Ef þið skoðið þessa mynd sem ég tók af símanum hans Maule vinar míns á leiknum gær, sjáið þið að liðið hans Emils, Hellas Verona er í 4.sæti í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þeir eru með fleiri stig en Inter, Ac Milan og rétt á eftir Juventus. Jólin 2010 var þetta sama lið í fjórða neðsta sæti í Serie C ( fyrir þá sem ekki vita er það þriðja deild). Það má því segja að liðið hafi náð undraverðum árangri á þremur árum og ég eiginlega fer bara að skellihlægja þegar ég horfi á þessa mynd :-)
Ég skrifaði á sínum tíma pistil á Pressuna um ferðalagið okkar Emils hingað til Verona. Fyrirsögnin er La Bella Vita en sú fyrirsögn er kannski ekki alveg nógu góð. Þetta fótboltalíf er ekki alltaf dans á rósum og það vita fleiri en ég. Pressan er rosaleg og það koma dagar sem best er bara að halda sig innandyra, amk hér á Ítalíu þar sem fótboltinn er sem trúarbrögð. Þá hringi ég heim til Íslands og væli í símtólið og næ ekki að jafna mig fyrr en ég hef hringt í alla og sagt öllum hvað sé að frétta.
Emil er auðvitað ekki svona ( og fær ekki að sjá mig mása og blása í símtólið!) og tekur þetta ekki svona inn á sig, annars væri hann ekki á þeim stað sem hann er á í dag. Þú þarft nefnilega að vera með fjandi sterkan haus í þessu sporti.
Ef þið hafið engan áhuga á þessu fótboltatali en eruð áhugafólk um ítalska matargerð að þá mæli ég með pastasósunni sem er neðst í pistlinum. Þetta er hin klassíska ítalska tómatsósa sem allar ítalskar húsmæður/feður kunna að búa til og matreiða oft í viku.
La bella vita
Ása María Reginsdóttir
Facebook ! Logout ! Komið gott í bili.
Aahh.. ég kveiki á Andrea Bocelli og syng með laginu ,,Vivo Per Lei” eins hátt og ég treysti mér til. Ég er ekki mjög tónviss og syng frekar illa en það skiptir ekki máli. Það er gott að þenja aðeins raddböndin yfir hádegismatnum (mmm!) og svo eru lögin hans Bocelli bara svo tilfinningaþrungin og skemmtileg. Ég held líka að það heyri enginn í mér nema ég sjálf og dökkhærðu verkamennirnir sem vinna hérna fyrir utan gluggann minn. En það er allt í lagi, þeir eru örugglega ekki fullkomnir heldur.
Ég er semsagt ósköp venjuleg stelpa, reyndar verðandi eiginkona og þá væntanlega frú – hljómar skrítið, en dagsatt. Eins og margir er ég með fulla vasa af draumum sem ég kappkosta við að láta verða að veruleika, með misjöfnum árangri að sjálfsögðu. Ég er manneskja og þ.a.l. breisk, ég reyni þó auðvitað að vanda mig við það sem ég tek mér fyrir hendur, þrátt fyrir að vera ekkert sérlega nákvæm að eðlisfari heldur. Ég geri mér grein fyrir því að það sem er eftirsóknarverðast í þessu lífi kostar ekki peninga og stundum verður maður að trúa & treysta því sem kemur, sleppa takinu óhræddur og leyfa lífinu bara að gerast. Ég hef jafnframt áttað mig á því að það er miklu skemmtilegra að grípa tækifærin og því kappkosta ég við að finna þau þar sem lífið hefur tekið mig, sjá fegurðina í því smáa og nota allt sem ég get til að víkka sjóndeildarhringinn úti í hinum stóra og margslungna heimi sem við lifum í.
Ég er líka svo ánægð með að eiga góðan verðandi eiginmann sem nennir að hlusta á allar þær hugmyndir sem ég fæ í kollinn á hverjum degi og er jafn spenntur fyrir þeim og ég er fyrir hans. Ég var í miðju háskólanámi þegar hann kom inn í líf mitt og vægast sagt umbreytti öllu, til hins betra að sjálfsögðu. Í dag bý ég á Ítalíu, í Verona og hef áður búið með honum á suður – Ítalíu í Reggio Calabria og í Leeds á Englandi.
Vegurinn fra Reggio til Verona hefur ekki verið beinn, að vísu mjög hlykkjóttur en hann hefur þó legið uppávið eins og sést greinilega á landakortinu. Allt frá sikileysku mafíxxxx og vægast sagt erfiðum forseta fótboltaliðsins Reggina, sem gengur með vindilinn í munnvikunum og keyrir um á glansandi svörtum Mercedes Bens, til hins flotta klúbbs Hellas Verona, nýrra vina og hinnar frábæru borgar Rómeo og Júlíu, Verona, erum við glöð sem aldrei fyrr! Hér liggja möguleikarnir út um allt, innan vallar sem utan og þá er bara spurning hvað við ætlum að gera við þá ?
Fyrir metnaðarfullan knattspyrnumann getur verið áfall að fara úr Seriu A liði í Seriu C. Þung tár féllu á sínum tíma og markmiðin sem voru á kristaltæru gengu ekki eftir. Síður en svo ! Við þorðum þó að stíga tvö stór skref niður á við og það hefur fært okkur svo mikið! Ef ég hefði vitað hvað biði okkar við undirritun samningsins hefðu viðbrögð mín verið talsvert öðruvísi. Ég hefði líklegast hlaupið hingað á bíkiníinu einu saman í stað þess að liggja á ströndinni volandi sem ég einmitt gerði, já ég hef legið grátandi á ítalskri sólarströnd!
En eins og ég sagði áðan þá er svo gott að þora að treysta, stökkva út í djúpu laugina, leyfa lífinu að gerast og grípa tækifærin sem bjóðast.
Ég hef haldið úti lítilli bloggsíðu undanfarin ár þar sem ég deili öllu milli himins og jarðar með þeim sem vilja lesa en breyti núna aðeins til og skrifa hingað inn. Allt er þetta á léttu nótunum og ég hlakka til að sýna ykkur, lesendum Pressunnar, Ítalíu og Verona eins og ég sé hana.
Til að koma ykkur á bragðið langar mig að gefa ykkur góða uppskrift að hinni frægu og margrómuðu ítölsku pasta-tómatsósu. Ég lærði að búa hana til þegar ég bjó í Reggio C. en stórvinur minn og hinn mikli ítalski matgæðingur Clemente, er lærimeistari minn í þessu tilviki.
Ítölsk pasta-tómatsósa.
Uppskrift:
Það sem þarf er:
Vel þroskaðir og eldrauðir kirsuberjatómatar sem fylla heila pönnu
3- 4 hvítlauksrif eða eftir smekk
Ferskt rautt chilli eftir smekk
Steinselja eftir smekk
Góð extra virgin ólífuolía eftir þörfum
Vatn eftir þörfum
Parmesanostur
Aðferð:
Þú fyllir pönnuna af extra virgin olíu, stillir á mjög vægan hita og svissar saman hvítlaukinn, chilli-ið og steinseljuna. Það skiptir höfuðmáli að hvítlaukurinn brenni ekki þannig þú verður að passa hitann á pönnunni vel, ef hann brennur þá verðuru að byrja upp á nýtt!
Þar næst skerðu tómatana í tvo helminga og raðar þeim á hvolf á pönnuna (sárið niður). Þá læturðu tómatana malla svona á hvolfi þangað til þeir eru orðnir vel krumpaðir og bætir vatni og olíu á eftir þörfum.
Þegar tómatarnir eru orðnir eins og krumpaðir fingurgómar og vel mjúkir hræriru öllu saman og leyfir því að malla á mjög vægum hita í ca 20 mínútur. Þá ertu komin með alveg ekta ítalska pastasósu – og þú færð ekki neitt betra á pastað þitt =)
Að sjálfsögðu má svo leika sér með uppskriftina og breyta henni eftir smekk. Það er t.d gott að setja rifnar gulrætur í hana til að fá smá sætari sósu og svo gerir laukur líka gott bragð.
Þú verður þó að sjóða pastað nákvæmlega eins og stendur á umbúðunum. Pasta á að vera “al dente” sem þýðir að það sé örlítið hart og svo er máltíðin fullkomnuð með rifnum parmesanosti.
Buon appetito!
Skrifa Innlegg