fbpx

ÁRAMÓTAKALKÚNN FRÁ A-Ö

Fyrir litlar fjölskyldur er heill kalkúnn yfir hátíðarnar ef til vill mikill matur. Litli vinahópurinn okkar í Barcelona langaði til þess að elda saman kalkún á Thanksgiving en heill kalkúnn hefði verið of stór. Það var því fullkomin lausn að kaupa kalkúnabringur og fylla þær og bjóða uppá allskonar meðlæti og sósu.
Í þessari færslu er ég einnig með leiðbeiningar fyrir heilan kalkún. Þetta er uppskrift sem ég hef stuðst við í mörg ár og hefur ekki klikkað.

Kalkúnabringur
Ég mæli með að marinera bringurnar á einhvern hátt eins og ykkur finnst gott. Mér finnst t.d. hvítlaukur, rósmarín, sítróna alltaf góð blanda. Þumalputtareglan er ein bringa fyrir hverja tvo.

Heill Kalkúnn
3 kg er ætlað 6-7 manns
4 kg er ætlað 8-10 manns
5 kg er ætlað 10-12 manns
6 kg er ætlað 12-14 manns
7 kg er ætlað 14-16 manns
8 kg er ætlað 16-18 manns


Kalkúnninn og smjörið
500 g smjör (látið standa í stofuhita)
Salt og pipar
Ólífuolía
2 Sítrónur
3 Hvítlauksgeirar
1 lúka söxuð steinselja
2 lárviðarlauf

Setjið smjörið í skál og saltið og piprið vel.
Hellið síðan smá ólífuolíu yfir því það kemur í veg fyrir að smjörið brenni.
Rífið börkinn af tveimur sítrónum í smjörið og kreistið síðan safann úr þeim.
Pressið 3 hvítlauksgeira og saxið lúku af steinselju og hrærið saman.
Síðan er tími til að verða skítugur í eldhúsinu.
Þið losið húðina frá bringunum og þar í kring með því að fara með hendurnar inn á milli og losa um. Passið bara að rífa ekki gat. Síðan hnoðiði smjörið í kúlur sem passa í hendurnar, farið með þær inn í kjúklinginn undir húðina og dreifið út um allt og þetta gerið þið báðum megin.

Makið smjörinu einnig yfir kalkúninn og hellið smá olíu líka yfir hann svo smjörið brenni ekki.
Settu tvo heila lauka sem þú skerð í 4 bita, 2 lárviðarlauf og 1 sítrónu skorna í helming inní kalkúninn.
Það gefur honum aukabragð og þú notar það síðan til að búa til sósuna.
Raðaðu svo einum pakka af beikoni yfir bringurnar á  kalkúninn.
Ofninn er settur í hæsta hita og svo þegar þú setur kalkúninn inn lækkaru niður í 180°. Tíminn sem fuglinn er inni er u.þ.b. 30-40 mín fyrir hvert kíló.
Tvisvar sinnum tók ég ausu og hellti soðinu sem var búið að myndast yfir hann.
“Aðaltrixið” er svo að láta hann standa í tvo tíma eða lengur.
Þá lokast hann og allur safinn helst inn í kjötinu og þú hefur tíma til að setja allt meðlætið inní ofn og leggja á borð.
Til að vera viss um að hann sé tilbúinn getur þú skorið í hann og athugað hvort að safinn sé glær. Einnig er auðvitað hægt að setja kjöthitamæli í hann og athuga hvort hann sé ekki 74°C í bringunni.

Sósan
Inn í kalkúni er alltaf poki með hálsinum og fleira aukakjöti. Það sauð ég með líter af vatni, sellerí og lauk. Þannig bjó ég til soð sem ég notaði í sósuna og mæðlætið.
(Ef það er ekki og þú ert með bringur þá getur þú notað kjúklingateninga)

Byrjaðu á því að hella soðinu sem var í bakkanum sem kalkúninn var eldaður í í skál.
Finndu til góða pönnu eða pott.
Taktu laukinn og sítrónuna sem þú settir inn í kalkúninn og skerðu niður og settu á pönnuna.
Taktu síðan beikonið af kalkúninum, skerðu það niður og settu einnig á pönnuna.

Settu tvær rósmarínstangir ofan í pottinn.
Skerðu tvo tómata í bita og steiktu allt saman. Tómatarnir hjalpa til við að þykkja sósuna og gefa gott aukabragð. Helltu síðan einum epla cider í (ég notaði Somersby) og eina ausu úr kraftinum sem var í kalkúnafatinu. Láttu svo malla saman þangað til sósan hefur minnkað um helming.
Þá ferðu í að kreista allt saman, ef þú átt kartöflustappara getur þú notað hann annars bara endann á ausunni þinni. Kreistu allt vel til að fá sem mesta bragðið.
Svo helliru 2 bollum af kalkúna- eða kjúklingasoðinu þínu.
Svo sigtaru sósuna í pott og pressar vel úr sigtinu til að fá mesta bragðið.
Þá ætti sósan þín að vera tilbúin og ef hún er gerð rétt þá ætti hún að vera alveg hrikalega góð.

Stuffing
Það er hægt að gera allskonar útfærlsur af góðu stuffing og hef ég smakkað margar útfærslur. Eftir að hafa eldað síðastliðin ár kalkún þá held ég að ég hafi fundið þá útfærslu sem mér finnst best.

Þurrkaðir brauðmolar, 1 poki samlokubrauð
½ pakki sveppir
1 laukur
1 sellerístöng
½ bolli valhnetur
½ bolli þurrkaðar aprikósur (líka hægt að nota þurrkuð trönuber)
½ pakki beikon
2 bolli kjúklingasoð
1 tsk lyftiduft
salt
pipar

Ef það eru ekki til þurrkaðir brauðmolar í verslunum þá skerið þið samlokubrauð í teninga og kryddið með smá hvítlaukskryddi, salti, pipar og timían og raðið á ofnplötu og bakið í ofni á 180° í 10-15 mín. Hreyfið í brauðteningunum svo að þeir eldist á báðum hliðum og verða ljósbrúnir og stökkir. Þegar þeir eru tilbúnir setjið þá í stóra skál.

Steikið sveppina, laukinn og sellerí saman með 1 msk af smjöri í 10 mínútur þangað til að blandan er orðin mjúk. Bætið þeim þá í skálina með brauðteningunum.
Bætið einnig við söxuðu hnetunum, þurrkuðu ávöxtunum, rósmarín, salti og pipar og veltið öllu saman. Hellið svo 1 bolla af kjúklingasoði og blandið aftur vel saman.

Skerið vasa á bringurnar og fyllið með stuffing. Raðið nokkrum beikon sneiðum til þess að fá auka fitu og komið þannig í veg fyrir að bringan verði þurr. Restin af fyllingunni er sett í eldfast mót og bökuð í ofninum í 15-20 mínútur.

Bakað rósakál með beikoni,gráðosti og balsamic
Þetta meðlæti fannst mér passa svo vel með kalkúninum og ég gerði þetta aftur um daginn með góðri steik.

500 g rósakál, skorið í helming
5 hvítlauksgeirar
4 sneiðar af beikoni
½ bolli saxaðar valhnetur
¼ bolli þurrkuð trönuber
½ bolli rifinn gráðostur
salt
pipar
½ bolli balsamik edik
¼ bolli hunang

Hitið ofninn í 200° . Finnið til lítinn pot, sjóðið saman hunangið og balsamik edikið á litlum hita þangað til það er orðið að einhvers konar þykkri sósu.  Skerið rósakálið í helming og setjið í skál með hvítlauknum, olíu, salti og pipar og blandið saman. Setjið í eldfast mót og inn í ofn í 25 mínútur og passið að hræra aðeins í þeim inná milli. Setjið síðan í skál og hellið blasamik sósunni yfir. Rífið niður gráðostinn í skálina ásamt söxuðum valhnetum og blandið öllu vel saman.

Sætkartöflumús
4-5 sætar kartöflur
3/4 Bolli púðursykur
1/2 Bolli bráðnað smjör
2 tsk Salt
1/2 tsk Vanilludropar
1 Bolli pekanhnetur smátt skornar
Sykurpúðar eftir smekk.

Ég byrjaði á að setja kartöflubitana í pott og fyllti hann af vatni þar til það náði yfir kartöflunar. Síðan stillti ég á háan hita og lét þá sjóða með lokinu á þar til þeir voru orðnir mjúkir og fínir. Þá er vatnið sigtað frá og þeim leyft að kólna örlítið, því næst eru bitarnir stappaðir með kartöflustappara eða gaffli.
Stappan er sett í stóra skál með púðursykri, smjöri, salti, vanilludropum, helming af pekanhnetunum og öllu blandað vel saman. Mixið er sett í eldfast mót og restinni af pekanhnetunum stráð jafnt yfir og sykurpúðunum ofan á þær. Mótið er svo sett inn í ofn þar til sykurpúðarnir hafa bráðnað og eru orðnir örlítið gylltir.

Ég vona að þessar uppskriftir eigi eftir að nýtast einhverjum.
Annars bara gleðilegt nýtt ár og ég hlakka til nýs árs og komandi spennandi verkefna.
Marta Rún

 

ÁRAMÓTAKOKTEILLINN 2018/2019

Skrifa Innlegg