Þessi ljúffengi réttur varð til úr afgöngum og hráefnum sem var til í ísskápnum. Allt mjög óplanað en alveg ótrúlega ljúffengur og þess vegna verð ég að deila með ykkur uppskriftinni. Pasta með ferskum tómötum, kryddjurtum, hvítlauk, sýrðum rjóma, parmesan, aspas, mozzarella og grilluðum kjúklingi. Einfaldur réttur sem klikkar ekki.
Fyrir 4
300 g fusilli pasta (eða magn eftir smekk)
3-4 dl litlir tómatar, smátt skornir
Ólífuolía
3 hvítlauksrif
1 dl sýrður rjómi
1 dl parmesan ostur
Fersk basilíka og steinselja
Salt og pipar
1-2 dl ferskur aspas, skorinn í bita
3-4 kjúklingabringur, grillaðar
1-2 ferskur mozzarella
Ferskt pestó (má sleppa)
Aðferð
- Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu.
- Snyrtið aspasinn, skerið hann smátt og steikið upp úr ólífuolíu í 8-10 mínútur á meðalhita. Passið að ofelda hann ekki.
- Saltið og piprið eftir smekk og takið hann til hliðar.
- Skerið tómatana smátt (ég sker hvern tómat í fjóra bita) og steikið upp úr ólífuolíu á vægum hita.
- Þegar tómatarnir eru orðnir mjúkir þá bætið þið saman við pressuðum hvítlauksrifjum og ferskum kryddjurtum.
- Bætið út í sýrðan rjóma, parmesan osti, aspasinn, kryddi og smá pastavatni eftir smekk.
- Skerið kjúklinginn og mozzarella í sneiðar.
- Toppið réttinn með kjúklingnum, mozzarella, pestó og ferskri basilíku.
VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & NJÓTIÐ! ♥
// HILDUR RUT
INSTAGRAM: @hildurrutingimars
Skrifa Innlegg