Þessi réttur er bæði einfaldur og bragðgóður. Pylsubrauð eru orðin vinsæll valkostur fyrir ýmsa rétti og það er líka svo gaman að prófa eitthvað nýtt. En mér finnst algjört must að nota brioche brauð í uppskriftina. Þessi blanda er alveg sérlega góð og þið sem eruð tígrisrækju unnendur þá mæli ég með að eiga þær alltaf til í frystinum. Það er svo gott að grípa í þær og nota í allskyns rétti.
Fyrir tvo
4 brioche pylsubrauð
12 tígrisrækjur
Panko rasp
Hveiti
1 egg
Sítrónupipar
Ólífuolía
Avókadó
Salat
Blaðlaukur
Sósa
1 dl majónes
1-2 msk söxuð steinselja
Safi úr ½ sítrónu
1 hvítlauksrif eða hvítlauksduft
Nokkrir dropar tapasco sósa
Salt og pipar
Aðferð
- Pískið egg í eina skál, hellið hveiti í aðra og raspi í þriðju. Kryddið tígrisækjurnar með sítrónupipar og smá salti og blandið þeim við hveitið þar til þær verða þaktar. Veltið þeim upp úr egginu og svo að lokum raspinu.
- Steikið þær upp úr ólífuolíu þangað til að þær verða stökkar að utan og bleikar að innan.
- Rífið salatið og smátt skerið blaðlaukinn og avókadó. Hrærið saman í sósuna.
- Hitið pylsubrauðin í ofni og fyllið þau með salatinu, lauknum, avókadó, sósunni og risarækjunum.
VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & NJÓTIÐ! ♥
// HILDUR RUT
INSTAGRAM: @hildurrutingimars
Skrifa Innlegg