflurnar þegar þær eru tilbúnar.

Aspas, tómatar & mozzarella salat
1 pakki ferskur aspas
1 pakki kirsuberjatómatar
1 pakki litlar mozzarella kúlur eða 1 mozzarellakúla rifin í litla bita.
1 hvítlauksgeiri
2 tsk sítrónusafi
2 msk ólífuolía
2 msk söxuð steinselja
lúka af smátt söxuðum valhnetum eða hvaða hnetum sem er
salt&pipar

Aðferð:
Sjóddu aspasinn í vatni með salti í 3-4 mínútur. Þegar hann er tilbúin sigtaðu vatnið frá og láttu undir kalt vatn til þess að stoppa að hann haldi áfram að eldast og verði mjúkur. Færðu hann síðan á eldhúspappír og leyfðu að þerrast. Skerðu tómatana til helminga og hafðu mozzarella kúlurnar til. Finnið til litla skál þar sem þú setur olíuna, sítrónusafann, steinseljuna, hneturnar, salti og pipar og blandaðu vel saman.
Raðaðu aspasnum á disk og bættu tómötunum, ostinum og helltu svo hnetublöndunni yfir.

Strengjabauna & fíkjusalat
Fíkjur, stangabaunir, balsamik edik, ólífuolía og smátt saxaðar hnetur.

Sjóddu strengjabaunirnar í 3-4 mínútur og skolaðu svo í köldu vatni, þurrkaðu á eldhúspappír og raðaðu á disk. Skerðu fíkjur og raðaðu á diskinn, helltu smá olíu, balsamik ediki og söxuðum hnetum yfir.

ÆÐISLEGT ÍTALSKT PASTA MEÐ HRÁSKINKU

Skrifa Innlegg