fbpx

TRENDNÝTT

MISBRIGÐI – MEIRA UM FATAHÖNNUÐI FRAMTÍÐARINNAR OG VERKIN

FÓLKKYNNINGSJÁLFBÆR TÍSKA

Arna Inga Arnórsdóttir
Luminous Desire 

Þessi lína er mín leið til að skilgreina hina valdamiklu konu. Konu sem á líkama sinn algjörlega sjálf, er kynvera án skammar – og þannig á einhvern hátt ósnertanleg svo það lýsir af henni, næstum eins og hún sé af annarri plánetu. Frá því að ég byrjaði að þroskast og verða að konu hef ég alltaf falið mig í skugga þeirra sem eru í kringum mig, ég hef verið hrædd við að taka mitt pláss og mér leið eins og mitt hlutverk á jörðinni væri að þjóna öðrum. Undanfarið hef ég þó verið að æfa mig í að taka meira pláss, vera sjálfsörugg og skammast mín ekki fyrir að vera kynvera. Kvenlíkaminn hefur í gegnum söguna verið kyngerður en á sama tíma hefur samfélagið sagt konum að skammast sín fyrir kynlöngun sína. Tímarnir eru að breytast og mér líður eins og umræðan um kynlíf séu orðin mun opnari.  

Atli Geir Alfreðsson
Einurð

Línan fær innblástur sinn annars vegar beint frá fatnaðinum sem fannst í fatasöfnun Rauða Krossins og hins vegar frá minimalískum íslenskum arkitektúr. Skörp form, línur og einfaldleiki sem einkennir slíkan arkitektúr hefur alltaf höfðað til mín. Þetta endurspeglast í fatnaðinum þar sem engar tölur eða hefðbundnar festingar sjást heldur eru bönd og faldir rennilásar notaðir til að hafa fráganginn sem hreinlegastan. Þannig fá formin að njóta sín og einfaldleikinn ræður ríkjum. 

Auður Ýr Gunnarsdóttir

Mig langaði að tjá þá byrði sem nakinn kvenlíkami þarf að bera, sérstaklega þegar þú reynir að tjá tilfinningar með húð og nekt. Ég vil að fólk upplifi þessa lærðu vandræðalegu tilfinningu þegar það horfir á nakinn kvenlíkamann. Ljótar hugsanir sem kvikna í höfði fólks um leið og það sér konuna er eitthvað sem ég vil beina kastljósinu að til þess að fólk geti gripið sjálft sig að því að hugsa þessa hluti og velt því fyrir sér hvers vegna þeim líður eins og þeim líður. Er það raunveruleg tilfinning sem á rætur sínar að rekja til þinnar eigin sálar eða er það eitthvað sem samfélagið hefur kennt þér að finnast um manneskjur sem eru einfaldlega að sýna húð sína? Flíkurnar eru þröngar og óþæginlegar og standa fyrir allt það sem heldur aftur af okkur sem konur. Á sama tíma sýna fötin brjóst, læri, mjaðmir og mitti konunnar og tákna þannig uppreisn gegn ljótleikanum sem okkur hefur verið kennt að hlutgera þegar við horfum á konu í sínu eigin skinni. 

Christina Wächter

Línan er innblásin af ókunnugum stöðum, yfirborði frásagna og nýju umhverfi. Hugmyndin að verkinu er byggð á hugsunum um hvað það þýðir að vera heima, hvað hugtakið heima stendur fyrir og spyr spurningarinnar: Hvenær líður manni eins og maður sé kominn heim? Þegar unnið var með þetta efni varð markmið ferlisins að skapa rými þæginda og túlka vellíðan og notalegheit með flíkunum.  

Eydís Elfa Örnólfsdóttir

Einkenni línunnar má annars vegar rekja til áhrifa frá 18. aldar tísku þar sem kvenlegar línur og efnismikill fatnaður réð ríkjum og hins vegar tísku áttunda áratugarins. Með samrunna þessara ólíku tíma varð til þæginleg en kvenleg lína sem ætlað er að gefa kvenmanninum ákveðin kraft og karakter. Pönkið er alsráðandi í aukahlutunum sem gefa línunni ákveðin sérkenni. Fatnaðurinn endurspeglar sterka konu á framabraut sem hefur margt fram að færa og býr yfir sjálfstrausti til að taka pláss og láta ljós sitt skína. 

Fawencha Rosa

Það sem ég hugsaði fyrst um við gerð þessarar fatalínu var orðið yfirgangur (e. transendence).Verkefnið snýst um meðvitund, endurnýtingu og hvað ég sem einstaklingur get gert til þess að draga úr þeim skaða sem verið er að valda umhverfi okkar. Þetta varð til þess að ég ákvað að skapa eitthvað sem allir geta notað við hvaða tilefni sem er: í stað þess að hanna flíkur sem taka upp pláss í fataskápnum og sjá ekki dagsins ljós nema kannski einu sinni eða tvisvar. 

Ferlið var mjög hvetjandi og tilraunarkennt. Hugsunin var að koma að efniviðinum og fá innblástur frá hugmynd um form eða lögun, nota efni eða fatnað til að tengja hluti saman og skapa stíl, útlit, eða tilfinningu sem var ekki til staðar áður. Ég vildi nota líflega og heillandi liti sem væru þó ekki æpandi, og vann með lög og áferðir í efnum. Rauði þráðurinn í línunnni er í raun hugmyndin um að vera sáttur við sig og líða vel í eigin skinni. 

Halldór Karlsson
Deformography

Með þessari línu hefur óreiða verði fönguð í form. Verkið er meðal annars innblásið af japönskum Boro fatnaði sem einkennist af bútum sem eru saumaðir saman og dregur nafn sitt af japanska hugtakinu Boroboro sem þýðir tötrar eða eitthvað sem hefur verið lagfært. En einnig hafði fagurfræði brútalísks arkitektúrs sín áhrif á hönnunina. Brútalismi er angi af módernískum arkitektúr þar sem stór form og hráleiki efna fær að njóta sín. Stuðst var við aðferðir fóðrunar til að mynda óregluleg mynstur í jökkum, peysur voru klipptar í sundur og saumaðar aftur saman á nýjan hátt og vasar teknir af einni flík og endurnýttir á annarri.  

Hrafnkatla Unnarsdóttir

Með þessari línu vildi ég skapa einfaldan og elegant fatnað úr skemmdum fötum sem einhver hafði hent, til að sýna fram á að það geta falist verðmæti í því sem við teljum vera rusl. Með þessu vonast ég til að hvetja fólk til að endurnýta og beina sjónum frá skynditísku (e. fast fashion) án þess þó að finnast það ógnvekjandi. Ég fékk mikinn innblástur frá níunda áratugnum með sínum hráleika og einföldu skuggamyndum. Ég notaði aðallega aðsniðin efni og leðurefni þar sem þau eru tímalaus og mér fannst það eiga vel við hugmyndafræði línunnar.

Kári Eyvindur Hannesson

Í upphafi vorum við beðin um að velja okkur útgangspunkt sem við tengdum við. Ég vissi um leið að mín lína yrði unnin í kringum þau mörgu form sem svarti liturinn getur tekið og þá tilfinningu sem hann getur vakið hjá manni. Í kjölfarið fór af stað rannsóknarvinna þar sem ég safnaði myndum og málverkum sem ég tengdi við en út frá þeim myndum byrjaði sá hugar- hljóð- og myndheimur að skýrast.  Sá heimur felur í sér hráa en þó stýrða óreiðu og ég fór að velta fyrir mér hvaða áhrif það hefur þegar manneskja hylur andlit sitt, allt nema augun. Hver og einn getur túlkað myndirnar á sinn hátt, en ég hannaði útfrá því sem að ég sá og fann fyrir og fyrir valinu urðu þessi þrjú heildarútlit.

Tekla Sól Ingibjartsdóttir

Meginstef línunnar eru hnútar sem hnýttir eru á ólíka vegu. Í upphafi rannskaði ég hinar fjölmörgu aðferðir sem notaðar eru til að búa til textíl og gerði tilraunir með þær aðferðir sem að lokum leiddi mig að hnútagerðinni. Í verkinu er annarsvegar unnið með stóra og þunga sjálfstæða hnúta en hinsvegar léttari hnúta sem hnýtast saman og mynda eina heild. Með línuninni er samtalið á milli þessara andstæðna, hið þunga og það létta, sem birtist í flíkunum skoðað, ásamt því að abstrakt form sem verða til við hnútakerfin birtast í einföldum flíkum. 

María Sabaró
1940

Spænskar konur á eftirstríðsárunum sáu hvernig stríðið tók af þeim eiginmenn, börn, heimili og rétt sinn. Þrátt fyrir að vera skikkaðar til að sitja hljóðar og leika hlutverk „siðprúðu konunnar,“ sýndu þær styrk sinn og hugrekki með því að endurheimta líf sitt og slíta þjóð sína úr heljargreipum eymdarinnar. 

Þessi fatalína er innblásin og tileinkuð þeim.  

Muni Jakobsson

Við getum aldrei stoppað. Átta til fjögur, átta til fjögur, átta til fjögur.

Hugmyndir um þyngd samtímans, vinnu og hrá form líkamans blandast saman í eitt.

Við stöndum upprétt en á herðum okkar hvílir meira, meira, meira.

Við viljum meira.

En mig langar bara að fara að sofa.

//TRENDNET

MISBRIGÐI - SÝNING FATAHÖNNUÐA FRAMTÍÐARINNAR

Skrifa Innlegg