fbpx

TRENDNÝTT

MISBRIGÐI – SÝNING FATAHÖNNUÐA FRAMTÍÐARINNAR

FÓLKKYNNINGSJÁLFBÆR TÍSKA

Misbrigði er sýning fatahönnunarnema á 2. ári við Listaháskóla Íslands, en hún fer fram í ár með mjög óvenjulegum hætti. Verkefnið sem er árlegt samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Fatasöfnunar Rauða Kross Íslands hefur alla jafna verið sýnt í formi hefðbundinnar tískusýningar, en í ár, 2020, hefur Covid-19 heldur betur sett strik í reikninginn og krafið nemendur og kennara um að hugsa út fyrir sýningarpallinn.

Í ár eru Misbrigði sýnd með gluggaútstillingu í Rauða Kross verslun miðbæjar Reykjavíkur við Hlemm. Hver nemandi hefur unnið 20 sekúndna tískumyndband út frá sinni línu og eru myndböndin sýnd á skjám í glugganum þegar búðin er opin, ásamt gínum með fatnaði nemenda.

Sýningin opnaði föstudaginn 27. nóvember og stendur til 4. desember 2020.

Trendnet fær þann heiður að frumsýna myndbandið í netheimum – gjörið svo vel! Við hvetjum ykkur til að hjálpa fatahönnuðum framtíðarinnar að deila þessari frábæru vinnu þeirra.

[vimeo 484397276 w=960 h=540]
Klippari er Hrund Atladóttir, kennarar í áfanganum voru Katrín María Káradóttir, Darren Mark, Anna Clausen og Saga Sigurðardóttir. Ólafur Þór Kristinsson vann kynningarefni fyrir sýninguna.

Með Misbrigðum vinna nemendur á öðru ári í fatahönnun við Listaháskóla Íslands í samstarfi við Fatasöfnun Rauða Kross Íslands. Hver nemandi gerir eigin fatalínu með áherslu á persónulega sýn og vinnur þrjá alklæðnaði einungis úr notuðum fatnaði. Með verkefninu fá nemendur djúpa innsýn og skilning á áhrif fataiðnaðarins á samfélög og umhverfi auk þess að þau kynnast rannsóknarvinnu og taka þátt í rannsóknarteymi. Skoðaðar eru ólíkar miðlunarleiðir sem fatahönnuðir geta nýtt sér, m.a. miðlun á samfélagsmiðlum, með innsetningum og hönnunarsýningum.

Hægt er að skoða verkefni nemenda á heimasíðu verkefnisins misbrigdi.com

//TRENDNET

 

SVARTUR FÖSTUDAGUR MEÐ FALLEGU SNIÐI HJÁ 66°NORÐUR

Skrifa Innlegg