fbpx

RFF 2017

MÓDELSPJALLIÐ – JÓNA

6

3

Hver er Jóna Guðbjörg?
Jóna Guðbjörg, oftar kölluð Jóna Citrona. Ég er tvítugt smábæjarblóm, sprottið af Suðurlandsundirlendinu, en el sem stendur manninn í miðbæ Reykjavíkur. Ég er tvíburi, þ.e. stjörnumerkið, og því algjörlega tvískiptur persónuleiki; gömul sál en þó eilífðargelgja, oft mega lazy en svo líka einstaklega ofvirk.

Hvernig og hvenær byrjaði þinn módelferill?
Einn daginn fékk ég skilaboð á facebook frá starfsmanni Eskimo, um að pilla mér upp á skrifstofu til þeirra í viðtal. Ég sver það ég hefði orðið minna hissa ef að Páfinn hefði hringt með boð um kaffi og kleinur. Þetta var í janúar 2016 þegar ég var rétt nýstigin úr flugvélinni eftir flutninga heim til Íslands frá Hamburg í Þýskalandi. Ég þorði ekki öðru en að hlýða, mætti til þeirra þar sem mér var sagt að ég hefði verið scoutuð og að mér byðist fyrirsætusamningur. Ég þekkti tískuheiminn ekki hið minnsta, en þetta tækifæri var of súrrealískt til þess að segja nei – og ég sé heldur betur ekki eftir því í dag!

4

Þitt stærsta verkefni hingað til?
Ætli það sé ekki að fá að vinna fyrir Vice, en ég kynnti Reykjavík í stuttu myndbandi sem að vísu er enn ekki komið út. Ég elska Vice sjálf svo að mér þótti þetta mjög skemmtilegt. Svo var bara núna í vikunni að koma út tískuþáttur eftir Kára stórvin minn Sverrisson, í ELLE í Rússlandi, sem ég var í, en áður hef ég verið í þætti eftir hann í ELLE í Serbíu, og nokkrum öðrum stórum blöðum í austur Evrópu og Þýskalandi – og einusinni var ég á forsíðu tískublaðs í Tókýó, sem var líka skemmtileg 15 mínútna frægð, enda eru hlutirnir auðveldir þegar maður er stór í Japan, eins og félagar mínir í Alphaville vildu meina.

Áttu þér draumaverkefni?
Mig langar rosalega að sitja fyrir í einhverri flottri herraherferð, þá væntanlega sem strákur. Mér finnst ekkert skemmtilegra en þegar að lúkkinu mínu er transformað algjörlega fyrir tökur, og að ég fái þá í myndum að túlka og skapa “persónu” eða vibe, sem á jafnvel ekkert skylt við mig sjálfa.

5

Eru einhver ákveðin módel sem þú lítur upp til?
Ég viðurkenni að ég varð algjörlega starstruck þegar ég hitti Cöru Delevingne, mér finnst hún hrikalega skemmtileg týpa. Hún var fyrsta fyrirsætan sem að ég heillaðist af, þá löngu áður en ég byrjaði sjálf í “bransanum”. En það var einfaldlega vegna þess að hún sýnir okkur ekki bara triple-filtered glansmynd af sjálfri sér og sínu lífi. Mér finnst miklu máli skipta að fólk átti sig á að þó svo að listilega stíliseraðar, hárrétt lýstar og samviskusamlega photoshoppaðar myndir af fullkomlega förðuðum og óaðfinnanlega greiddum fyrirsætum birtist í blöðum, þá er lífið þeirra ekkert nær því að vera gullhúðuð Disneymynd en nokkurs annars. Þetta er bara vinnan okkar, oft áhugamál og ástríða líka, en samt bara fyrirvinna eins og hver önnur.

Hvaða hönnuð ert þú spenntust fyrir á RFF hátíðinni í ár?
Ég er í sannleika sagt mjög hrifin af öllum hönnuðum sem eru að sýna á hátíðinni í ár, sem gerir það einmitt svo skemmtilegt að vera partur af þessu öllu saman. Það er alltaf skemmtilegra að ganga tískupalla og sitja fyrir í flíkum sem að maður fílar sjálfur.

2

Ein flík í fataskápnum sem þú gætir aldrei losað þig við?
Ég á svona flísteppi sem maður getur klætt sig í. Það er geggjað. En svo erfði ég líka pels frá ömmu minni, Jónu Guðbjörgu eldri sem hún lét sérsauma á sig í Grikklandi in the 50’s – teppið og pelsinn munu fylgja mér í gröfina.

Hver er þín uppáhalds snyrtivara?
Ég er algjör húðumhirðu- og kremaperri, en á svosem ekkert eitt uppáhald, kannski þá helst Locobase fitukrem sem ég nota sem varasalva. Mæli með.

Eitthvað sérstakt sem þú gerir til að undirbúa þig fyrir svona verkefni?
Nægur svefn er númer eitt, tvö og þrjú fyrir mig, því svona tískusýningadagar eru oft mjög langir, mikil bið og svo mikil og hröð keyrsla þess á milli sem tekur á.

 

 Við þökkum Jónu kærlega fyrir spjallið!

-Rósa María Árnadóttir.

Í BEINNI: ANÍTA HIRLEKAR

Skrifa Innlegg