fbpx

Eva Laufey Kjaran

Nautalund með bernaise og piparostasósu

IMG_8377

Í síðustu viku fengum við góða gesti í mat og mig langaði til þess að bjóða þeim upp á eitthvað svakalega gott, ég fór út í Hagkaup og það fyrsta sem fangaði auga mitt í kjötborðinu var girnileg nautalund og sömuleiðis gargaði Bernaise sósan á mig sem var þarna líka. Ég stóðst ekki mátið, keypti kjötið, sósuna og gott meðlæti. Máltíðin var afar ljúffeng, ég byrjaði á því að elda kartöflurnar og á meðan þær voru í ofninum eldaði ég kjötið. Eldunin var afar einföld eða alveg eins og okkur þykir kjötið best. Hér kemur uppskriftin að nautalund með Hasselback kartöflum og piparostasósu. (Bernaise sósan var keypt í þetta sinn og því fylgir ekki uppskrift haha).

IMG_8364

Nautalundir

Ólífuolía
800 g nautalund
Smjör
Salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu, kryddið kjötið með salti og pipar og setjið á pönnuna. Það er afar mikilvægt að pannan sé mjög heit.
  2. Steikið kjötið á öllum hliðum þar til það verður brúnt og fallegt, í lokin bætið þið smjörklípu út á pönnuna og hellið smjörinu yfir kjötið.
  3. Setjið kjötið í eldfast mót, hækkið hitann á ofninum í 200°C og eldið kjötið í 10 – 12 mínútur.
  4. Leyfið kjötinu að hvíla í 8 – 10 mínútur áður en þið skerið það í bita.
  5. Þessi steiking er medium/medium rare.

Hasselback kartöflur

Stórar bökunarkartöflur, magn eftir smekk
Smjör
Ólífuolía
Salt

Aðferð:

  1. Skerið bökunarkartöflunar í tvennt og skerið raufar niður í þær með stuttu millibili án þess að skera alveg í tvennt.
  2. Hellið vel af olíu í eldfast mót og raðið kartöflunum í fatið. Setjið nokkrar smjörklípur í fatið og saltið vel.
  3. Bakið við 180°C í 40 – 45 mínútur. Mér finnst gott að snúa þeim við einu sinni til tvisvar og vökva þær með olíunni og smjörin af og til. Þannig tryggjum við að þær verði stökkar að utan og mjúkar að innan.

IMG_8366 IMG_8369

Piparostasósan vinsæla
500 ml matreiðslurjómi
½ piparostur – eða meiri, smekksatriði
½ kjúklingateningur

Aðferð:

1. Bræðið piparostinn í matreiðslurjómanum við vægan hita.
2. Bætið kjúklingatening saman við og hrærið vel í sósunni.
3. Berið fram með kjötinu og njótið.

IMG_8374

IMG_8385

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Brúðkaupsterta með fallegum blómum og marengshnöppum.

Skrifa Innlegg