Það hafa kannski einhverjir tekið eftir því en ég á ekkert stofuborð, einfaldlega því ég hef ekki fundið ákkúrat það borð sem mig langar í og því finnst mér betra að sleppa því bara. Allt sem ég hef inni á heimilinu mínu veitir mér ánægju og því best að vanda valið vel.
Í vikunni sátum við Antonella “ítalska amman” hans Emanuels og pössunarpía hérna í stofunni minni og ræddum lífið og tilveruna. Fljótlega barst svo í tal að vinur/kærasti hennar hann Marco á skóglendi uppi í fjöllum sem hann nýtir óspart í allskyns handverk. Úr varð að hann er nú að leita að heppilegu tré fyrir mig í skóginum og ætlar svo í kjölfarið að búa til viðarplötu sem ég vil að sé hrátt unninn, en mér finnst mjög fallegt þegar náttúruleg áferð trésins fær að njóta sín. Við ætlum svo að setja skemmtileg hjól undir og þá verðum við loksins komin með fallegt coffee table í stofuna, þar sem ég mun hlaða öllum blómunum mínum og auðvitað öllum hundrað iittala kertastjökunum sömuleiðis ( djók). ;-)
Þessar myndir hér að neðan veita mér smá innblástur.
Það þarf þó ekki að höggva tré til að búa til borð á hjólum, en eins og þið sjáið að þá getur verið mjög smekklegt að setja hjól undir einfalda viðar/gler/plastplötu, já eða viðarbretti. Fyrir mér er líka afskaplega praktískt að hafa borðið á hjólum, ég er alltaf að breyta og því gott að geta fært borðið auðveldlega til ( annað en 400 kg borðstofuborðið mitt). Ég mun þó (líklegast) velja mér dekk með bremsum svo borðið geti nú líka verið kyrrt.
Það er hægt að útfæra þessa hugmynd á ýmsa vegu og því um að gera að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og “hanna” borð sem enginn annar á nema þú.
Skrifa Innlegg