fbpx

Hellas Verona í SERIE A

FótboltiInstagramMyndirPersónulegtVerona

Hellas í SERIE A !

Það var fagnað af öllum lífs og sálarkröftum, fram á nótt og fólk er enn að fagna. Glaðari stuðningsmenn hef ég ekki séð á ævinni. Það eru allir að springa úr gleði og hvar sem við komum er Emil fagnað ákaft og fólk þakkar fyrir alla þá gleði sem hann og liðsfélagar hans hafa fært borginni. Ég verð stundum meir að hlusta á þessar þakkaræður, því hér á Ítalíu er fótbolti ekki bara fótbolti. Þetta snýst um svo margt annað líka – heiður borgarinnar á landsvísu til dæmis.

Laugardagurinn var stór dagur í okkar lífi. Við Emil höfðum beðið eftir þessum degi í þrjú ár en Veronabúar í heil ellefu. Á þremur árum hefur Emil spilað yfir 100 leiki með liðinu og átt sinn þátt í því að liðið er nú komið úr þriðju deild og á meðal þeirra bestu á Ítalíu.

Þegar við fluttum hingað til Verona, haustið 2010 vorum við alveg miður okkar. Ég hringdi skælandi í mömmu og Emil kom ekki upp orði því hans markmið var að sjálfsögðu að fara í lið á meðal þeirra bestu, en það tókst ekki í það skiptið. Þessi pistill sem ég skrifaði á Pressuna á sínum tíma lýsir þessu öllu ágætlega.

Drengurinn tók því málin í sínar hendur og kom ekki bara sjálfum sér í úrvalsdeildina heldur heilu liði með 30.000 blóðheita stuðningsmenn sem elska liðið sitt afar heitt á bakinu, ef hægt er að orða það svo. Ég myndi segja að þessi glæsilegi árangur lýsi honum Emil almennt mjög vel og er ég alveg rosalega stolt af honum.

Fyrsta árið brosti Emil ekki á æfingasvæðinu, svo ákafur var hann að standa sig. Stuðningsmenn Hellas halda í alvöru að hann brosi aldrei en strákarnir í liðinu hafa þó séð hann brosa núna, samt meira í ár en í fyrra. Fyrirsögnin í blaðagrein sem birtist í blöðunum í dag og ég póstaði hér að ofan er “hver hlær” en fólkinu hérna finnst mjög merkilegt að Emil sé í alvöru brosandi ( haha ). Þessi mynd var líka tekin frá mér í gær og sett á facebookið hjá Hellas og hefur hún fallið einstaklega vel í kramið en ég held að það sé aðallega því Emil er brosandi á henni ;-)

Að sjálfsögðu brosir Emil á hverjum degi, enda einstaklega ljúfur og dagfarsprúður maður en hann brosir alveg mjög breitt þessa dagana.

Við erum semsagt að springa úr hamingju yfir að hafa tekist það sem við ætluðum að gera og ég hlakka til að sjá manninn minn spila á meðal þeirra bestu á næsta tímabili. Þakklætið og gleðin sem býr í brjósti mér er ólýsanleg og ég mun aldrei getað þakkað nógu mikið fyrir það að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni með Emil, hafa fengið að kynnast öllu því frábæra fólki sem hér býr og að verkefnið hafi í alvörunni átt sér stað í einni fallegustu borg Ítalíu, Verona.

Lífið er yndislegt og gæti ekki verið betra. Mamma hafði rétt fyrir sér þegar hún sagði fyrir þremur árum að þetta væri það besta sem gat komið fyrir okkur. Svo sannarlega hafði hún rétt fyrir sér. Þetta er það allra besta !

Síminn minn varð batteríslaus í öllum gleðskapnum og því verða þessar myndir að duga – sorry ;-)

Skrifa Innlegg

7 Skilaboð

  1. Anonymous

    20. May 2013

    Frábært hjá ykkur og ekki síst Emil :)
    Innilega til hamingju með flottan árangur, hann er flott fyrirmynd drengjanna minna :)

    Kv. Bjarney

  2. Sirrý

    20. May 2013

    Virkilega gaman að lesa bloggið þitt Ása! Innilega til hamingju með árangurinn. Njótið vel og lengi :)

  3. Sonja Marsibil Þorvaldsdóttir

    20. May 2013

    Þetta er bara gaman!!!

  4. Hanna Gudny

    21. May 2013

    Innilega til hamingju með áfangann :) Lítur út á myndum fyrir að vera mjög ljúft :)

  5. Erla

    21. May 2013

    Innilega til hamingju með árangurinn.

    Ég stóð mig af því að fylgjast með fótboltafréttum til að sjá hvernig ykkur myndi vegna, ég skoða þær annars aldrei.

    megi ykkur vegna sem best á næsta tímabili

    kv. Erla

  6. Guðríður

    23. May 2013

    Dásamlegt!!! Elska að skoða þessar myndir. Lang flottust og til hamingju aftur og aftur <3