Andrea Röfn Jónasdóttir bloggari á Trendnet er ein þeirra sem mun ganga sýningarpallana á RFF í Hörpunni um helgina.
Andrea er þaulvön í bransanum og fengum við að spyrja hana aðeins út í hátíðina, módelferilinn, lífið og tilveruna.
Hvernig og hvenær byrjaði þinn módelferill?
Ég var 13 ára og við mamma fórum í MAC í Smáralind að kaupa fyrsta maskarann minn. Þá var Steinunn Þórðar make-up artist að vinna í MAC og bauð mér að byrja að módelast hjá EMM. Ég þáði það og fyrsta verkefnið mitt var auglýsing fyrir Póstinn. Mér fannst þetta allt mega spennandi.
Áttu þér uppáhalds módel sem er þér fyrirmynd?
Ég fylgist mikið með öðrum módelum og á mér nokkur uppáhöld. Númer eitt er Karlie Kloss, hún hefur óendalega ástríðu fyrir því sem hún gerir. Hún er smá quirky sem er kannski ekki skrýtið þar sem hún er 185 cm. Mér finnst hún snilld og klárlega góð fyrirmynd. Annars fíla ég líka Caroline Brasch, hún er með sjúklega töff fatastíl og svo eru Anja Rubik, Nadja Bender og Cara Delevingne líka í miklu uppáhaldi enda miklir töffarar.
Hefur þú mikinn áhuga á tísku?
Já, og áhuginn fer alltaf vaxandi. Mér finnst gaman að tísku en er samt ekki týpan sem les öll blöð og skoða sýningar frá tískuvikum. Mér finnst aðallega gaman að kaupa mér fallega hluti og þróa minn eigin stíl.
Skemmtilegasta verkefni hingað til?
Flest verkefni sem ég hef farið í hafa verið virkilega skemmtileg og eftirminnileg. En eftirminnilegast var þegar ég var 18 ára og fór með Nikita til Mexíkó. Þá þekkti ég crewið ekkert af viti en í dag eru þau öll eins og fjölskyldan mín enda tóku við margar aðrar myndatökur með þeim á eftir Mexíkó. Svo voru upptökurnar á Egils Kristals auglýsingunni líka mjög skemmtilegar og ótrúlega gaman að vera partur af svona stóru verkefni.
Hvaða hönnuð ert þú spenntust fyrir á RFF hátíðinni í ár?
Ég hlakka til að sjá línurnar hjá öllum hönnuðum og get ómögulega valið á milli. Ég er búin að fara í fitting hjá þeim sem ég sýni fyrir, JÖR, Eyland og Another Creation, og þetta er allt saman sjúklega fallegt!
Eitthvað sérstakt sem þú gerir til að undirbúa þig fyrir svona verkefni?
Ég passa fyrst og fremst upp á að fá nægan svefn og hugsa vel um líkamann með því að borða hollt og drekka mikið vatn. Svo hreyfi ég mig reglulega en passa þó að ofgera mér ekki, annars verð ég bara þreytt og ómöguleg.
Framtíðarplön?
Ég er alltaf með mörg járn í eldinum, kannski aðeins of mörg miðað við stundir í sólarhring. En ég stefni á að fara erlendis í skiptinám næsta haust og auðvitað halda áfram að ferðast, blogga og módelast.
Við þökkum Andreu Röfn kærlega fyrir spjallið.
–
Kolbrún Anna Vignisdóttir
Skrifa Innlegg