Fríða María Harðardóttir og Guðbjörg Huldís Kristinsdóttir eru yfir förðuninni á Reykjavík Fashion Festival í ár.
Trendnet fékk að spyrja Fríðu og Guðbjörgu nokkurra spurninga.
Hver er bakgrunnur þinn í faginu?
F: ,,Eftir að ég lauk námi í myndlist skellti ég mér í förðunarnám hjá Face Stockholm. Ég átti von á mínu fyrsta barni og var farin að hugsa voðalega praktískt og fannst ég þurfa að læra eitthvað sem gæfi mér öruggari tekjur. Ég hafði svo sem ekki hugmynd um hvernig sá bransi virkaði og hélt jafnvel að hægt væri að vinna við förðun í hlutastarfi með myndlistinni. Raunin varð önnur, ég datt inn í förðunarbransann af fullum krafti og myndlistin bíður enn.”
G: ,,Ég lærði í London College of fashion og sérhæfði mig í svokallaðri Media make-up, sem sagt förðun fyrir hina ýmsu miðla.”
Skemmtilegustu verkefnin sem þú hefur tekið að þér?
F: ,,Verkefnin sem ég hef komið að eru orðin ansi mörg og mismunandi og erfitt að velja úr einhver ákveðin. Til dæmis hef ég unnið mikið með Björk undanfarin ár, meðal annars við Biophilia tónleikana hér heima og við nýjasta tónlistarmyndbandið hennar, Mutual Core. Á síðasta ári vann ég líka við fleiri skemmtileg tónlistarmyndbönd fyrir t.d. Sigurrós, David Guetta og Woodkid. Annars felast gæði verkefna, hvað mig varðar, ekki síst í því að vinna með skemmtilegu, kláru og skapandi fólki. Þá verða flest verkefni skemmtileg.”
G: ,,Erfið spurning; CPH fashion week. Ótrúlega gaman og mikill hraði og stress, Virkaði sem mikil vítamínsprauta og gleði fyrir mig. Bíómyndin Eldfjall var mjög krefjandi verkefni þar sem maður kafar niður í karaktera og þarfnast mikillar nákvæmni. Mjög gefandi verkefni. Vogue Portugal; fagmenn í hverri stöðu frá UK og USA í crewinu og fallegustu föt og skart sem ég hef augum litið sem módelið klæddist. Var mjög þakklát fyrir að fá að vera með í svona flottu starfi.Svo eru líka ótrúlega margar skemmtilegar auglýsingar að baki með frábæru fólki hérna heima.”
Hefuru tekið þátt í RFF áður og ef svo er hvað er öðruvísi í ár frá fyrri árum?
F: ,,Ég tók þátt í RFF í fyrra líka og fyrirkomulagið, hvað mig og förðunarteymið varðar, er ekki mjög frábrugðið núna. Í ár er þetta allt á einum degi, þ.e.a.s. tískusýningarnar, en í fyrra var þeim dreift á tvo daga. Hátíðin er auk þess meira tengd við Hönnunarmars núna, sem mér finnst mjög jákvætt. Þetta verður vafalaust mjög skemmtilegur viðburður.”
G: ,,Ég var með í fyrra og var key- artist fyrir fjórar sýningar. RFF er að vaxa með hverju árinu og núna er þetta yfirvegað og skipulagið mjög gott. Flottir hönnuðir í hverju sæti og þetta verður frábært. Mikið augnkonfekt og skemmtilegt!”
Sumartrendin í make-up?
F: ,,Það sem mér finnst vera áberandi varðandi sumarförðunina í ár er bara minni förðun. Skörpu augabrúnirnar og sixties eyeliner eru að detta út. Við erum að sjá áhrif frá mínimalismanum sem einkenndi seinni hluta tíunda áratugarins. Einnig eru varalitir að lýsast aðeins eða að fara út í brúna tóna.”
G: ,,Húð, húð, húð – falleg og ,,dewy” húð, ekki púðuráferð. Bjartir varalitir, rauðir, vínrauðir og orangetónar. Eyeliner verður sterkur í sumar en mun svo verða á undahaldi í haust. Kaldir brúnir tónar í kringum augun, afar fallegt.”
Uppáhalds ,,must-have” snyrtivara?
F: ,,Uppáhalds must-have snyrtivörur hvað mig varðar persónulega eru Paintpot frá MAC sem heitir Groundwork. Það er svona milli grábrúnn kremaður augnskuggi sem þornar og helst fáránlega vel á og er hægt að nota einan og sér, eða sem grunn fyrir aðra augnskugga. Uppáhalds maskarinn minn heitir Studio Fix Lash frá MAC. Svo er ég mjög hrifin af lituðu dagkremi úr EXTRA línunni frá Bobbi Brown, það er sérlega rakamikið, áferðin mjúk með léttum og frísklegum gljáa og í því er vörn SPF25. Ég er líka mjög háð corrector leiðréttandi baugafelurum frá Bobbi Brown. Svo er mjög skemmtilegt efni sem ég var að eignast frá Smashbox og heitir Photo Finish Hydrating Under Eye Primer. Þetta undraefni notar maður ofan á augnkrem, áður en hyljarinn eða baugafelarinn er borinn á svæðið undir augunum. Gerir góða hluti.”
G: ,, Embryolisse rakakrem finnst mér algjört must have undir farða, fæst því miður ekki hér á landi en ég passa að eiga alltaf lager.
MAC paintpot í hvaða lit sem er, nota þá rosalega mikið og eru svo fallegir og auðveldir í notkun.”
Þökkum Fríðu Maríu og Guðbjörgu Huldísi fyrir þetta!
Margrét Þóroddsdóttir
Skrifa Innlegg