fbpx

AVOCADO TOAST: 3 ÚTGÁFUR

MORGUNMATUR & BRÖNSUPPSKRIFTIR

Ristað brauð með avókadó er dásamlega gott og er eitt það allra besta sem ég fæ! Ég panta mér þetta margoft þegar ég fer á kaffihús enda er þetta oftast á matseðlinum. Þetta er tilvalið í helgarbrönsinn, morgunmat eða jafnvel hádegismat. Ég nota súrdeigsbrauð í mitt og á oftast súrdeigsbrauð í frystinum sem ég skelli í brauðristina. Hér koma þrjár hugmyndir fyrir ykkur til að njóta.

Með chili og fræblöndu
Rífur aðeins í og er dásamlega gott fyrir þá sem fíla það!

Ristuð súrdeigsbrauðsneið
1/2 avókadó
Chili eftir smekk
Hvítlauksrif
1 msk fræblanda (fæst í flestum matvöruverslunum)
Salt og pipar
Safi úr sítrónu
Baunaspírur
Steinselja

Aðferð:

  1. Skerið chili eftir smekk og steikið ásamt fræjum upp úr olíu. Pressið hvítlaukinn og bætið honum við.
  2. Skerið avókadó í sneiðar og raðið þeim á brauðsneiðina. Kreystið smá sítrónusafa yfir.
  3. Að lokum dreifið chiliblöndunni ofan á og skreytið með baunaspírum og steinselju.

Með baunaspírum og radísum
Þetta er mjög einfalt og létt í magann. Það þarf ekki að vera flókið til að vera gott.

Ristuð súrdeigsbrauðsneið
1/2 avókadó
1 radísa
Baunaspírur
Salt og pipar
Safi úr sítrónu
Steinselja (til skreytingar)

Aðferð:

  1. Stappið avókadó og smyrjið á brauðsneiðina. Kreystið smá sítrónusafa yfir og saltið og piprið.
  2. Skerið radísuna í þunnar sneiðar og dreifið yfir.
  3. Að lokum setjið baunaspírur og steinselju ofan á.

Með beikoni og hleyptu eggi
Hleypt egg, avókadó og beikon er æðisleg blanda sem klikkar ekki. Saðsamt og mjög gott.

Ristuð súrdeigsbrauðsneið
1 egg
Matreiðsluedik
½ avókadó
2 beikonsneiðar
Salt og pipar
Safi úr sítrónu
Steinselja 

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C og bakið beikonið þar til það er orðið stökkt.
  2. Hitið vatn í potti. Brjótið egg í litla skál. Hellið egginu varlega í vatnið þegar það er orðið sjóðandi heitt en alls ekki bullsjóðandi. Látið það sjóða í 3 mínútur og veiðið það upp úr með ausu.
  3. Stappið avókadó og smyrjið á brauðsneiðina.  Kreystið smá sítrónusafa yfir.
  4. Skerið beikonið í litla bita og dreifið því yfir. Tyllið hleypta egginu ofan á sneiðina og saltið og piprið eftir smekk. Skreytið með steinselju.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & NJÓTIÐ DAGSINS! :)

// HILDUR RUT

ÍTALSKAR KJÖTBOLLUR & PARMESAN KARTÖFLUMÚS

Skrifa Innlegg