Myndaveggir er eitthvað sem hefur mikið verið fjallað um og mér t.d finnst fátt fallegra á heimilum en vel upp settur myndaveggur. Ég hef þó ekki enn lagt í að búa til minn eigin aðallega vegna þess að mig vantar skemmtilegar myndir til að hengja upp – annað en fjölskyldumyndir þ.e.a.s. Ég er samt alltaf með augun opin fyrir fallegum myndum sem gætu passað hingað inn til mín en það er því miður ekki svo mikið úrval hér í Verónaborg. Nú sýnist mér ég vera búin að leysa þetta myndaleysi því ég ætla að fá mér oversize portrait og hengja upp á vegginn hérna í stofunni sem alveg bíður eftir að verða skreyttur með einhverri glæsilegri mynd.
Það er kannski smá skrýtið að vera með andlit af ókunnugri manneskju hangandi upp á vegg hjá sér en ef hún er í svarthvítu og gefur frá sér góða orku og stemningu að þá hlýtur það að koma skemmtilega út. Ég held að kúnstin sé að velja sér mynd sem hægt er að láta sér þykja vænt um og þá mun stærðin ekki trufla. Einnig finnst mér stórar dýramyndir og myndin af fætinum alveg brilliant og eitthvað sem kemur vel til greina sömuleiðis.
Ég hef séð nokkrar myndir sem mér líkar vel við á www.gettyimagesgallery.com en ef þið vitið um fleiri síður þar sem hægt er að kaupa myndir í þessum dúr, endilega deilið því þá með okkur :-)
Skrifa Innlegg