Þetta er hann Giulio ( lesist Djúlíó), vinur okkar Emils til þriggja ára. Hann er einn af þeim sem er alltaf flottur í tauinu, líka þegar það er rigning úti og mánudagsmorgun í þokkabót. Hann er alltaf glaður og alltaf til í smá spjall og það er ekki verra ef það er um skó. Hann er á sjötugsaldri og kominn á eftirlaun en hann segist halda sér ungum og í góðu formi með því að ganga tíu kílómetra á dag, drekka vatn, horfa í átt til sólar og tala við skemmtilegt fólk. Hann tippar á fótboltaleiki eins og enginn sé morgundagurinn en eftir að hann kynntist okkur spáir hann mikið í Pepsideildinni og tippar nú eins og óður maður á KR, Stjörnuna og FH. Hann pælir einnig mikið í öðrum íslenskum knattspyrnumönnum sem leika erlendis og segir okkur reglulega hvað sé að frétta af þeim.
Giulio er einn af þeim allra best klæddu í Verona og í dag var hann í stífpressuðum svörtum jakkafötum og skirtu frá ítalska tískuhúsinu Armani. Þau eru að sjálfsögðu vel aðsniðin eins og alvöru karlmenn gera þetta ! Punkturinn yfir i-ið voru svo bleiku reimarnar á svörtu Clarks skónum hans en hann pælir mikið í smáatriðunum á flíkunum sem hann klæðist. Rauðköflótta regnhlífin lét hann síðan líta út eins og klipptan út úr bíómynd þegar við horfðum á eftir honum ganga yfir brúna Ponte Pietra í miðborg Verona.
Sjáið þið hvað hann er flottur og spengilegur kallinn ?! :-)
Svona fólk gerir lífið og tilveruna svo sannarlega fallegri, það er bara þannig.
Skrifa Innlegg