fbpx

ELDHÚS FYRIR OG EFTIR / AÐFERÐ

FLUTNINGARFRAMKVÆMDIRHEIMILIÐHÚSGÖGNSAMSTARF

JÆJA! Þá er loksins komið að því að birta langþráða færslu um framkvæmdina sem við unnum í eldhúsinu í nýju íbúðinni. Ég ætlaði að vera löngu búin að koma þessari færslu frá mér og bjóst aldrei við að ég yrði fyrst núna að birta hana! Sannleikurinn er sá að allt sem tengist framkvæmdum og þá meina ég allt(!), tekur alltaf lengri tíma heldur en ráð gera fyrir. Eldhúsið sjálft er í raun og veru löngu tilbúið en við vorum ansi lengi að bíða eftir ísskápnum okkar sem kom í síðustu viku og eins var það platan sem fór framan á innbyggðu uppvottavélina okkar sem tafði okkur helling. Fyrri eigendur voru semsagt ekki með innbyggða uppþvottavél en það kom ekki annað til greina hjá okkur en að hafa slíka. Við þurftum því að kaupa nýja plötu hjá Brúnás sem tók nokkrar vikur að fá í hendurnar. Eins þurftum við að saga út parket fyrir sökkulinn undir plötuna og hvoru tveggja lökkuðum við svo að sjálfsögðu í sama lit og innréttingin.

Eldhúsið er því loksins komið með þessa heildarmynd sem við vorum búin að bíða lengi eftir en um leið og platan fór framan á uppþvottavélina og ísskápurinn fór á sinn stað varð eldhúsið okkar loksins tilbúið og heildarmyndin æðisleg, þó við segjum sjálf frá! Við erum í skýjunum með útkomuna en við hófum þetta ferli um miðjan desember og síðan þá hef ég verið rukkuð um óteljandi svör og útskýringar varðandi allt sem tengist þessari framkvæmd! Ég skil það ótrúlega vel enda finnst mér sjálfri breytingin stórkostleg og líkt og um nýja innréttingu sé að ræða. Ég er ótrúlega stolt af þessu verkefni og sérstaklega af því að hafa gott sem búið til nýtt eldhús þrátt fyrir að hafa nýtt allt sem var til staðar fyrir. Þetta hefur eflaust opnað augun hjá mörgum og hef ég fengið óteljandi viðbrögð alls staðar í kring frá öllum aldurshópum um hvað þetta sé eitthvað sem þeim hefur lengi langað að gera og ætla nú loksins að láta verða af. Það finnst mér ofsalega gaman að heyra því auðvitað getur framkvæmd af þessu tagi verið pínu ógnvænleg og eðlilega eru margir hræddir við að taka af skarið. Það þarf ekki alltaf að henda öllu út og kaupa allt nýtt inn til þess að breyta til. Það er allavega hægt að kanna aðra möguleika áður! Okkur allavega líður eins og um nýtt eldhús sé að ræða þrátt fyrir að svo sé alls ekki og stolt af því að hafa getað nýtt það sem var fyrir.

Upprunalega eldhúsinnréttingin er viðarinnrétting úr Brúnás, ásamt öllu öðru í íbúðinni, innréttingum, fataskápum og hurðum. Allt er því ansi veglegt og innréttingin sem slík ofsalega falleg og stílhrein. Við vorum ekki jafn hrifin af litnum á henni, þessum týpíska eikarlit og vissum það strax að við myndum losa okkur við hann. Ég var með ákveðna mynd í huganum strax frá upphafi en það var þetta svarta, matta lúkk sem mér finnst ofsalega fallegt. Fyrst datt mér í hug að filma innréttingarnar því ég hafði séð það hjá mörgum og alltaf fannst mér það koma vel út, það virtist auðvelt og ódýrt sem er að sjálfsögðu afar góður kostur. Eftir að hafa kynnt okkur ýmislegt varðandi það ákváðum við að það myndi ekki henta okkur með fullri virðingu fyrir öllum þeim sem hafa gert það, enda eins og ég segi hefur mér alltaf þótt það koma vel út. Helsta ástæðan fyrir því var það að við vorum ekki hlynnt því að fara að líma plastfilmur framan á veglega eikarinnréttingu og einnig vissum við að það er alltaf ákveðin hætta á að filmurnar fari að losna með tímanum og með barn á heimilinu ákváðum við að sú framkvæmd myndi ekki henta okkur. Við fórum því að kanna það að mála/lakka innréttingarnar. Ég fór upp í Slippfélag og útskýrði nákvæmlega fyrir þeim hvað ég hefði í huga og þau sýndu mér hvað væri í boði. Mér leist ótrúlega vel á það og við Teitur ákváðum að þessi framkvæmd yrði fyrir valinu, semsagt að lakka innréttingarnar sjálf í svörtum, möttum lit. Í kjölfarið myndaðist svo frábært samstarf við Slippfélagið sem hjálpuðu okkur að finna út úr öllum þeim pælingum sem ég hafði í huga. Leiðbeindu okkur allt ferlið skref fyrir skref, hvort sem það var efnið, viðeigandi verkfæri eða verkið sjálft.

Margir spurðu mig af hverju við létum ekki sprauta innréttingarnar. Við könnuðum þann kost að sjálfsögðu því vissulega vorum við stressuð um hvernig áferðin kæmi út því lakkið er svo örþunnt og ef ekki eru notuð rétt verkfæri við framkvæmdina er auðvelt að klúðra áferðinni. Það að leigja sprautu eða senda í sprautun er fyrst og fremst mjög dýrt og ákváðum við því að treysta á okkur sjálf og lakka sjálf. Þetta verkefni er vissulega mjög tímafrekt og eitthvað sem maður þarf að gefa sér tíma í og að sjálfsögðu vanda sig sérstaklega vel til verka. Núna þegar eldhúsinnréttingin er komin upp er ég ofsalega stolt af því að hafa gert þetta allt saman sjálf, hvert einasta skref. Verkefnið tókst gríðarlega vel til og áferðin hefði varla getað heppnast betur – ég segi það aftur að rétt verkfæri við þessa framkvæmd er gríðarlega mikilvægur liður í ferlinu og myndi ég undir öllum kringum stæðum fá fagaðila í Slippfélaginu til að benda ykkur á hvaða rúllur ber að nota. Ég hef fengið ótal fyrirspurnir varðandi hvaða rúllur við notuðum – ég man ómögulega nafnið á þeim en ég veit að þær voru sérstaklega mjúkar, eflaust með mýkstu rúllum sem völ er á, en ég mæli með fyrir alla að fá fagaðila til að benda ykkur á rétta rúllu í verkið!

Ég held að mér sé óhætt að lýsa því þannig að Instagramið mitt “sprakk” á meðan þessari framkvæmd stóð en annað eins áhorf, áhuga og viðbrögð hef ég aldrei fundið fyrir á mínum miðlum. Það hvatti mig til að sína enn meira frá því ég fann hvað fólk var áhugasamt og þótti mér ofsalega vænt um það, sérstaklega þegar fólk gaf sér tíma til að senda mér skilaboð. Þetta varð allt til þess að mig langaði að sína enn meira frá og leyfa ykkur að fylgjast enn betur með “í beinni” frá upphafi til enda. Ég ætla að leyfa myndunum hér fyrir neðan að tala sínu máli, byrja á myndunum af eldhúsinu hvernig það leit út fyrir og svo hvernig það leit út eftir að við tókum það í gegn. Þar fyrir neðan er svo að finna allar upplýsingar um aðferð skref fyrir skref, efni og svör við öllum þeim fyrirspurnum sem mér hafa borist á mínum miðlum. <3

___________________________________________________________________________________

FYRIR:

__________________________________________________________________________________

EFTIR:

 

__________________________________________________________________________________

Þið verðið að hunsa ljósin en ljósa-mission hefur mætt afgangi og er næst á dagskrá hjá okkur! Undirrituð gat einfaldlega ekki beðið lengur með að birta myndirnar haha. Ég mun skella inn betri myndum þegar eldhúsið er 100% tilbúið en ég gat ómögulega beðið lengur með þetta enda líka óljóst hvenær nákvæmlega ljósin verða tilbúin. Við erum mjög hrifin af þeirri hugmynd að setja mögulega ljósabraut með kösturum í eldhúsið þar en mér finnst rýmið bjóða sérstaklega vel upp á það. Þetta er allt í vinnslu og alls ekkert ákveðið. Eins er auðvitað allt sem ég birti á þessari stundu mjög hrátt og veggir ansi tómir. Við ákváðum að gefa okkur tíma í slíkar ákvarðanir þar sem við vildum ekki negla nagla hér og þar í einhverju flýti og vera svo ekki sátt og þurfa að spasla og mála aftur. Nauðsynlegt að búa inni á heimilinu í smá stund og fá tilfinningu fyrir hinu og þessu svo ekki séu gerð einhver fljótfærnis mistök.

___________________________________________________________________________________

Efni:

Hér er efnið sem við notuðum. Ég ákvað að leyfa seinni myndinni að fylgja sem útskýrir á leikskólamáli hvað er hvað. ;) Lakkið og grunnurinn heitir Helmi, frá Tikkurila og fæst í Slippfélaginu. Lakkið er merkt “Græna Svaninum” sem þýðir að það er umhverfisvottað og lyktarlaust sem mér fannst að sjálfsögðu frábær kostur. Lakkið kemur í nokkrum mismunandi gljástigum. 10, (sem við fengum okkur), er alveg matt og það mattasta sem þú getur fengið. Mig minnir að hæsta talan sé 80 og þá er lakkið orðið háglans. Annað sem þarf að eiga er sandpappír, verkfæri (þ.e. rúllur) og einhverskonar alhreinsi sem tekur fitu.

___________________________________________________________________________________

Aðferð:

Step 1:
Þrífa vel og pússa. Mjög mikilvægt að platan sé alltaf hrein og laus við alla fitu áður en grunnur og lakk fer á.

Step 2:
Grunna. Grunnurinn er svo látinn þorna í amk. 4 klst.

Step 3:
Lakka fyrri umferð. Fyrri umferð af lakki lökkuð yfir grunninn og svo látin þorna í 18 klst áður en seinni umferð er lökkuð. Við pússuðum alltaf lítillega á milli skrefa með léttum sandpappír og þrifum alltaf plötuna vel.

Step 4:
Lakka seinni umferð og bíða í 18 klst.

___________________________________________________________________________________

Algengar spurningar:

Efni og aðferð?

Hvoru tveggja hef ég lýst ítarlega hér fyrir ofan en í einstaklega stuttu máli þá lökkuðum við og grunnuðum með efni frá Helmi sem er umhverfisvottað, lyktarlaust og merkt Græna svaninum. Það er fáanlegt í Slippfélaginu. Aðferðin lýsir sér í stuttu máli: 1. Þrífa og pússa – 2. Grunna (bíða í 4 tíma) – 3. Lakka fyrri umferð (bíða í 18 tíma) – 4. Lakka seinni umferð (bíða í 18 tíma). Alltaf að passa að platan sé 100% hrein og laus við alla fitu í hverju skrefi fyrir sig.

Hvernig rúllur notuðuð þið?

Þetta er líka eitthvað sem ég kom inn á hér fyrir ofan en í stuttu máli þá voru þær dúnmjúkar og við vorum með tvær stærðir. Við notuðumst aðallega við þá minni en stærri var ætluð fyrir stærri plötur líkt og hurðir. Ég veit ekki hvað þær heita eða hvort þær yfir höfuð heiti eitthvað en líkt og ég hef talað um skipta verkfærin gríðarlega miklu máli hér og hvet ég ykkur til að fá fagaðila í Slippfélaginu til að benda ykkur á rétta rúllu. Við notuðum sömu rúllu í grunn og lakk.

Hvort að viðurinn (æðarnar) sjáist vel í gegn?

Ég var einmitt mjög stressuð varðandi þetta en við vildum ólm að æðarnar í viðnum myndu skína í gegn. Okkur var tjáð það að með þessu lakki gætum við 100% treyst því. Þegar við byrjuðum að grunna og lakka þá höfðu hvorki pabbi minn né tengdapabbi neina einustu trú á því að við myndum fá ósk þessa uppfyllta sökum þess að æðarnar eru ofsalega grunnar og viðurinn fínn í innréttingunni svo við vorum því farin að leyfa okkur að efast. Viti menn, þrátt fyrir að æðarnar séu grunnar þá skína þær fallega í gegn. Það gæti verið erfitt að sjá á myndunum en við erum einmitt SVO ánægð að þær sjáist svona vel og viðurinn fái að njóta sín! Einmitt þess vegna, ásamt svo mörgu öðru, myndi ég mæla með einmitt þessu lakki ef þið eruð í svipuðum pælingum og viljið leyfa æðunum á viðnum að njóta sín!

Hvað gerðuð þið við höldurnar?

Við vorum búin að fara fram og til baka með hvað við ættum að gera varðandi þær – við vorum búin að finna fallegar höldur á t.d. Ali Express og fleiri stöðum en eftir miklar vangaveltur ákváðum við fyrst að kanna hvernig það kæmi út að húða þessar upprunalegu höldur frá Brúnás, þar sem þær voru nokkuð klassískar og stílhreinar. Ég hafði samband við Pólýhúðun í Kópavogi sem að tóku á móti mér með allar höldur íbúðarinnar og gerðu þær svartar, mattar fyrir mig. Ég vissi ekkert við hverju ætti að búast en í versta falli þá hefðum við pantað nýjar ódýrar höldur að utan. Höldurnar komu ótrúlega vel út úr húðuninni svo þá kom að sjálfsögðu ekki annað til greina en að nota þær.

Hvort að ég sé stöðugt að þrífa kámug fingraför af innréttingunni?

Ég var mjög meðvituð um þetta þegar við hófum ferlið að það gæti orðið kúnst að halda þessu hreinu því fita og annað sést auðveldlega á svartri, mattri innréttingu. Við vorum með svarta innréttingu í Barmahlíðinni og finnst mér þessi ekkert öðruvísi. Það kemur mér sérstaklega á óvart hvað ég hef lítið þurft að þrífa og ég held að þess þurfi ekkert meira á þessari innréttingu frekar en annarri. Ef það koma fingraför hef ég hingað til bara notast við heitt vatn og tusku og það svínvirkar. Ég hef ekki enn þorað að spreyja neinu efni á innréttinguna út af lakkinu en það er eflaust bara sérviska í mér. Fyrir fólk með börn sem voru að velta þessu fyrir sér að þá held ég basically að vinnan sé alltaf sú sama – það vissulega sést meira á svörtu en það er samt minna en ég bjóst við og alls ekki þannig vinna að ekki sé hægt að hafa svarta innréttingu með börn. Fingraför eru líka bara partur af heimili þar sem búa börn. ;)

Hversu tímafrekt, hversu erfitt og hvort þetta sé þess virði?

Sko, ég hef ekkert skafað af því að þessi vinna er klárlega mjög tímafrek og líkt og ég hef talað um þá er þetta heldur ekki framkvæmd sem maður gerir í flýti því hér skiptir áferð öllu máli og því mikilvægt að vanda sig vel. Þetta er samt ALLS ekki erfið framkvæmd þó ég lýsi þessu svona. Flest allir sem geta vandað sig ættu að geta gert þetta sjálfir með réttu lakki og réttum verkfærum og þá er ofsalega mikilvægt að vera búin að fá leiðsögn frá starfsmanni. Það sem var kannski mest krefjandi var nákvæmnisvinnan að lakka sökkulinn við gólfið og meðfram lofti og veggjum. Þar ætla ég að gefa pabba mínum (Picasso samtímans), shout out og kredit! Hann sá um þá vinnu fyrir okkur og þar fyrir utan leiðbeindi okkur mikið í þessari framkvæmd. Annars er það aðallega biðin á milli skrefa sem gerir ferlið svona langt. Við vorum alls ekki lengi að lakka eina hlið á plötu – það tók kannski 1 mínútu en svo var það biðin þar til maður gat farið í næsta skref sem tók mest á og lengdi ferlið töluvert. Þetta er alls ekki leiðinlegt verkefni og það er líka mikilvægt að hafa ágætis aðstöðu. Við vorum náttúrulega búin að þessu áður en við fluttum inn svo við vorum með fínustu aðstöðu hér úti á miðju gólfi í íbúðinni. Við lökkuðum samt bara eldhúsinnréttinguna og forstofuskápinn og eigum þar af leiðandi allar hurðir, fataskápa og baðherbergisinnréttingu eftir. Þetta er 100% þess virði að mínu mati og þið sjáið það eflaust sjálf á myndunum. Nú eigum við “glænýtt” eldhús!

Af hverju lökkuðuð þið ekki allt í einu?

Ástæðan fyrir því var aðallega sú að við höfum náttúrulega aldrei gert þetta áður og gátum ekki vitað fyrirfram hvernig þetta myndi nákvæmlega koma út. Þess vegna ákváðum við að byrja á eldhúsinnéttingunni því hún var líka eitt af því sem ég vildi að yrði tilbúið þegar við myndum flytja inn. Við ákváðum svo að setja forstofuskápana með í ferlið. Það sem ég sá samt alltaf eftir var að hafa ekki tekið baðherbergisinnréttinguna með í ferlið líka en það þýðir ekki að spá í því núna. Við höfðum heldur ekki pláss fyrir það að hafa allar þessar plötur úti um öll gólf í íbúðinni þar sem það var auðvitað verið að vinna í henni líka. Við ætlum að nýta aukaherbergið í það að vinna restina smám saman – byrja á baðherberginu og fara í svo hurðir og fataskápa. Við getum verið óhrædd við að lakka plöturnar inni í íbúðinni þrátt fyrir að það sé barn á heimilinu þar sem lakkið sem við notum er líkt og ég nefndi, lyktarlaust og umhverfisvottað.

Kom aldrei til greina að láta sprauta innréttinguna?

Jú, klárlega. Ég kom inn á þetta hér fyrir ofan en það er möguleiki sem við könnuðum. Við þekktum engan í kringum okkur sem að átti sprautu til að lána okkur og bæði það að senda í sprautun eða leigja sprautu var bara mun dýrara en við bjuggumst við. Fyrir vikið ákváðum við að treysta á okkur sjálf með réttum verkfærum. Það tókst sannarlega vel. Við höfum hinsvegar velt því fyrir okkur hvort við ættum að láta sprauta hurðirnar í íbúðinni. Þær eru það massívar og stórar að það gæti munað umtalsvert. Það er ekkert ákveðið, bara möguleiki sem við munum jafnvel kanna.

Litur á veggjum?

Liturinn sem við erum með á alrýminu og þar á meðal eldhúsinu heitir Volgur og er hannaður af Sæju innanhúsarkitekt í samstarfi við Slippfélagið. Semsagt fáanlegur í Slippfélaginu.

Hvaðan er....
Eldhúsborðið?

Ég ákvað að láta þessar fyrirspurnir og svör fylgja með því það hefur ekki verið minna af þeim undanfarið eftir að ég byrjaði að birta myndir af eldhúsinu á Instagram. Eldhúsborðið okkar er íslensk hönnun frá fyrirtæki sem heitir VIGT og er staðsett í Grindavík. Ég sá þetta borð fyrst árið 2016 þegar fyrirtækið var stofnað og hefur mig bókstaflega dreymt um að eignast það síðan. Það eru alls ekki öll rými sem að bera hringborð en þessi litli eldhúskrókur var bókstaflega búinn til fyrir hringborð. Um leið og við skoðuðum sá ég borð drauma minna fyrir mér þar og leyfðum við okkur að fjárfesta í því. Við sjáum alls ekki eftir því og finnst mér það alveg setja punktinn yfir i-ið í eldhúsinu.

Kaffivélin?

Kaffivélina gaf ég Teiti Páli í þrítugsafmælisgjöf. Hann er mikill kaffi áhugamaður og var búinn að lúða yfir sig á youtube í marga mánuði að skoða myndbönd af þessari tilteknu kaffivél svo ég ákvað að lokum að slá í gegn og gaf honum vélina í þrítugsafmælisgjöf. Vélin er vissulega mjög dýr en hún er náttúrlega algjörlega á pari við vélarnar sem notaðar eru á kaffihúsum svo það útskýrir verðið. Vélin er frá Sage, heitir Oracle Touch og ég keypti hana í Byggt og Búið. Ég hef sjaldan séð jafn glaðan mann og undirrituð fór meira að segja að drekka kaffi eftir að gripurinn kom inn á heimilið. Vá hvað ég er spennt að verða þrítug! ;)

Ísskápurinn?

Ísskápinn keyptum við í Ormsson og er frá Samsung. Við vorum með einstaklega fallegan svartan SMEG ísskáp í Barmahlíðinni en innréttingin í nýju íbúðinni gerði ráð fyrir tvöföldum ísskáp svo við þurftum því að fjárfesta í nýjum. Það kom aldrei annað til greina en að fá okkur svartan í takt við innéttinguna og framboðið af svörtum, tvöföldum ísskápum hér heima er takmarkað. Um leið og við sáum þennan var það eiginlega bara ákveðið! Við erum ótrúlega ánægð með hann en hann uppfyllti allar okkar kröfur. Stílhreinn og einstaklega fallegur! Hann var líka á nokkuð sanngjörnu verði miðað við hversu dýra tvöfalda ísskápa hægt er að fá. Ég mæli með!

Barborðið?

Barborðið okkar fallega er frá By On og er úr Snúrunni. Tengdaforeldrar mínir gáfu okkur það í jólagjöf árið 2017 en því miður var einfaldlega aldrei almennilegt pláss fyrir það í Barmahlíðinni svo það var mestan tímann látið dúsa inni í svefnherberginu okkar og fékk aldrei almennilega að njóta sín. Loksins fær það að njóta sín og rúmlega það.

Gardínurnar?

Þær eru frá Álnabæ. Við erum með sólar-screen rúllugardínur í glugganum sem við getum dregið fyrir og svo “voal” gardínur í off white. Ólýsanlega ánægð með þær!

Loftljósið?

Loftljósið keypti Teitur í CB2 í New York áður en við byrjuðum saman. CB2 er í raun Crate and Barrel 2.

Stólarnir?

Stólana var Teitur einmitt ný byrjaður að safna þegar við byrjuðum saman. Þetta eru Eames stólarnir fallegu úr Pennanum.

Bakkinn undir olíurnar, vasinn og gerviblómin?

Bakkann og kúlulaga vasann fékk ég hvoru tveggja að gjöf og eru úr Snúrunni. Gerviblómin keypti ég í Módern.

___________________________________________________________________________________

Voila!

___________________________________________________________________________________

Við erum vægast sagt í skýjunum með útkomuna. Ég ætla ekkert að skafa af því. Það getur vel verið að einn daginn fáum við okkur mögulega nýjan vask og blöndunartæki en ég segi það enn og aftur að heimilið er endalaus vinna sem verður aldrei tilbúin. Manni er alltaf að detta eitthvað nýtt í hug – sem er líka svo skemmtilegt. Þessi framkvæmd tókst allavega ótrúlega vel til og ég vil þakka Slippfélaginu sérstaklega fyrir frábæra þjónustu og leiðbeiningar – já og pabba mínum sem hjálpaði okkur mikið í þessari tilteknu framkvæmd.
Ég vil líka nýta tækifærið og þakka ykkur fyrir öll ykkar viðbrögð og áhuga. Það gefur mér meira en nokkurn grunar og hvatti mig einnig til að sýna meira frá. <3

Annars er ansi þungu fargi af mér létt að koma þessari færslu loksins í loftið og svara öllum ykkar ótal mörgu fyrirspurnum. Þessi færsla hefur tekið óendanlega mikinn tíma í vinnslu og ég vona að ég hafi munað eftir flestu. Það væri ótrúlega gaman að heyra frá ykkur viðbrögð og ykkur er velkomið að senda ef eitthvað er ekki nógu skýrt eða sem ég hef ekki komið inn á.

Vonandi hjálpar þetta ykkur <3

___________________________________________________________________________________

Við erum hvergi nærri hætt enda líkt og ég hef komið inn á er nóg eftir – ég mun halda áfram að leyfa ykkur að fylgjast með framkvæmdum á Instagraminu mínu undir: @fanneyingvars og að sjálfsögðu hér á Trendnet. <3

Ykkar,
Fanney

 

OUTFIT

Skrifa Innlegg