Sunnudagar eiga að vera til sælu, svo mikið er víst. Að byrja daginn á bakstri er einfaldlega vísir að góðum degi og í morgun ákvað ég að skella í þessar einföldu og gómsætu vöfflur með súkkulaði og jarðarberjum. Ég eignaðist svo fínt belgískt vöfflujárn um daginn og mér þykir svo gaman að baka þessar þykku og góðu vöfflur, það tekur enga stund að skella í vöfflurnar og ilmurinn um heimilið er himneskur. Uppskriftin er ekki stór en það er lítið mál að tvöfalda eða þrefalda hana, upplagt að skella í þessar fínu vöfflur í kaffitímanum í dag.
Annars vona ég að þið eigið ljúfan sunnudag framundan með fólkinu ykkar, á morgun hefst prófavika hjá mér í háskólanum og eyði ég þess vegna deginum inni að læra. Ég strax orðin spennt fyrir næstu helgi en þá ætla ég að njóta þess að vera með Ingibjörgu Rósu. Þá verður aftur bakað þessar vöfflur en uppskriftin er hér að neðan.
Belgískar vöfflur með súkkulaði og jarðarberjum
ca. 10 vöfflur (lítil uppskrift – auðvelt að tvöfalda eða þrefalda)
2 bollar Kornax hveiti (ca. 5 dl )
1 tsk lyftiduft
2 egg
1 tsk vanilla (extract eða sykur)
3 msk sykur
1 bolli mjólk (2,5 dl)
1 bolli AB mjólk (2,5 dl)
3 msk ljós olía
Smjör
Aðferð:
Blandið þurrefnum saman í skál.
Pískið tvö egg, hellið mjólkinni, olíunni og ab mjólkinni saman við og blandið við þurrefnin.
Blandið öllu vel saman og hitið vöfflujárnið, smyrjið járnið með smjöri og bakið vöfflurnar þar til þær eru gullinbrúnar.
Berið vöfflurnar strax fram og þær eru gómsætar með súkkulaði og jarðarberjum. Það er líka ótrúlega gott að rista nokkrar pekanhnetur og útbúa einfalda karamellusósu… þið getið sumsé borið vöfflurnar fram með öllu því góðgæti sem ykkur lystir
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Skrifa Innlegg