Nú eru tveir dagar til stefnu og nánast uppselt á hátíðina! Trendnet fann fjóra töffara sem ætla ekki að láta sig vanta í Hörpu um helgina og spurði þá nokkurra spurninga.
Ingunn Embla Axelsdóttir
Hvað finnst þér um hátíðina?
Reykjavík Fashion Festival er að mínu mati mjög mikilvæg hátíð þar sem hún er einskonar stökkpallur fyrir íslenska fatahönnuði og frábær markaðsetning á hönnuðunum hérlendis og erlendis. RFF er frábær vettvangur fyrir íslenska hönnun og er stærsta og jafnvel eina tískuhátiðin á Íslandi. Það er svo frábært hvað það eru margir aðilar s.s. framleiðslu- ,hönnunar-, förðunar-, hárgreiðslu-, módel- og stílistateymi sem koma að þessum stóra viðburði og leggja sig öll fram í að verða að einni heild. Mér finnst hátíðin alltaf verða betri og flottari með ári hverju og ég hef einstaklega góða tilfinningu fyrir þessari í ár.
Hvaða hönnuði ert þú spenntust fyrir?
Ég er rosalega spennt fyrir JÖR þar sem ég er mjög hrifin af androgyny stílnum í fötunum sem hann hannar.
Hvað finnst þér um tískuna á Íslandi?
Mér finnst tískan hér á Íslandi vera mjög einsleit. Það eru samt alltaf einstaklingar sem þora að standa upp úr og vera öðruvísi. Þegar það kemur eitthvað trend í tísku eru nánast allir komnir í það 5 mínútum seinna, sem mér finnst vera frekar leiðinlegt. Tískan fer mikið í hringi þessa dagana en núna er tímabila tískan frá 9.áratugnum í miklu uppáhaldi hjá íslensku ungmennunum, en mér persónulega finnst vera komið gott af þessari hringrás og vil fara sjá eitthvað nýtt.
–
Sindri Snær Jensson
Hvað finnst þér um hátíðina?
Mjög vaxandi hátíð og lífsnauðsynleg fyrir iðnaðinn hér heima. Við sem erum í tískubransanum hér heima þurfum að standa saman og gera þetta að aðlandi grein sem skapar störf og tekjur fyrir þjóðarbúið. Umgjörðin um hátíðina hefur hingað til verið mjög flott og á ég ekki von á öðru en að sama verði upp á teningnum í ár.
Hvaða hönnuði ert þú spenntastur fyrir?
Gummi er minn maður og ég er við bakið á honum 100%, mjög spenntur fyrir sýningunni hans. Svo er spennandi að sjá hvað Ása Ninna og co. hafa verið að kokka upp með Eyland.
Hvað finnst þér um tískuna á Íslandi?
Tískan á Íslandi er margslungin og háð svo mörgum utanaðkomandi aðstæðum líkt og veðri og aðgengi að fallegri vöru. Hjarðhegðun er meira áberandi í litlu samfélagi líkt og Íslandi svo “trend” koma og fara hratt, það er óhjákvæmilegt. Annars er mikil gróska sem ég fagna en ég væri til í að sjá fleiri fatamerki koma upp sem eru í fyrsta lagi fyrir karlmenn og í öðru lagi meira aðlöguð að veðurfari hér heima og aðgengilegri stærri hóp, verðlega og útlitslega séð. Heilt yfir erum við samt á réttri leið, strákarnir þurfa aðeins að stíga upp.
–
Lára Kristinsdóttir
Hvað finnst þér um hátíðina?
Mér líst rosalega vel á hana. Ég hef aldrei látið mig vanta. Gaman að sjá hátíðina stækka.
Hvaða hönnuði ert þú spenntust fyrir?
Ég er mjög spennt fyrir þeim öllum en þá mest Eyland og Another Creation
Hvað finnst þér um tískuna á Íslandi?
Hún getur verið mjög einhæf en samt sem áður flott. Það er gaman að sjá fólk sem þorir, ég fíla það.
–
Helga Jóhannsdóttir
Hvað finnst þér um hátíðina?
RFF er frábær hátíð fyrir tískuunnendur, og algjörlega nauðsynleg fyrir íslenska hönnuði.
Hvaða hönnuði ert þú spenntust fyrir?
Ég er spenntust að sjá Eyland, Jör og Sigga Maija en annars er ég eiginlega bara spennt fyrir öllum sýningunum! Ég er að fara á RFF í fyrsta skipti svo ég hlakka mikið til.
Hvað finnst þér um tískuna á Íslandi?
Mér finnst tískan á Íslandi mjög skemmtileg þó það komi alltaf ákveðin trend þar sem allir verða að eiga/ganga í því sama. Fólk er farið að þora að taka áhættur og vera öðruvísi, það heillar mig. Einnig er ég ánægð með hvað strákar eru farnir að pæla mikið í hverju þeir klæðast!
–
Við þökkum þessu frábæra fólki fyrir spjallið og hlökkum til að sjá þau um helgina í tískugír!
Rósa María Árnadóttir.
Skrifa Innlegg