fbpx

Arnhildur Anna

AFHVERJU KRAFTLYFTINGAR?

Ég fæ oft alls konar spurningar um kraftlyftingarnar svo mér finnst tilvalið að fjalla um íþróttina í fyrsta pistlinum mínum hér og svara því hvernig ég leiddist inn í sportið.

Kraftlyftingar saman standa af hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Keppt er í þyngdarflokkum og aldursflokkum. Keppendur fá þrjár tilraunir í hverri grein, svo í heildina eru 9 lyftur framkvæmdar og er markmiðið að lyfta sem mestri þyngd.

Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um hvað kraftlyftingar voru áður en ég byrjaði sjálf að æfa. Fyrst fannst mér tilhugsunin fáránleg við að klæða mig í singlet, setja á mig lyftingabelti og lyfta eins þungu og ég gæti fyrir framan fullt af fólki. Ég hafði oft séð karla með lyftingabelti í ræktinni og ég lofaði sjálfri mér því að setja aldrei á mig slíkt. Í dag er lyftingabeltið mitt algjörlega ómissandi og ég held mjög mikið uppá það. Frekar fyndið að hugsa til þess. Í dag á ég 13 Íslandsmet, hef unnið Íslands- og Bikarmeistaratitla og ferðast um heiminn á EM og HM. Tvítug Arnhildur hefði hlegið að þessum staðreyndum!

Allavega. Aðal ástæðan fyrir því að ég fór í kraftlyftingar er mamma. Hún er mín helsta fyrirmynd í einu og öllu. Hún sjálf var að keppa í kraftlyftingum á þeim tíma og mér fannst hún svo kúl, enda sjúklega sterk og í geggjuðu formi. Ég var varla komin heim úr útskriftarferð Kvennó þegar ég sendi skilaboð á Ingimund Björgvinsson, þjálfara mömmu og í mögulega versta formi lífs míns, vel södd eftir McDonalds og þrotuð á því var ég mjög tilbúin að taka mig í gegn. Það tók mig ekki langan tíma að ná góðum árangri og styrkjast helling bæði líkamlega og andlega. Á þeim tíma var ekki mikið um konur í kraftlyftingum, svo þetta þótti heldur sérstakt og þegar ég lít til baka þá er ég mjög stolt af nítján ára gamalli Arnhildi að hafa lagt svona mikið á sig til að ná árangri og hafa sett heilbrigðan lífsstíl í forgang. Ég man hvað mér þótti það erfitt enda á menntaskólaárunum og nóg að gera í félagslífinu. Er svo ánægð með þessa bylgju sem er í gangi núna. Allar stelpur vilja vera svo sterkar, sem er geggjað!  

Kraftlyftingar eru svo mælanleg íþrótt og á sama tíma er árangurinn svo augljós. Það tók mig ekki langan tíma að verða heltekin af íþróttinni. Ég held að ég viti ekki um betri tilfinningu en að verða sterkari og ég mun aldrei hætta að lyfta lóðum :)

Arnhildur Anna xx

Instagram: arnhilduranna 

HALLÓ TRENDNET

Skrifa Innlegg