Ég ætla að byrja á því að óska ykkur gleðilegs nýs árs og takk fyrir lesturinn á árinu. Spennandi verkefni eru væntanleg á árinu og hellingur af uppskriftum sem ég hlakka til að deila með ykkur.
Eftir allt þetta kjötát síðustu vikur er komin tími til á einn léttan pastarétt.
Æðislegt spaghettí með ferskum og fáum hráefnum sem vinna ótrúlega vel saman. Ítalskt spaghetti með hráskinku, tómötum og ólífum.
Hráefni
Fyrir 2
450 g spaghettí
5 hvítlauksgeirar
½ lítill laukur
130 g svartar ólífur án steina
4 smátt skornir tómatar
½ bolli hvítvín
2 msk tómatarpúrra
parmesanostur
lúka af smátt saxaðri steinselju
1 tsk þurrkaður chillipipar (má sleppa, mér finnst smá sterkt passa við)
200 g parmaskinka
Aðferð
Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakkanum. Sigtið vatnið frá og hellið smá olíu yfir og hrærið saman svo það festist ekki saman. Finnið til stóra pönnu og steikið hvítlaukinn og laukinn á miðlungshita í 2-3 mínútur. Bætið við ólífum og tómötunum og steikið 2-3 mínútur í viðbót. Bætið hvítvíninu við, síðan tómatapúrrunni og hrærið öllu vel saman.
Bætið svo spaghettíinu við og blandið saman. Rífið vel af parmesan osti yfir, þurrkað chilli og saxaðri basilíku og rúllið upp nokkra hringi af hráskinku hér og þar eins og myndin sýnir og piprið aðeins fyrir með svörtum pipar.
Berið fram með meiri parmesan osti, saxaðir basilíku og svörtum pipar.
Verði ykkur að góðu!
Marta Rún
Skrifa Innlegg