Það sem að hefur einkennt mína daga það sem af er ári er förðunarnámið sem ég stunda í Make-Up Studio Hörpu Kára. Eins og ég talaði um í fyrri færslu þá var þessi ákvörðun tekin í nokkuð mikilli hvatvísi og sé ég alls ekki eftir henni. Förðunarnám er eitthvað sem ég hef oft hugsað um að væri gaman að læra og gott að búa yfir. Nám sem nýtist á fleiri stöðum en mann nokkurn tímann grunar. Þetta hefur lofað einstaklega góðu hingað til og hefur áhugi minn á förðun aukist jafnt og þétt frá fyrsta degi. Við lærum eitthvað nýtt á hverjum degi og það hvetur mann líka sérstaklega að sjá eigin framfarir! Ég sé sannarlega ekki eftir að hafa skellt mér í námið og hlakka til að mæta á hverjum degi. Þar sem þetta er eitthvað sem að einkennir mína daga ákvað ég að gefa ykkur smá innsýn inn í það hvað ég hef verið að gera frá viku eitt, nokkurs konar samantekt. Það er partur af öllu saman að búa til ‘make-up’ Instagram aðgang fyrir okkur sjálfar. Tilgangurinn er nokkurs konar rafræn mappa, bæði fyrir kennara skólans að fylgjast með og eins fyrir okkur sjálfar að eiga allt sem við gerum í skólanum á einum og sama staðnum – og auðvitað síðast en ekki síst til að sjá framfarir. Það er strax ótrúlega magnað að sjá muninn á fyrstu myndunum og þeim sem nýlegastar eru. Það er alls engin pressa að hafa þennan aðgang opinn öllum en það er ákvörðun hvers og eins. Ég hef hingað til haldið honum fyrir mig sjálfa og kennara skólans – aldrei að vita nema ég opni hann einn daginn.
First day of school!
Á fimmtudögum eru “módel” tímar í skólanum. Þórhildur, fallega besta vinkona mín, kom í fyrsta módel tímann minn sem var á annarri viku í ‘smokey‘ og ‘dökkar varir‘.
Sterkar varir við no make-up look.
Fríða María, ein allra flottasta og eftirsóttasta sminkan í bransanum var með ‘no make-up, make-up’ masterclass og notaði mig sem módel. Ekkert smá magnað að fylgjast með henni að störfum!
Í mínum öðrum módel tíma fékk ég fallegu vinkonu mína, Elínu Lovísu til að sitja fyrir hjá mér. Ekki erfitt að farða þessa fallegu vinkonu en við gerðum tvö lúkk þennan daginn, það fyrra var ‘no make-up, make-up‘ og það seinna var ‘brúðarförðun‘.
Happy Monday.
Glæsilega Anna Þrúður mega flott með ‘beauty’ förðun eftir mig. Heppin með bekkjarsystur!
Og hér er ég með beauty förðun eftir Önnu Þrúði.
Heppin ég að eiga svona margar vinkonur, hver annarri fallegri. Katla, mín elsta og besta kom til mín í dag í ‘soft glam‘ förðun og ég gerði svokallaða ‘halo‘ förðun á hana. Mér hefur alltaf þótt þessi förðun flott og lengi langað að prófa. Guðrún okkar Sortveit hér á Trendnet var með soft-glam sýnikennslu á mánudaginn þar sem hún sýndi okkur ‘halo’ förðun. Ég var ótrúlega ánægð með útkomuna í dag þó ég segi sjálf frá! Líkt og ég nefndi ofar í færslunni finnst mér sérstaklega gaman að sjá framfarir með tímanum sem líður. Maður er að læra miklu meira en mann grunar einhvern veginn – ég allavega kem sjálfri mér reglulega á óvart og er oftast betri en ég þori að vona (þó ég segi sjálf frá), sem þýðir að þetta er að skila ansi miklu og ég gæti ekki verið sáttari. Núna er seinni helmingur námsins genginn í garð og ég hlakka til að gera svipaða samantekt að námi loknu þegar ég verð vonandi útskrifaður förðunarfræðingur.
Þangað til næst,
xxx Fanney
Instagram: fanneyingvars
Skrifa Innlegg