Ég heiti Hildur Rut og er nýr bloggari hér á Trendnet. Ég mun koma til með að deila með ykkur girnilegum uppskriftum og öðru sem tengist mat enda eitt af mínum aðal áhugamálum. Ég ætla samt einnig að fara örlítið út fyrir þægindarammann minn og skrifa um ýmislegt annað. Trendnet hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og finnst mér það vera mikill heiður að fá að vera partur af þessum flotta hópi.
Ég ætla að byrja á því að kynna mig fyrir ykkur. Ég er 32 ára og bý í Kópavogi ásamt unnusta mínum Birni Inga og börnum mínum þeim Unnari Aðalsteini (8 ára) og Eddu Vilhelmínu (18 mánaða).
Ég hef mikla ástríðu fyrir matargerð, elska að búa sjálf til mínar uppskriftir og miðla þeim til annarra. Fyrir mér snýst þó matargerð um svo miklu meira en sjálfan matinn. Fallegt umhverfi, upplifun og góður félagsskapur skiptir svo miklu máli. Ég byrjaði mjög ung að hafa áhuga á mat og matargerð og fékk oft að leika mér í eldhúsinu, elda og baka kökur. Ásamt matargerðinni hef ég mikinn áhuga á grafískri hönnun og ljósmyndun og sameina ég þetta þrennt í störfum mínum. Í dag vinn ég sjálfstætt við ýmis verkefni.
Ég er ekki alveg nýbyrjuð að blogga en ég byrjaði með hópi af flottum stelpum í nóvember 2017 á síðu sem hét Framinn.is. Ég opnaði svo mína eigin síðu hildurrut.is í október 2019 og er núna komin hingað. Þetta byrjaði allt saman eftir að ég gaf út bókina Avocado fyrir jólin 2016 en þá bók sá ég alfarið um sjálf. Ég þróaði uppskriftirnar, tók ljósmyndirnar og sá um alla hönnun og útgáfu. Bókin var upphaflega hugsuð sem lokaverkefni í margmiðlunarnámi en þróaðist fljótt í mun stærra verkefni. Eftir útgáfu bókarinnar komst hún fljótlega á metsölulista en í henni er að finna uppskriftir sem allar eiga það sameiginlegt að innihalda avókadó. Ég opnaði instagram aðganginn minn í kjölfarið en þar hef ég sýnt frá matargerðinni, sett inn uppskriftir og fleira skemmtilegt. Fyrir síðustu jól tók ég þátt í að gefa út bókina Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum, sem er samstarfsverkefni sex matarbloggara. Ég sá um hönnun bókarinnar ásamt því að taka myndir fyrir utan uppskriftamyndirnar frá hinum matarbloggurunum.
Ég er með fullt af skemmtilegum hugmyndum sem mig langar að deila með ykkur og ég hlakka til að heyra frá ykkur svo ekki hika við að hafa samband ef það er eitthvað.
Endilega fylgist með mér á instagram: @hildurrutingimars
Skrifa Innlegg