Og hjartaði mitt bráðnaði gjörsamlega. Við byrjuðum helgina á pizzabakstri og þetta var í fyrsta sinn sem Ingibjörg Rósa hjálpaði mömmu sinni, þetta verður okkar fasti liður á föstudögum. Matargerðin verður milljón sinnum skemmtilegri þegar maður fær svona góða aðstoð og mér þótti svo ánægjulegt að sjá hvað litlan mín naut sín. Hún er að verða tveggja ára í júlí og allt í einu er hún orðin svo fullorðin, farin að tala mikið og skipa okkur foreldrum sínum fyrir hægri vinstri haha.
Í fyrsta pizzabakstrinum okkar saman þá bökuðum við einfalda pizzu sem allir á heimilinu geta borðað, margarita var á boðstólnum en móðirin fékk að lauma hráskinku á sinn hluta. Við elskum þessa pizzu og sérstaklega pizzabotninn, mjög einfaldur og allir geta bakað hann. Svo er hægt að bæta öllu því sem hugurinn girnist ofan á pizzuna, fer allt eftir smekk hvers og eins.
Föstudagspizzan að hætti Ingibjargar Rósu
Pizzadeig
2 1/2 dl volgt vatn
3 tsk þurrger
2 tsk hunang
2 msk ólífuolía
400 g Brauðhveiti frá KORNAX
Einn skammtur pizzasósa, við notum oft hakkaða tómata eða tómatmauk
Rifinn mozzarella ostur og pizzaostur í bland
Pipar
Hráskinka
Gott salat
Parmesan ostur
Aðferð:
Leysið gerið upp í volgu vatni og það er afar mikilvægt að gerið sé volgt.
Bætið hunangi saman við og hrærið vel í.
Þegar byrjar að freyða í skálinni er gerið klárt. Blandið olíu og hveitinu saman við í hrærivélaskál. Þið getið auðvitað hnoðað deigið í höndunum en mér finnst langbest að nota hnoðarann á hrærivélinni, það ferli tekur um það bil 4 – 6 mínútur. Deigið er tilbúið þegar það er orðið að kúlu og klístrast ekki við hrærivélaskálina.
Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefa sig í klukkustund.
Fletjið deigið út og smyrjið deigið með pizzasósu.
Setjið það álegg sem þið viljið nota ofan á og bakið pizzuna við 220°C 7 – 10 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.
Berið pizzuna gjarnan fram með hráskinku, góðu salati og nýrifnum parmesan osti.
Best í heimi <3
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Skrifa Innlegg