JÖR var að klárast rétt í þessu og þar með síðasta sýning dagsins. Mikil spenna lá í loftinu áður en sýningin hófst og margt var um manninn – án efa fjölmennasta sýningin. Línan kom skemmtilega á óvart en viðheldur sama töffaraskapnum sem er einmitt það sem maður elskar við JÖR. Guðmundur svaraði tveimur spurningum fyrir okkur:
Hvaðan fékkstu innblásturinn fyrir línuna?
Línan er innblásin af aristókrötum, royalisma, gulli og almennri fullkomnun/ófullkomnun. Einnig skoðaði ég mikið búninga og lág yfir díteilum í einkennisbúningum. Að fara inná búningasviðið er soldið snúið þar sem maður þarf að gæta þess að fatnaðurinn verði ekki of búningalegur. Það sem gerir innblásturinn og karakterinn áhugaverðan er hinn þáttur rannsóknarvinnunnar en þar var ég að skoða sorann, andstæðu fullkomunarinnar. Það er svona heróín/goth fílingur. Semsagt mig langaði til að skapa heim sem sameinar þessa tvo. Það mætti því segja að þetta sé svona fjúsjon af royal-heróin-goth. Við lögðum mikið uppúr efnum og textílvinnslu, prentum og litun. Línan er flókin og hlaðin af mikið af smáatriðum og mismunandi tækniútfærslun í textíl og prenti. Einnig var gríðarleg vinna lögð í að búa til áhugaverð snið.
Skemmtileg uppákoma sem gerðist í hönnunarferlinu?
Það er alltaf mikið af rugli sem gerist í svona ferli en fallegasta mómentið í öllu ferlinu var þrem dögum fyrir sýningu þegar við fengum tölvupóst þar sem okkur var boðið að kaupa hnappagatavél; en við vorum í algerri klemmu með hnappagötin og það var akkúrat komið að því gera þau. Þetta kom sem himnasending og var í raun alveg galið. Enda erfitt að komast í slíkar vélar hér heima.
JÖR er alveg með þetta.
Mikill glæsibragur var yfir hátíðinni í ár og við hlökkum til RFF 2015!
–
Rósa María Árnadóttir.
Skrifa Innlegg