Fyrstu vikunum heima á Íslandi var vel varið með kærum vinum, og fyrrum liðsfélaga Emils, frá Brasilíu. Það var kominn tími á að við myndum sjá íslenskar náttúruperlur eins og t.d Jökulsárlón og Mývatn en þetta eru staðir sem ég hafði ekki komið á áður. Það var því ekki síður upplifun fyrir okkur Íslendingana í hópnum að ferðast um landið og sjá alla þessa fallegu staði, loksins með berum augum.
Stiklum á stóru..
Ferðin byrjaði á Þríhnúkagíg – Inside the Volcano – sem staðsettur er á Bláfjallarsvæðinu. Það er ekki á hverjum degi sem maður fer 120 metra niður í eldfjall sem síðast gaus fyrir 4000 árum, það var því ótrúleg upplifun og mikið sjónarspil. Ég gat með engu móti náð þessari miklu og fallegu náttúru á mynd en sjón er svo sannarlega sögu ríkari. HÉR eru nánari upplýsingar fyrir áhugasama.
Fjórhjólaferð í hrauninu umhverfis Grindavík og kvöldbað í Bláa Lóninu er frábært kombó. Brassarnir okkar fóru síðan sælir að sofa þetta kvöld á Hótel Búðum á Snæfellsnesi, en það er líklegast fallegasta sveitahótel landsins.
Á Snæfellsnesi fengum við frábæran “guided tour” með heimamanninum Þorgrími Þráins sem þekkir hvern krók og kima á svæðinu. Í fjörunni á Hellnar í Snæfellsnesi er þetta fallega flöguberg þar sem erlendir ferðamenn kepptust við að mynda umhverfið. Í fjörunni er einnig að finna lítið sætt kaffihús þar sem ég mæli svo sannarlega með að fá sér vöfflu með sultu og rjóma.
Frá Snæfellsnei lá leið okkar á Hofsós í sund. Ég planaði ferðina ekki betur en það að sundlaugin var ákkúrat lokuð þegar við komum. Við fórum því í fjöruna fyrir neðan sundlaugina en þar er þetta flotta stuðlaberg sem enginn má láta framhjá sér fara. Um kvöldið borðuðum við á Hótel Lónkoti sem er rétt fyrir utan Hofsós. Þar fengum við slow food máltíð úr blómaeldhúsinu hennar Pálínu sem sló alveg rækilega í gegn. “The food is inspired by flowers, herbs and berries from our gardens and by our blueberry hills“. Lónkot, skrifið það hjá ykkur ef þið viljið gourmet mat á ferð ykkar um landið. ( www.lonkot.is)
Þar sem við höfðum einungis fimm daga til að keyra hringinn í kringum landið var brunað þennan saman dag til Siglufjarðar þar sem við gistum á Hótel Siglunesi. Það var alveg dásamlegt að leggjast á koddann í þessu fallega, hlýlega og vinalega umhverfi eftir langan dag á ferðalagi. Morgunmaturinn á hótelinu var einnig sá besti í ferðinni en einu ljósin sem voru kveikt í matsalnum voru kertaljós sem hafði verið dreift um salinn og gáfu frá sér notalega birtu. Algjörlega dásamleg morgunstund og eftirminnileg bæði fyrir okkur Emil sem og útlendingana.
Frá Siglufirði brunuðum við til Húsavíkur í hvalskoðun og þaðan beint til Mývatns í útsýnisflug. Að sjálfsögðu fórum við líka í jarðböðin á Mývatni og fengum okkur nudd í vatninu. Ég vildi að sjálfsögðu gera ferðina sem eftirminnilegasta fyrir vini okkar og því reyndi ég að finna eitthvað sniðugt á hverjum stað. Þetta kvöld var kvöldmaturinn því borðaður í fjósi, nánar tiltekið í Vogafjósi.
Séð yfir Dettifoss …
.. og Víti – einstaklega fögur sjón.
Námaskarð, einn af mínum uppáhalds stöðum á landinu.
Frá Mývatni lá leiðin til Egilstaða þar sem við fengum að sjá alvöru íslenskt sveitalíf. Heimalingar að súpa úr pela og heitar pönnukökur með sykri er svo sannarlega nærandi, bæði fyrir líkama og sál.
Að lokum var Suðurlandið tekið með trompi og allt það helsta skoðað. Jökulsárlón, Seljavallalaug, Hótel Laki, miðnæturgolf, Hótel Rangá, Reynisfjara, Reynisdrangar og auðvitað Seljalandsfoss.
Jökulsárlón
Seljavallalaug..
Fallegt stuðlabergið við Hálsanefshelli í Reynisfjöru
Ég, Gaflarinn sjálfur, hafði aldrei! komið að Seltúni í Krýsuvík. Þessi fimmtán mínútna bíltúr frá Hafnarfirðinum var því algjör snilld bæði fyrir mig sem og vin okkar frá Verona, hann Nicolo.
… og að lokum, 101 Reykjavík.
Ísland stóð svo sannarlega fyrir sínu en ég held við Íslendingar getum verið mjög stolt af ferðamannaþjónustunni okkar. Alls staðar var viðmótið gott og svo tók ég sérstaklega eftir hversu vel er gætt að hreinlæti, sem t.d Ítalir gætu tekið sér til fyrirmyndar.
Öll þessi svakalega víðátta, björtu sumarnæturnar, frelsið, óspillta náttúran, góða lambakjötið og hreina vatnið okkar…
… ah, Ísland er best í heimi !
P.s Verona er víst líka að slá rigningarmet í sumar, svona ef það er einhver huggun í því ? ;-)
Skrifa Innlegg