Nú liggur ljóst fyrir hver sigraði hönnunarkeppni Trendnet, Coke Light og RFF en kosið var á milli fjögurra hönnuða, þeirra Hildar Sumarliðadóttur, Sóleyjar Jóhannesdóttur, Sóllilju Baltasardóttur og Ylfu Grönvold.
Og sigurvegarinn er…
Hildur Sumarliðadóttir
Hildur hlaut 1.132 atkvæði en alls voru greidd 3.233 atkvæði . Hönnun hennar mun því vera til sýnis í Hörpu á laugardaginn á meðan á RFF hátíðinni stendur og fær einnig að launum 250.000 króna styrk til framleiðslu á hönnun sinni. Við heyrðum hljóðið í Hildi eftir að úrslit lágu fyrir.
Hver eru fyrstu viðbrögð eftir að hafa sigrað hönnunarkeppnina? Það var ótrúlega gaman og mikill heiður að hafa verið valin í netkostninguna af dómnefndinni og svo að komast alla leið! Mig langar líka að þakka öllum fyrir sem að gáfu sér tíma til að kjósa.
Nú er átfittið sem þú sendir inn úr útskriftarlínunni þinni, er línan í heild sinni öll í svipuðum stíl? Línan er eitt heildstætt verk sem var unnið út frá ákveðnum conceptum þannig að öll línan tengist.
Hvað vonast þú eftir að sigurinn í þessari keppni muni gera fyrir þig? Þetta er ótrúlega góð kynning fyrir mig og skemmtilegt tækifæri til að kynna mig sem fatahönnuð.
Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér? Ertu með einhver önnur járn í eldinum? Ég sé mig ekki öðruvísi en að starfa í tískuheiminum. Ég er nýflutt til Kaupmannahafnar þar sem tískusenan er stór og skemmtileg. Mig langar til að nýta tímann á meðan ég er hér til að öðlast þekkingu og reynslu í bransanum. Svo veit maður aldrei hvaða skemmtilegu tækifæri koma á leiðinni og það er það sem er svo skemmtilegt við þetta allt saman.
Í myndbandinu kynnumst við Hildi og hennar hönnun betur
Skrifa Innlegg