Á sunnudaginn fórum við mæðgin á Stadio Bentegodi, heimavöll Hellas Verona. Þar sáum við Hellas gera 2-2 jafntefli við Ítalíumeistara Juventus í rosalegum leik þar sem okkar lið lenti 1-0 undir eftir þrjár mínútur. Emil spilaði allan leikinn eins og vanalega og stóð sig frábærlega en hann hefur aldeilis vakið athygli fyrir vasklega framgöngu á vellinum á þessu tímabili – og undanfarin ár með Hellas. Liðið situr í 5.sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar og keppist nú við Inter um að komast í Evrópudeildina. Við Emanuel erum að sjálfsögðu afsakaplega stolt af okkar manni og styðjum þétt við bakið á honum í því sem hann er að gera.
Emanuel mætti í krumma-ullarpeysunni sinni á völlinn en hún vekur iðulega athygli hér á Ítalíu. Eftir leikinn á sunnudaginn póstaði ég mynd af Emanuel á Instagram og í kjölfarið fékk ég nokkrar fyrirspurnir frá Íslandi sömuleiðis. Ég sendi póst á hana Ástu sem gerði peysuna fyrir mig og hún sagði mér að uppskriftina er að finna í Stóru Prjónabókinni. Einnig er hægt að kaupa uppskriftina staka í Litlu Prjónabúðinni á 500 kr og þar fékk hún Ásta einnig efnið í peysuna. Ullin í peysunni er lamaull en hún er extra mjúk og góð og fullkomin fyrir börn sem eru kannski viðkvæmari fyrir efni sem stingur. Ég hef reynt að setja hann í peysur úr hefðbundinni ull en sú barátta tapaðist þar sem barnið gjörsamlega brjálaðist. Emanuel unir sér þó vel í lamaullinni, peysan er hlý, mjúk og góð og falleg að auki.
Peysan fer einnig vel innanundir úlpu því hún er ekki það rosalega þykk og þess vegna notum við hana mjög mikið á köldum ítölskum vetrardögum, sem geta verið alveg hræðilega kaldir !
Skrifa Innlegg