fbpx

HEILBRIGÐ OG FALLEG HÚÐ MEÐ..

BörnMatur

Ég var spurð um daginn hvaða húðvörur ég notaði og hvernig ég héldi húðinni minni góðri. Ég nota andlitskrem og hreinsivörur frá Neostrata sem ég er mjög ánægð með og mæli heilshugar með þeim vörum. Ég held þó að mitt helsta ráð fyrir heilbrigða og fallega húð sé hampolían og fræin mín góðu.

Screen Shot 2014-01-21 at 10.25.48

 

Fyrir algjöra slysni uppgötvaði ég mátt og eiginleika hempsins.

Það var þannig að Emanuel sonur minn þjáðist af vægast sagt slæmu exemi frá unga aldri. Ljósmóðir í ungbarnaeftirlitinu pantaði akút tíma fyrir hann hjá exem og ofnæmissérfræðingi daginn fyrir brúðkaupið okkar Emils þar sem exemið, sem þakti mestan part líkamans, var farið að blæða. Ég horfði á hann með tárin í augunum og fann svo til með litla skinninu mínu. Ástandið var svo slæmt, sterk sterakrem og góð rakakrem var orðinn stór partur af okkar daglegu rútínu. Allt þvottarefni var tekið út , hann fór í ofnæmispróf og ég veit ekki hvað og hvað en það dugði bara ekkert til. Kremin gerðu að sjálfsögðu eitthvað gagn en það var ekki fyrr en ég fattaði að í hvert skipti sem ég gaf Emanuel hampfræ í grautinn sinn að þá minnkaði exemið. Það varð til þess að hann fékk eina matskeið af hampfræjum kvölds og morgna og innan skamms var húðin hans orðin silkimjúk og laus við öll vandamál, exemið, þurrkinn og roðann. Ef ég sleppti úr degi að þá versnaði hann strax og því voru allar skúffur fullar af hampfræum svo ég myndi ekki missa úr dag. Allir vissu að Emanuel þyrfti að fá hampið sitt, til að viðhalda exemlausri húðinni og fyrir hans vellíðan. Ég sit ekki ein á þessum upplýsingum en allir í kringum okkur sáu þennan ótrúlega bata sem hefði mátt líkja við töfrabrögð !

Þið getið ekki ímyndað ykkur hversu hamingjusöm móðir ég var með þessa uppgötvun og ég held enn þann dag í dag að þetta er það besta sem ég hef gert fyrir barnið mitt.

Hemp er enn mjög mikilvægur þáttur í fæðunni hans Emanuels en besta leiðin til að koma því almennilega ofan í hann er að lauma þessu í boostið, sem hann fær eftir leikskóla á hverjum degi.

Í framhaldinu af þessu ákvað ég að sjálfsögðu líka að prufa og sjá hvort þetta myndi ekki gera mér eitthvað gott sömuleiðis. Ég byrjaði því að taka inn eina matskeið af hampolíu á hverjum degi og hún lagar allt, svo einfalt er það. Ég er ekki að grínast. Hvort sem það er of feit húð á t-svæðinu í andlitinu, þurrkur í hársverðinum eða á fótleggjunum, hempolía er algjör himnasending fyrir húðina, segi ég og skrifa !

Þegar ég keypti fyrsta pokann af hempfræjum vissi ég ekkert hvað ég var að kaupa. Þetta var bara í flottum grænum umbúðum í heilsuhorninu í Fjarðarkaup og mér datt í hug að þetta gæti verið eitthvað sniðugt í boost, eða bara eitthvað… hollt.. haha. Það leið þó ekki langur tími þar til ég lá á netinu og las mér til um þessa frábæru ofurfæðu sem bjargaði húð barnsins míns. Til að nefna nokkrar staðreyndir um hampið að þá er það með fullkomið jafnvægi á milli fitusýranna 3,6 og 9. Það er góð uppspretta zinks, járns, magnesíum, kalk, B1, B2 og B3 vítamínum og phytosterol sem getur stuðlað að lækkum kólesteróls. Í hverjum 100g af hempfræjum er 30.0g af gæðaprótíni og tíu gerðir af amínósýrum sem líkaminn framleiðir ekki sjálfur. Þetta gerir þessi litlu fræ að frábærum prótíngjafa, einstaklega næringar og trefjaríkri fæðu sem er full af omega fitusýrum.

Það er líka gaman að segja frá því að hampvörurnar voru ófáanlegar í lífrænu versluninni hér í Verona en ég var óþolandi týpan og spurði verslunarstjórann í hvert skipti sem ég kom í búðina hvort hampvörurnar væru ekki örugglega komnar í hillurnar. Að lokum varð ég að ósk minni og ég gæti ekki verið þakklátari honum Giorgio fyrir að hafa hlustað á mig og bætt þessari dásemdar ofurfæðu við vöruúrvalið. ;-)

Hempfræin sem ég kaupi eru frá Navitas og fást meðal annars í Fjarðarkaup. Ég myndi alltaf velja lífræna vöru í þessum efnum og óbragðbætta, en ég hef séð að hægt er að fá hempfræin bragðbætt og ég myndi síður kaupa þau.

Eins og þið væntanlega sjáið að þá get ég ekki mælt nógu mikið með því að bæta hampi í mataræðið – í salatið, súpuna, lasagnað, hafragrautinn eða fiskréttinn – og svo ítreka ég að matskeið af hampolíu eða fræjum á dag, kemur húðinni og skapinu í lag ! :-)

 

BESTU STRENDUR ÍTALÍU

Skrifa Innlegg

33 Skilaboð

  1. Andrea

    21. January 2014

    VÁ þetta ætla ég sko að prófa :)

    • Ása Regins

      21. January 2014

      Já endilega, ég hlakka til að heyra þig dásama þetta næst þegar ég hitti þig !!! ;-)

  2. Reykjavík Fashion Journal

    21. January 2014

    Frábært – ég þarf að prófa þetta líka:D Þessar olíur eru æðislegar – það er svo mikið sem maður geymir í eldhússkápnum sem má nota í aðra hluti en bara matseld eins og kókosolían sem er einn besti augnhreinsir sem til er :)

    • Ása Regins

      21. January 2014

      Já en það helsta kannski við hampolíuna er að hún er ekki bragðgóð þannig minni líkur á að hún rati í eldamennskuna. Því er bara best að skella henni í sig einn, tveir og bingó á morgnanna, áður en bragðlaukarnir vakna :-)

  3. Brynja

    21. January 2014

    Algjört töfraefni! Sonur minn var og er svolítill exem kútur og þetta bjargaði okkur algjörlega :)

  4. Guðný

    21. January 2014

    Takk fyrir gott ráð – prufa þetta

    • Ása Regins

      21. January 2014

      Mín var ánægjan og ég vona innilega að þetta virki jafn vel fyrir þig :-)

  5. Jovana

    21. January 2014

    Eg er einmitt búin að vera með exem lengi. Myndiru mæla með þvi að eg tæki eina matskeið af oliunni og einnig hempfræ úti bústið?:) eða er nóg að taka annað hvort?

    • Ása Regins

      21. January 2014

      Ég myndi taka þetta með trompi og gera bæði til að byrja með. Olíu alla morgna og svo fræin yfir daginn. Svo þegar þú ert farin að sjá árangurinn að finna út hvað hentar þér best og hvað dugar þér :-)

  6. Jovana

    21. January 2014

    ja geri tad takk fyrir svarid:)

  7. Anna

    21. January 2014

    Búin að prófa svo margt til að losna við þessar blessuðu bólur. Hlakka til að prófa þetta! Hefuru eitthvað prófað að bera olíuna létt á andlitið? Eða ætli sé árangursríkara að borða hana (: ?
    Kv.

    • Ása Regins

      22. January 2014

      Já ég prufaði semsagt að setja olíuna í baðið hjá Emanuel og það skilaði engum sérstökum árangri. Baðið varð bara grænt og ekkert annað.. hahah.. en það sakar ekki að prufa að bera þetta í andlitið ;-) annars mæli ég með einni matskeið á dag á fastandi maga og ég er VISS um að húðinni þinni mun líða betur :-)

  8. Kristbjörg Tinna

    22. January 2014

    Vá frábært að heyra! En segðu mér, hvað ertu að gefa honum mikið af fræum á dag? Ertu að gefa honum olíuna líka?

    • Ása Regins

      22. January 2014

      Já ég gef honum bæði núna en áður fyrr gaf ég honum bara fræin. Þá setti ég alveg matskeið í hafragrautinn hans kvölds og morgna. Núna fær hann fræin einu sinni á dag, eina matskeið sirka.. og svo reyni ég alltaf að setja olíuna í eitthvað þar sem hann finnur ekki bragðið af henni – t.d í boostið seinnipartinn.

      • Anonymous

        23. January 2014

        Hlakka til að prófa.. takk :)

  9. Jóna

    22. January 2014

    Mikið er ég sammála þér og verð að segja að möndlumjólk er líka haldin töframætti:) frá hvaða aldri myndiru halda að það sé ráðlegt að setja slík fræ í graut/ mat hjá ungabarni? 6 mánaða ? Bestu kveðjur Jóna

  10. Ása Regins

    22. January 2014

    Já ég held þetta hafi verið í kringum 7 mánaða aldurinn sem ég byrjaði að fylla hann á kvöldin með góðum hafragraut ( lífrænir hafrar, hempfræ, hörfræolía, smá chiafræ lögð í bleyti og ávaxtamauk til að bragðbæta) og þannig svaf hann allar nætur án þess að rumska – og gerir enn þann dag í dag :-)

  11. Abba

    22. January 2014

    Ég beint í þetta! – húðin mín er búin a vera ógeðsleg eftir að ég hætti með LB á brjósti.

  12. Guðrún Anna

    22. January 2014

    Hvar fæst þessi hampolía hérna heima? :)

    • Ása Regins

      22. January 2014

      Ég held að þú getir fundið hana í flestum verslunum sem selja lífrænar vörur. Fjarðarkaup, Lifandi Markaður, Heilsuhúsið og jafnvel í Bónus og Hagkaup

  13. Eva

    22. January 2014

    Kíkið á http://www.supersport.is
    Þar er til fullt af hamp vörum, m.a. olía, 4 teg. af hampfræum og hamp mjólk.
    :)

  14. Rósa Siemsen

    23. January 2014

    Vá hvað ég er að fara að prófa þetta á exempésann minn Ása! Takk fyrir þessi góðu ráð :)

  15. Hafdís Ósk

    24. January 2014

    Sæl Ása og takk fyrir frábæran fróðleik. Ég skutlaðist beint í Fjarðarkaup til að kaupa olíuna og fræin strax eftir að ég las þetta í dag með 9 mánaða exempésann minn. Ég ætla líka að prófa þetta á sjálfri mér og stefni að því að skella þessu í booztið í fyrramálið.

    Mig langaði samt aðeins að forvitnast um þennan ofur-fæðu-svefn-graut. Hvernig myndirðu mæla með að útbúa hann fyrir 9 mánaða? Hvaða vökva væri best að nota? Ég er aðeins að færa mig yfir á hollari línu og hef því ekki mikla reynslu í þessum efnum.

    Bestu kveðjur,
    Hafdís Ósk

    • Ása Regins

      24. January 2014

      Sæl Hafdís

      Endilega sendu mér mail á asaregins@trendnet.is og þá skal ég deila öllu því með þér sem reyndist mér vel í þessum efnum. Ég hef aldrei ( og þá meina ég aldrei ) átt andvaka nótt vegna Emanuels en hann hætti á einni nóttu að fá brjóst, eftir að hafa fengið þennan graut – enginn grátur né gnístran tanna :-)
      Ég hlakka til að heyra í þér á mailinu.

  16. Jóhanna

    24. January 2014

    Sammála – hempfræin eru algjör snilld :-)

  17. elísa

    3. February 2014

    Hæhæ,
    ég er með exem og ætla strax að byrja á þessu! En ég tek alltaf matskeið af lýsi á morgnana og var að pæla hvort þú vissir hvort ég gæti ekki alveg tekið hampolíuna og lýsið samhliða strax á morgnana?

  18. Pingback: Hempolía | h i l d u r e r l a

  19. Eyrún Unnarsdóttir

    15. May 2014

    Hæhæ og takk fyrir góðan pistil.
    hversu langan tíma tók það að sjá mun á húðinni?

    Bestu kveðjur,
    Eyrún.

    • Ása Regins

      16. May 2014

      Með hempfræjunum finnst mér ég sjá strax mun, kannski vika… og olían kannski aðeins lengur, 2-3 vikur :-)