Ég var spurð um daginn hvaða húðvörur ég notaði og hvernig ég héldi húðinni minni góðri. Ég nota andlitskrem og hreinsivörur frá Neostrata sem ég er mjög ánægð með og mæli heilshugar með þeim vörum. Ég held þó að mitt helsta ráð fyrir heilbrigða og fallega húð sé hampolían og fræin mín góðu.
Fyrir algjöra slysni uppgötvaði ég mátt og eiginleika hempsins.
Það var þannig að Emanuel sonur minn þjáðist af vægast sagt slæmu exemi frá unga aldri. Ljósmóðir í ungbarnaeftirlitinu pantaði akút tíma fyrir hann hjá exem og ofnæmissérfræðingi daginn fyrir brúðkaupið okkar Emils þar sem exemið, sem þakti mestan part líkamans, var farið að blæða. Ég horfði á hann með tárin í augunum og fann svo til með litla skinninu mínu. Ástandið var svo slæmt, sterk sterakrem og góð rakakrem var orðinn stór partur af okkar daglegu rútínu. Allt þvottarefni var tekið út , hann fór í ofnæmispróf og ég veit ekki hvað og hvað en það dugði bara ekkert til. Kremin gerðu að sjálfsögðu eitthvað gagn en það var ekki fyrr en ég fattaði að í hvert skipti sem ég gaf Emanuel hampfræ í grautinn sinn að þá minnkaði exemið. Það varð til þess að hann fékk eina matskeið af hampfræjum kvölds og morgna og innan skamms var húðin hans orðin silkimjúk og laus við öll vandamál, exemið, þurrkinn og roðann. Ef ég sleppti úr degi að þá versnaði hann strax og því voru allar skúffur fullar af hampfræum svo ég myndi ekki missa úr dag. Allir vissu að Emanuel þyrfti að fá hampið sitt, til að viðhalda exemlausri húðinni og fyrir hans vellíðan. Ég sit ekki ein á þessum upplýsingum en allir í kringum okkur sáu þennan ótrúlega bata sem hefði mátt líkja við töfrabrögð !
Þið getið ekki ímyndað ykkur hversu hamingjusöm móðir ég var með þessa uppgötvun og ég held enn þann dag í dag að þetta er það besta sem ég hef gert fyrir barnið mitt.
Hemp er enn mjög mikilvægur þáttur í fæðunni hans Emanuels en besta leiðin til að koma því almennilega ofan í hann er að lauma þessu í boostið, sem hann fær eftir leikskóla á hverjum degi.
Í framhaldinu af þessu ákvað ég að sjálfsögðu líka að prufa og sjá hvort þetta myndi ekki gera mér eitthvað gott sömuleiðis. Ég byrjaði því að taka inn eina matskeið af hampolíu á hverjum degi og hún lagar allt, svo einfalt er það. Ég er ekki að grínast. Hvort sem það er of feit húð á t-svæðinu í andlitinu, þurrkur í hársverðinum eða á fótleggjunum, hempolía er algjör himnasending fyrir húðina, segi ég og skrifa !
Þegar ég keypti fyrsta pokann af hempfræjum vissi ég ekkert hvað ég var að kaupa. Þetta var bara í flottum grænum umbúðum í heilsuhorninu í Fjarðarkaup og mér datt í hug að þetta gæti verið eitthvað sniðugt í boost, eða bara eitthvað… hollt.. haha. Það leið þó ekki langur tími þar til ég lá á netinu og las mér til um þessa frábæru ofurfæðu sem bjargaði húð barnsins míns. Til að nefna nokkrar staðreyndir um hampið að þá er það með fullkomið jafnvægi á milli fitusýranna 3,6 og 9. Það er góð uppspretta zinks, járns, magnesíum, kalk, B1, B2 og B3 vítamínum og phytosterol sem getur stuðlað að lækkum kólesteróls. Í hverjum 100g af hempfræjum er 30.0g af gæðaprótíni og tíu gerðir af amínósýrum sem líkaminn framleiðir ekki sjálfur. Þetta gerir þessi litlu fræ að frábærum prótíngjafa, einstaklega næringar og trefjaríkri fæðu sem er full af omega fitusýrum.
Það er líka gaman að segja frá því að hampvörurnar voru ófáanlegar í lífrænu versluninni hér í Verona en ég var óþolandi týpan og spurði verslunarstjórann í hvert skipti sem ég kom í búðina hvort hampvörurnar væru ekki örugglega komnar í hillurnar. Að lokum varð ég að ósk minni og ég gæti ekki verið þakklátari honum Giorgio fyrir að hafa hlustað á mig og bætt þessari dásemdar ofurfæðu við vöruúrvalið. ;-)
Hempfræin sem ég kaupi eru frá Navitas og fást meðal annars í Fjarðarkaup. Ég myndi alltaf velja lífræna vöru í þessum efnum og óbragðbætta, en ég hef séð að hægt er að fá hempfræin bragðbætt og ég myndi síður kaupa þau.
Eins og þið væntanlega sjáið að þá get ég ekki mælt nógu mikið með því að bæta hampi í mataræðið – í salatið, súpuna, lasagnað, hafragrautinn eða fiskréttinn – og svo ítreka ég að matskeið af hampolíu eða fræjum á dag, kemur húðinni og skapinu í lag ! :-)
Skrifa Innlegg