fbpx

Eva Laufey Kjaran

Sælkerasalat og frískandi sumardrykkur

Gleðilegt sumar. Loksins er komið að árstímanum sem við höfum flest beðið eftir með eftirvæntingu, enda er veturinn búinn að vera langur og strangur. Með hækkandi sól verður allt betra. Í matreiðsluþáttunum mínum á Stöð 2 sem sýndir eru á fimmtudagskvöldum var ég með sérstakt sumarþema í síðasta þætti og lagði áherslu á einfalda, þægilega og bragðmikla rétti. Sumarið er tími til að njóta með fjölskyldu og vinum, það er fátt skemmtilegra en að fá góða gesti í mat og drykk og spjalla langt fram eftir kvöldi. Tala nú ekki um ef hægt er að sitja úti á palli eða svölum, með von um að við fáum hlýtt og gott sumar. Hér að neðan deili ég með ykkur tveimur sumarréttum sem ég mæli með að þið prófið. Njótið vel.

Sælkerasalat og frískandi sumardrykkur

IMG_0782

Salat með hráskinku og melónusalsa

1 canteloup melóna

1 gul melóna

1 msk smátt skorin minta

1 msk smátt skorin basilíka

1 tsk hunang

300 g klettasalat

1 pakki góð hráskinka

Hreinn fetaostur, magn eftir smekk

150 g ristaðar furuhnetur

Balsamikgljái, magn eftir smekk

Aðferð:

Skerið melónur smátt niður, saxið kryddjurtir og blandið öllu saman í skál ásamt hunangi. Leggið klettasalat á fallegt fat eða disk, raðið hráskinkunni yfir salatið og dreifið melónusalsa yfir. Sáldrið fetaosti og ristuðum furuhnetum yfir salatið. Í lokin er mjög gott að dreifa balsamikgljáa yfir.

IMG_0794

Frískandi sumardrykkur

3 greipaldin

2 límónur

Handfylli mintulauf

Sódavatn, magn eftir smekk

Aðferð:

Kreistið safann úr greipaldinn og límónu, hellið safanum í könnu og fyllið upp með sódvatni. Bætið mintulaufum út í drykkinn og hrærið í honum með sleif. Berið strax fram.

 

Fylgist með mér hér á Trendnet í sumar þar sem ég verð sérstakur gestabloggari.
Eva Laufey

Skrifa Innlegg

4 Skilaboð

  1. Elísabet Gunnars

    25. April 2015

    Mmmm … girnilegt.

  2. Halla

    26. April 2015

    Skemmtilegt. Hlakka til allra sumarlegu uppskrifta frá þér.

  3. Maren Rós

    27. April 2015

    Elsku systir ég heimta þetta þegar þu kemur til okkar ❤️ Án þess að vera með frekju auðvitað :-)