Í morgun póstaði ég þessari mynd af Emanuel (2ja ára ) á Instagram þar sem hann brunar áfram á hjólinu sínu, einbeittur á svip.
Hér sjáið þið semsagt bæði hjálmlaust barn ( því var kippt strax í lag ) og jafnvægishjól. Í mínu uppeldi reyni ég að velja þau leikföng vel sem barnið mitt fær en ég vil síður hafa herbergið hans fullt af dóti (drasli) sem hann leikur sér aldrei með. Ég horfi að sjálfsögðu á hans áhugasvið og vel dótið í samræmi við það en boltar, bækur, hljóðfæri og hjól er það sem hann velur sér oftast og því fékk hann sitt fyrsta tvíhjól í jólagjöf.
Tvíhjólið er þó petalalaust en með því að sitja á hnakkinum og nota fæturnar til að spyrna sér áfram þjálfar barnið jafnvægisskynið. Í upphafi stóð hann klofvega yfir hjólinu og gekk með því. Nokkrum klukkustundum síðar var hann sestur á hnakkinn og nú spyrnir hann sér hratt áfram og æfir sig að halda jafnvægi. Að öllum líkindum mun hann því eiga auðveldara með að læra að hjóla án hjálpardekkja en sum börn geta einmitt alveg sleppt þeim. Hjólið minnkar “stressið” sem mörg börn upplifa þegar þau fá sitt fyrsta tvíhjól því þau eru öruggari, með betra jafnvægi og þannig eru þau betur undirbúin fyrir hjól með petölum. Að auki er þetta frábært fyrir allan hreyfiþroska en Emanuel fer nú allar sínar leiðir ( líka á koppinn) á þessu fína hjóli og finnst það svakalegt sport :-)
Hjólið er hugsað fyrir börn á aldrinum tveggja til fimm ára og við mælum að sjálfsögðu með þessu fyrir alla litlu vinina okkar.
Skrifa Innlegg