fbpx

TRENDNÝTT

FULLT ÚT ÚR DYRUM ÞEGAR GEYSIR KYNNTI FIMMTU FATALÍNU ERNU EINARSDÓTTUR

KYNNING

Trendnet lét sig ekki vanta þegar GEYSIR sýndi tískusýningu í Listasafni Reykjavíkur um helgina. Troðfullt var út úr dyrum en áætla má að um 500 manns hafi mætt á sýninguna.

Sýningin var frumsýning á nýjustu og jafnframt fimmtu línu hönnuðarins Ernu Einardóttur fyrir Geysi. En fyrir ykkur sem ekki þekkið til Ernu þá út­skrifaðist hún sem fata­hönnuður hjá Central Saint Mart­ins Col­l­e­ge of Art and Design í London og eft­ir nám vann hún hjá Yves Saint Laurent í Par­ís um stund áður en hún flutti til Íslands og byrjaði að brillera fyrir Geysi.

Ný útgáfa af Geysis-pokunum vinsælu tók á móti gestum en það má eiginlega segja að pokarnir séu orðnir staðalbúnaður fólks í erindagjörðum um Reykjavík.

Línan nefnist Fýkur yfir hæðir og er innblásin af verkum myndhöggvarans fræga, Ásmundar Sveinssonar. Innblásturinn er svolítið 90’s og við sjáum sterka tengingu við íslensku konuna í kvenna hluta hennar en í fyrsta sinn hannar Erna heilsteypta karlalínu, fréttir sem eflaust margir fagna.

 

Fýkur yfir hæðir, 2019

Erna hefur þetta að segja um mótun línunnar:

„Línan Fýkur yfir hæðir er innblásin af verkum Ásmundar Sveinssonar. Vinnan við línuna hófst í fæðingarorlofi veturinn 2018. Þann vetur varð á vegi mínum stytta nokkur af móður að faðma barn sitt, sem snart streng í hjarta mínu. Þar var á ferðinni einn af fjölmörgum málmskúlptúrum Ásmundar Sveinssonar en verk hans má finna víða í höfuðborginni. Má því segja að rölt mitt um borgina í leit að skúlptúrum Ásmundar hafi haft mikil áhrif á línuna, enda er Reykjavík óþrjótandi innblástur fyrir mig.

Erna Einarsdóttir

Línan er nokkuð minimalísk og undir áhrifum tísku frá tíunda áratugnum og húmor og sérviska eru aldrei langt undan. Sem endranær eru sterkir litir og prjónaðar flíkur hluti af línunni, en ný form líta dagsins ljós í þessari línu. Geysiskonan heldur áfram að þróast en nú bætir hún gallabuxum og ullarkápum við í fataskápinn sinn. Ég er einnig einstaklega ánægð að kynna ykkur nú fyrir manninum hennar, en hann hefur verið í mótun í hugum okkar síðastliðið ár.“ segir Erna


Ástrós Erla Benediktsdóttir stýrði teymi förðunarfræðinga, sem samanstóð af Kolbrúnu Vignisdóttur, Alexander Sig og Sigrúnu Ástu Jörgensen. Hárið var í höndum Hárakademíunar.

Fyrirsæturnar voru ekki af verri endanum og gengu okkar vinsælustu fyrirsætur niður tískupallinn. Þar má nefna þær Alísu Helgu Svans og Kristínu Lilju sem hafa gengið tískupallana hjá stærstu erlendu tískumerkjunum síðustu misserin, Dior og Armani sem dæmi. Það var síðan söngkonan Bríet sem lokaði sýningunni með teppi vafið um sig eins og drottning en Geysir hannar líka vörur fyrir heimilið sem var ánægjulegt að sjá stíliserað með þessu móti inn í sýninguna.

Fyrstu vörurnar úr línunni eru nú þegar fáanlegar í verslunum Geysis.
Stílisti kvöldsins: Anna Clausen
Sýningarstjóri: Erna Hreinsdóttir
Myndir í færslu: Sunday & White / Laimonas Dom Baranauskas

//
TRENDNET

TULIPOP HÓPFJÁRMAGNAR SÍNU FYRSTU BÓK: ÍSLENSK ÆVINTÝRI

Skrifa Innlegg