Ég hef aldrei á ævinni verið jafn dugleg að elda mat en þessa tvo fyrstu mánuði ársins 2015. Í fyrsta lagi erum við hætt að fara út á borða ( já ég veit ég bý á Ítalíu ) og í öðru lagi hefur mér aldrei þótt jafn gaman að elda og nú enda hefur maturinn minn aldrei bragðast jafn vel, þökk sé sykurleysinu.
Allur maturinn sem ég elda geri ég að sjálfsögðu frá grunni. Hann er sykur og hveitilaus, fullur af næringu, veitir góða og langvarandi mettun og bragðlaukarnir elsk´ann. Ég leitast við að afla mér upplýsinga um vörurnar sem ég nota en það matvæli sem hefur komið mér mest á óvart er byggið. Þar sem ég bý með atvinnu-íþróttamanni er eldað hér á heimilinu í öll mál og fyrir æfingar dugir ekki bara ein jógúrt. Kamut pasta/gróf hýðishrísgrjón/gróft heimagert brauð hefur verið svona helst á hádegismatseðlinum en eftir að ég komst í kynni við byggið er ekki aftur snúið. Bygg er trefjaríkt, hollt og gott korn sem hefur svo marga jákvæða eiginleika að það er ekki hægt að horfa framhjá því.
Kíkjum betur á:
Skjáskot af heimasíðu Vallanes.is
Þessi mynd hér að ofan er fengin að láni frá Gunnari Má, höfundi rafbókarinnar “Hættu að borða sykur” ( habs.is ). Tölurnar sýna sambanburð hvaða áhrif matvælin hafa á blóðsykurinn og því er byggið ótvíræður sigurvegari brúnu grjónanna.
Hér höfum við síðan hádegisverðinn okkar borinn fram. Ég sýð venjulega bygg fyrir nokkra daga í einu og geymi í ísskápnum, sker niður það grænmeti sem ég á til og svissa saman á tíu mínútum. Á myndinni hér að ofan steikti ég saman bygg, brokkolí, afgangs kjúkling, lauk, chilliflögur og pipar. Máltíðin er síðan toppuð með góðri lífrænni ólífuolíu og nokkrum saltflögum.
Byggið er ekkert verra þó það sé kalt og því er alveg tilvalið að bygg-a sig upp fyrir vinnuna, skólann eða ferðalagið. Við Emil tókum einmitt með okkur stórt nestibox með byggi í flug þegar við kíktum til Svíþjóðar um daginn, en það er auðvitað algjör óþarfi að falla í sykurgryfjuna þó maður leggi land undir fót.
:-)
Skrifa Innlegg