Það er jafnast fátt á við góðan hamborgara og margir eiga eflaust sinn uppáhalds borgara. Það er líka viss stemning sem skapast að bjóða fólki í góða hamborgaraveislu, einfaldur matur sem flestum þykir góður. Hér er ég með eina frábæra uppskrift af lúxus hamborgara sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. En það sem gerir hann að „lúxus“ borgara er beikon-rauðlaukssultan.
Beikonsultan:
300 g beikon
1 rauðlaukur
2 msk púðursykur
2 msk balsamic edik
1 msk dijon sinnep
3 msk vatn
Aðferð:
- Skerið beikonið niður í þunna strimla og steikið í góðum potti við miðlungs háan hita í 15-20 mínútur eða þar til beikonið er að verða stökkt.
- Farið með eldhúsrúllu í pottinn og reynið að ná mestu fitunni upp úr pottinum.
- Setjið lauk út í pottinn og steikið í 10 mínútur.
- Látið sykur, vatn, balsamik edik, og sinnep út í og látið suðuna koma upp og látið malla í tæpan klukkutíma.
Áferðin á sultunni á þá að vera orðin klístuð. Leyfið sultunni aðeins að kólna.
Ef þú vilt hafa sultuna vel maukaða, getur þú sett hana í matvinnsluvél. Persónulega þykir mér betra að hafa hana smá „chunky“.
Sultan er sett á neðra hamborgarabrauðið ásamt ruccola salati og rauðlauk.
Rauðlaukurinn er betri ef hann fær aðeins að liggja í rauðvíns-ediki.
Góður og þykkur nautaborgari er steiktur með salti og pipar og camenbert ostur settur ofan á síðustu mínúturnar.
Að lokum er tsk af dijon sinnepi blandað saman við mæjónes og sósan sett á efra brauðið og borgaranum lokað.
Berið fram með frönskum kartöflum með trufflusalti og parmesan osti.
Góða helgi!
Skrifa Innlegg