fbpx

TRENDNÝTT

KÆRLEIKSKÚLAN 2018 KYNNT Í DAG // STYRKTARFÉLAG LAMAÐRA & FATLAÐRA

Í dag er Kærleikskúlan 2018 kynnt en hún er seld í aðeins 15 daga í desember á hverju ári og rennur allur ágóði af sölu þess til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Verðugt málefni sem við viljum hvetja ykkur til að styrkja ♡

Terella er sextánda Kærleikskúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út. Margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar hafa lagt félaginu ómetanlegt lið með því að skapa kúluna. Afraksturinn er fjölbreytt safn listaverka sem margir safna.

Kærleikskúlan er orðin hluti af íslenskri jólahefð. Hvert verk gleður augað og vekur fólk til umhugsunar, en að auki rennur allur ágóði af sölu þess til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna, með því að efla starfsemi Reykjadals. Gera þannig fleirum mögulegt að njóta þar ævintýra tilverunnar í hópi með jafnöldrum – eignast vini og dýrmætar minningar.

Ár hvert fær Kærleikskúlan nýtt útlit – og er verkið í höndum fremstu listamanna þjóðarinnar. Í grunninn er Kærleikskúlan tær eins og kærleikurinn – með borða í rauðum lit, lit jólanna og kærleikans. Kærleikskúlan er munnblásin og eru því engar tvær kúlur nákvæmlega eins, en allar fallegar hver á sinn hátt.

Allur ágóði rennur til Reykjadals. 

Sala Kærleikskúlunnar stendur yfir í aðeins 15 daga í desember. Kærleikskúlan er seld til styrktar Reykjadals þar sem fötluðum börnum og ungmennum býðst að dvelja í sumarbúðum og tvær til fjórar helgar yfir veturinn.

Dvölin í Reykjadal er börnunum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg. Mikið er lagt upp úr því að börnin njóti dvalarinnar til hins ýtrasta, þau upplifi ævintýri og skemmti sér í hópi jafnaldra.

Kærleikskúlan í ár er hönnuð af listamanninum Elínu Hansdóttur og ber hún heitið Terrella.
Elín lýsir sýn sinni á bak við hönnunina í þessum orðum:

Innan glerhjúpsins er kúla sem dregur að sér efni og skapar heild sem einungis varir eitt andartak. Um leið og utanaðkomandi kraftur hreyfir við henni verður samsetningin á yfirborði hennar önnur. Fegurðin býr í tilviljanakenndri lögun, þeim margbreytileika sem að aðdráttaraflið býður uppá og þeim áhrifum sem við getum haft á umhverfi okkar – því kærleikurinn getur með krafti sínum sameinað og umbreytt því sem kemst í tæri við segulmagn hans.

Elín Hansdóttir er fædd árið 1980 en hún lauk BA – prófi frá Listaháskóla Íslands og MA – prófi frá KHB – Weissensee í Berlín. Innsetningar Elínar, sem byggðar eru fyrir tiltekin rými, taka á sig margvíslegar myndir. Verk hennar ögra og hvetja áhorfendur til að upplifa og skynja umhverfi og rými á nýjan hátt, en þau fjalla í grundvallaratriðum um tilvist mannsins og fegurðina í óvissunni. Elín hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2017 og Guðmunduverðlaunin seinna sama ár.

Í dag var einnig kynntur JÓLAÓRÓINN 2018. 

Í jólaóróum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra fara saman íslenskur menningararfur, íslensk hönnun og ritsnilld ásamt mikilsverðu málefni. Margir fremstu hönnuðir og skáld Íslendinga hafa stutt félagið með túlkun sinni á íslensku jólasveinunum og fjölskyldu þeirra. Allur ágóði af sölu óróanna rennur til Æfingastöðvarinnar sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra á og rekur.
Jólaóróinn í ár er Stekkjastaur en það er hönnuðurinn Dögg Guðmundsdóttir og rithöfundurinn Dagur Hjartarson sem skapa óróa ársins í sameiningu. Dögg sér um stálið en Dagur um orðin.

Jólaskrautið í ár? ♡

Fyrir áhugasama þá er einnig hægt að versla eldri Kærleikskúlur hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Dásamlega fallegt jólaskraut og ómetanlegt að styrkja þetta verðuga málefni.

//
TRENDNET

DIY SKÓHÖNNUÐUR SLÆR Í GEGN

Skrifa Innlegg