fbpx

LJÚFFENGIR EFTIRRÉTTIR Í GLÖSUM

EFTIRRÉTTIR & KÖKURSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Fréttablaðið tók mig í smá páskaspjall og ég deildi með þeim uppskrift að ljúffengum eftirréttum sem eru afar einfaldir. Þið getið lesið viðtalið hér og að sjálfsögðu ætla ég að deila með ykkur uppskriftunum. Ég elska góða eftirrétti og ekki skemmir ef þeir eru einfaldir og þægilegir. Þess vegna ætla ég að deila með ykkur tveimur uppskriftum að einföldum eftirréttum í samstarfi við Innnes sem bornir eru fram í glösum eða krukkum. Það góða við þá er að hægt er að útbúa þá með smá fyrirvara. Ostakaka með möndlusmjöri, haframulningi og ferskum berjum sem er aðeins í hollari kantinum og marengs í glösum með dumle, rjóma, jarðaberjum, ástríðuávexti og fræjum úr granatepli. Mæli með að setja minna í krukkurnar/glösin ef að þið viljið minni skammta.

Ostaka í krukku með kókös- og möndlusmjöri og haframulningiFyrir 4
1 dós Philadelphia rjómaostur
2 dl rjómi
4 msk kókos og möndlusmjör með döðlum frá Rapunzel
Smátt skorin hindber eftir smekk
Smátt skorin jarðaber eftir smekk
Ristaðar möndluflögur, má sleppa

Haframulningur
1 1/2 dl grófar hafraflögur frá Rapunzel
½ dl spelt
½ dl kristallaður hrásykur frá Rapunzel
80 g smjör

Aðferð

  1. Byrjið á því útbúa haframulninginn. Skerið smjörið í litla bita og blandið öllu saman með höndunum. Dreifið á bökunarplötu þakta bökunarpappír og bakið í 15-17 mínútur við 190°C eða þar til blandan verður gyllt og stökk. Það þarf að hræra í blöndunni nokkrum sinnum á meðan hún er að bakast.
  2. Hrærið saman rjómaosti og kókos-og möndlusmjöri.
  3. Þeytið rjóma og blandið saman við rjómaosta blönduna.
  4. Dreifið 1-2 msk af haframulningi í botninn á krukku eða glasi. Því næst dreifið 2-3 msk af rjómaosta blöndunni og svo berjum eftir smekk. Dreifið aftur haframulningi, rjómaosta blöndunni og berjum. Skreytið með smá haframulningi og möndlu-og kókosmjöri.

 

Marengs í krukku með Dumle

Fyrir 4
1 marengsbotn (ég keypti tilbúinn)
4 dl þeyttur rjómi
1 Dumle súkkulaðiplata (fæst í Hagkaup og Fjarðarkaup)
3 msk rjómi
Smátt skorin jarðaber eftir smekk
1-2 ástríðuávextir
Fræ úr ½ granatepli

Aðferð

  1. Byrjið á því að bræða Dumle súkkulaðiplötuna í potti ásamt 3 msk rjóma við vægan hita og kælið. Saxið smá af súkkulaðinu áður til að skreyta með. Ef blandan er of þykk þá er gott að bæta smá rjóma saman við.
  2. Þeytið rjómann.
  3. Brjótið marengsinn í litla bita og dreifið í botninn á krukku eða glasi. Því næst dreifið þeyttum rjóma, berjum, granateplafræjum, ástríðuávexti og Dumle súkkulaðið. Endurtakið þetta og skreytið með saxaða Dumle súkkulaðinu.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! ;)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!♥

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

ALFREDO PASTA MEÐ TÍGRISRÆKJUM OG RJÓMAOSTI

Skrifa Innlegg