Frídagurinn var vel nýttur í þetta skiptið en við Emil tókum gestina okkar til Feneyja. Feneyjar eru einungis í um einnar klukkustundar fjarlægð frá Verona og því frábært að hoppa upp í lest og eyða deginum þar. Að rölta um þröngar göturnar er alveg æðislegt, húsunum er vel við haldið og í öllum regnbogans litum sem fær mann til að brosa. Einnig er dásamlegt að sjá hvernig fólkið lifir, þvotturinn hangir á milli húsanna, bátarnir geymdir í þar til gerðum “bílskúrum” og ruslapokarnir hanga á húsunum tilbúnir fyrir öskubátinn sem sækir þá og flytur til eyðingar.
Að sigla um síkin í gondólum er síðan eitthvað sem allir verða að prufa. Ef það er ekki komið á bucket-listann ykkar nú þegar, endilega skrifið það þá niður núna. Kyrrðin sem liggur í loftinu er engu lík en þar sem það eru engir bílar á svæðinu er þögnin mikil. Við hjónin hefðum helst viljað sofna við ölduniðinn í þessari bátsferð en svo huggulegt var þarna hjá okkur.
Myndirnar segja ekki nema hálfa söguna en sjón er svo sannarlega sögu ríkari í þessu tilfelli.
Skrifa Innlegg