Það er búið að vera ansi lengi á Trendnet to-do listanum mínum að skrifa um Verona, borgina sem ég vildi aldrei flytja til en get núna ekki hugsað mér að flytja frá. Hér höfum við nú búið í að verða fjögur ár og með hverjum deginum sem líður verð ég sannfærðari um að ég bý í bestu og fallegustu borg heims. Stundum líður mér eins og Verona sé kærasti ( kærasta? ) mín og enginn má koma nálægt henni nema ég, því ég á´ana. Það hafa líka komið dagar þar sem ég hef fengið nóg og langar að flytja í burtu en þá með því skilyrði að borgin hverfi af yfirborði jarðar á sama tíma. Ég get ekki hugsað til þess að borgin finnist á jörðunni án þess að ég búi í henni en það mun væntanlega koma sá dagur að við flytjum í burtu, en þó ekki strax. Þið eruð líklega að hugsa núna hvaða klikkhaus ég er en það sem ég er að reyna að segja er að ég elska, já ég elska Verona af öllu hjarta, af líf og sál.
Verona er á meðal vinsælustu borga Ítalíu ásamt Róm, Flórens og Feneyjum. Hún er stútfull af sögu, listum og menningu og á hverju götuhorni er eitthvað sem gleður augað. Göturnar eru tandurhreinar, svo hreinar að göngugatan glansar, í orðsins fylltu merkingu. Fólkið hér er vel klætt enda er Verona ein af þeim borgum Ítalíu þar sem fólk hefur pening á milli handanna og klæðir sig í takt við það. Gömlu konurnar eru í skósíðum pelsum með lagningu í hárinu og karlarnir með hatta og í vel pússuðum skóm. Hringleikahúsið, sem í daglegu tali er kölluð Arena, býður uppá tónleika við allra hæfi yfir sumartímann og að ganga um torgið Piazza Brá á svoleiðis kvöldum má líkja við dansiball í himnaríki. Shakespear skrifaði hér hina margrómuðu sögu um Rómeo og Júlíu en borgin er alveg sérlega rómantísk og því ekki að ástæðulausu sem hann valdi Verona sem sögusvið fyrir það verk. Hér er mikil veðursæld og í minningunni er alltaf gott veður hérna hjá okkur, alltaf logn og alltaf sól og blíða. Veronabúar eru mjög stoltir af borginni sinni og eftir að fótboltalið borgarinnar Hellas Verona komst á meðal þeirra bestu á ný ( og fyrir ofan AC Milan) hefur hún nú verið fullkomnuð, samkvæmt þeim. ;-)
Síðasta sumar lánuðum við Frikka, sjúkraþjálfara knattspyrnulandsliðsins, og fjölskyldunni hans íbúðina okkar fyrir sumarfríið þeirra. Áður en hann fór sendi ég honum lista yfir hvað væri sniðugt að gera með börnin þannig þau vissu svona nokkurn veginn hvað væri í boði og hvar besta matinn væri að finna. Til að fá sem mest útúr fríi til Ítalíu er alltaf best að tala við einhvern “innfæddan” og fá góð ráð og meðmæli. Það er svo auðvelt að koma hingað og fá vondan mat og ekkert skemmtileg en ég vil alls ekki að það komi fyrir lesendur mína, en ég veit einmitt að það eru nokkrir sem eru að skipuleggja ferð til Verona. Til að gera langa sögu stutta að þá var þetta besta frí sem Frikki og fjölskyldan hans hafa átt en hann ítrekaði það einmitt við Emil í landsleiknum á móti Wales í síðustu viku. Ég má því til með að deila þessum meðmælum með fleirum í þeirri von að einhverjir munu taka flugið til Mílanó í sumar….. og keyra til Verona og kynnast þessari fallegustu borg Ítalíu.
Ég læt myndir fylgja með sem ég hef tekið á símann minn í gegnum árin, orðum mínum til stuðnings.
Helstu torg Verona heita annars vegar Piazza delle Erbe
.. og hins vegar Piazza Brá.
Bæði þessi torg eru svo sjarmerandi og persónulega finnst mér þau skáka öllum öðrum torgum sem ég hef séð á Ítalíu. Þau setja mikinn svip á borgina, fólk hópast þar saman og um helgar eru viðburðir eins og listasýningar eða matarmarkaðir nánast daglegt brauð. Á báðum þessum torgum eru helling af veitingastöðum sem flestir eiga það þó því miður sameiginlegt að vera dýrir og ekki góðir. Einhver myndi segja að þetta væri “bara fyrir túristana” en túristarnir eru jú líka fólk bara eins og ég og þú og eiga því það besta skilið. Ég vil því mæla með veitingastaðnum Mazzanti á Piazza delle Erbe. Þangað fara Ítalarnir og þar er gott að fá sér sæti í sólinni, gæða sér á apperitivo og fylgjast um leið með iðandi mannlífinu á torginu.
Í Verona eru samt sem áður ótal góðir veitingastaðir en flestir af þeim bestu bera ekki mikið á sér að utan. Hér er kjötið betra en fiskurinn, eins og jafnan tíðkast í borgum sem ekki liggja við sjó. Þegar við Emil gerum okkur glaðan dag förum við gjarnan út að borða og njótum ítalskrar matargerðar eins og hún gerist best. Ef leið ykkar liggur hingað í suðrið að þá get ég glöð mælt með góðum veitingastöðum fyrir alla. Áhugasamir geta sent mér mail á asaregins@trendnet.is
Emil á uppáhalds veitingastaðnum sínum, Trattoria al Pompiere. Sá staður er pinku lítill og veggirnir þaktir myndum eins og þið sjáið. Við fjölskyldan erum einmitt svo fræg að vera komin upp á vegg, ásamt þjálfara Hellas og hinum goðsögnunum ;-)
Tartine á Alcova del Frate.. mmmm…
Ég er forfallin hráskinkusjúklingur og er búin að finna út hvar bestu skinkur bæjarins eru. Og þær eru out of this world…
Lítur þetta ekki vel út ?
Osteria del Bugiardo.. þar sem rauðvínir flæðir.
Fyrir vínunnendur eru að sjálfsögðu vín-kantínur útum allt þar sem hægt er að fara í vínsmökkun. Það er einnig boðið uppá skipulagðar rútuferðir um sveitina þar sem fólk er tekið á milli vínsmökkunarstaða en það kemur sér einmitt vel fyrir þá sem elska vínið hvað mest.
Einnig er hægt að fara í ólífuolíusmökkun ( Museo dell olio í Bardolino ) þar sem hægt er að fá fræðslu og kynningu á mismunandi olífuolíum og fleirum local afurðum, eins og t.d balsamic. Að auki er hægt að sjá hvernig olían er búin til og að lokum gefst fólki kostur á að kaupa þær vörur sem smakkaðar voru. Ég og mamma elskum þetta.
Þar sem Verona liggur inn í miðju landi getur orðið mjög heitt hérna á sumrin. Það er því æðislegt að hafa pollinn ( með klórhreinsuðu vatni ) á Piazza Arsenale. Hingað er æðislegt að koma með teppi og nesti og leyfa börnunum að busla í vatninu og kæla sig í leiðinni. Við hliðina á pollinum er stór og afgirtur rólóvöllur þar sem hægt er að leika fram á kvöld. Á leiðinni að pollinum er fallegt að ganga í gegnum gamla kastalann ( Castelvecchio) sem tekur mann beint að Piazza Arsenale. Í kastalnum eru reglulega haldnir litlir sætir markaðir þar sem bændur selja vörur sínar, t.d ólífuolíur, grænmeti, skinkur og osta.
Castelvecchio
Emil á heimleið með boltann á enninu eftir góð dag á pollinum
Jason á leikvellinum sem er að lifna við eftir veturinn
Pollurinn góði..
Ef hitinn er að gera útaf við fólk og buslupollurinn dugar ekki til að kæla sig niður er Gardavatn í um 30 mínútna fjarlægð frá Verona. Það er því frábært að vera með bílaleigubíl til að geta ferðast auðveldlega á milli staða og þannig fengið sem mest útúr fríinu. Umhverfis Verona er margt sniðugt hægt að gera og listinn nánast ótæmandi. Ég stikla því á stóru:
Gardavatn er líklegast vinsælasti áfangastaður ferðamanna á norður Ítalíu. Vatnið er stórt og umhverfis það eru ótalmargir litlir bæir. Á heitum sumardögum er æðislegt að finna góðan stað og kæla sig í vatninu. Bæirnir eru að sjálfsögðu misskemmtilegir og því um að gera að kynna sér málið á netinu áður en lagt er í´ann. Nokkrir gestirnir mínir hafa keyrt umhverfis vatnið en það er mikið sjónarspil og því vel þess virði. Sumir hafa einnig leigt sér árabát og siglt út á vatnið sem er æðislegt.. og rómó. Fyrir minn smekk er Gardavatn þó of mikill túristastaður til að vera á t.d í heila viku og því myndi ég alltaf frekar finna mér hótel/gististað í hámenningunni í Verona og kíkja í dagsferðir að vatninu.
Hér erum við stödd í bænum Torre del Benaco og eins og þið sjáið að þá fer ansi vel um okkur í vatninu, enda hreint og gott.
Sumardeginum fyrsta í fyrra eyddum við í bænum Sirmione sem liggur við Gardavatn og er í um 25 mínútna fjarlægð frá Verona. Þar er æðislegt að ganga þar um, fá sér gelato og njóta umhverfisins sem er “mjög ítalskt” og fallegt.
Næst á dagskrá hjá mér er að fara til bæjarins Saló sem stendur við vestanvert Gardavatn. Vinir mínir hafa farið þangað og gista á Hotel Saló Villa Arcadio og segja það hið glæsilegasta, súper rómantískt og fallegt.
Best geymda leyndarmál norður Ítalíu fann ég þó í fyrrasumar. Það er vatnið Lago di Tenno en það er í um 50 mínútna akstursfjarlægð frá Verona. Vatnið er kristaltært, litadýrðin er dásamleg og hár fjallgarðurinn allt í kring gerir staðinn svo friðsælan og algjörlega himneskan. Fegurðin er engu lík en ég er viss um að Guð hefur verið í ansi góðu skapi þegar hann bjó þetta landslag til auk þess var hann var mjög sniðugur að fela það svona vel fyrir okkur mannfólkinu. Myndirnar segja einungis hálfa söguna en ég kom varla upp orði allan tímann á meðan við vorum þar, svo stórfenglegt var umhverfið. Eins og ég skrifaði áðan að þá er þetta vel geymt leyndarmál og því mikil ró og næði við vatnið og ómótstæðilegt að baða sig í því á heitum sumardegi. Það er nauðsynlegt að taka með sér nesti því þeir selja það ekki á svæðinu.
Lífið gerist hreinlega ekki betra en í picnic við Lago di Tenno, ég getsvosvariðþað!
Og svo má ekki gleyma jarðböðunum, Parco Termale del Garda, sem ég bloggaði um hér.
Þegar búið er að kæla allt liðið niður er hægt að fara með krakkana í Gardaland. Gardaland er risastór skemmtigarður skammt frá Gardavatni og kjörið að eyða einum degi þar. Ítölsk börn elska þennan garð og ég er viss um að þau íslensku gera það líka. Það er því mjög mikið af fólki sem leggur leið sína þangað og því betra að mæta tímanlega – eða seinnipart dags til að losna við örtröðina sem getur skapast á háannatíma.
Dýragarðurinn, Parco Natura Viva, er á svipuðum slóðum og Gardaland en bæði er þetta í um 30 mínútna fjarlægð frá Verona. Dýragarðurinn er tvennskonar; annars vegar safari þar sem þú keyrir í gegn á þínum eigin bíl og svo þar sem þú ferð gangandi. Dýragarðurinn er algjörlega frábær og vel þess virði að eyða heilum degi þar, enda risastór og flottur. Bæði börn og fullorðnir hafa gaman að og ósjaldan sem við förum þangað.
Ljón og ljónynjur. Afar fögur sjón.
Blettatígur á vappi umhverfis bílinn. Það gerist nú ekki á hverjum degi…
Gíraffinn ætlaði inn í bílinn.. ég varð hrædd og brunaði í burtu.. hahh.. og bakkaði svo til baka með lokaða gluggana.
Emil og Birkir Bjarna að kaupa sér ávexti á einum af ávaxtamörkuðum í bænum
Emanuel og Jason að ræða málin í vorblíðunni
Emanuel fær þjónustu fyrir utan Osteria del Bugiardo
Dagurinn sem Hellas tryggði sér sæti í Serie A
Vorið er nú komið og sumarið á næsta leyti !
1460 dögum síðar er ég enn ekki komin með nóg af því að þræða götur Veronaborgar. Hér eru óteljandi fallegar kirkjur, byggingarnar eru í öllum regnbogans litum og grænu svæðin eins og þau eru teiknuð í teiknimyndunum ( Giardino Giusti ). Borgin er frekar lítil, enda oft kölluð piccola Roma (litla Róm)og því auðvelt að skoða allar litlu hliðargöturnar sem liggja í allar áttir með skemmtilegum verslunum. Það er einnig æðislegt að keyra eða ganga upp á hæðina hjá Santuario Madonna di Lourdes, njóta útsýnisins sem nær yfir alla borgina og/eða horfa á sólina setjast eftir heitan dag á þessum yndislega stað.
Það er stutt í allar áttir frá Verona og auðvelt að heimsækja borgir eins og Flórens og Feneyjar ef vilji er fyrir hendi. Gestirnir mínir hafa tekið lestina til Feneyja að morgni til ( tekur um 1 klst), siglt um síkin í gondólum og komið til baka að kvöldi til alsæl með dagsverkið. Við höfum einnig tekið lestina til Flórens og það var æðislegt en ég held að ég hafi fengið besta mat sem ég hef smakkað þar. Sá veitingastaður heitir Trattoria dei 13 Gobbi og er algjörlega nauðsynlegt að skrifa hann hjá sér ef ferðinni er heitið til Toscana.
Niðurstaðan er því sú að Verona er hinn fullkomni áfangastaður fyrir alla fjölskylduna, eða sem rómantískt getaway fyrir elskendur. Hún sameinar menningu og góðan mat í bland við “activities” þannig öll fjölskyldan nýtur sín á sinn hátt.
Ef ég náði ekki að sannfæra ykkur um að koma til Verona með þessari færslu eða ef þið viljið frekar fara á sólarströnd að þá getið þið kíkt á bestu strendur Ítalíu sem ég bloggaði um HÉR – og farið þá til Sardiníu ;-)
Arrivederci !
Skrifa Innlegg