Frá því ég byrjaði að búa ( fyrir sjö árum ) hef ég einungis keypt þau húsgögn inn á heimilið sem mig virkilega langar til að eiga og þau sem gleðja augað mitt. Af þeim sökum hef ég t.d aldrei átt sófaborð og ekki heldur náttborð inni í svefnherbergið. Nú hef ég þó loksins fundið náttborðið sem mig langar mest í en það heitir Bowl Bord og er frá Mater. Ég sá borðið fyrst fyrir ári síðan en þá vissi enginn í kringum mig hvað það hét og hvergi sá ég það annarsstaðar en á einni mynd á Pinterest. Í gær komst ég svo loksins að því hvað borðið heitir og hvar það fæst en þetta er að sjálfsögðu dönsk hönnun en ætli sú hönnun höfði ekki hvað mest til mín. Ég hafði hugsað mér að para hátt svart eða brúnt Mater borð saman við Grossman Grashoppa standlampann frá GUBI og hengja svo svartan Andnet spegil á vegginn, sem alveg setur punktinn yfir i-ið. Þetta verður kannski ekki allt keypt á einum degi, en dönsk hönnun er ansi vandfundin hér á Ítalíu. Ég geri því ráð fyrir að þetta muni taka nokkurn tíma, en mér finnst það svo sannarlega biðarinnar virði.
Sófaborðið verður þó að bíða eitthvað lengur – sjáum svo hvað haustið ber í skauti sér.
Skrifa Innlegg