Ætli fegurðarleyndarmál ítölsku þjóðarinnar liggi í rauðum kirsuberjatómötum ?
Ég hef ekki átt djúsvél í fjögur ár því ég hafði ekki fundið ákkúrat þá vél sem mig langaði í. Ég varð því mjög ánægð þegar ég komst að því að biðin hafi verið þess virði og peningunum vel sparað með því að hinkra aðeins. Ég var nefnilega að uppgötva að það er til eitthvað sem heitir slow-juicer/silent-juicer og djúsar grænmeti, ávexti og hnetur á mjög lágum styrk þannig næringarefnin varðveitast betur. Þetta er tilvalið fyrir blaðgrænmeti eins og t.d spínat og hveitigras en það mætti líkja pressuninni við vindingu, að vélin vindi grænmetið og skilar hratinu út skraufaþurru.
Með djúsvélinni fylgdi bæklingur með góðum djúsuppskriftum sem og ýmiskonar fróðleik. Ein uppskriftin er einfaldlega að pressa vel þroskaða kirsuberjatómata, sem ég einmitt hef verið að gera undanfarna morgna. Í bókinni segir að best sé að drekka djúsinn á tóman maga strax á morgnanna því sítrónusýran í tómatsafanum hefur örvandi áhrif á meltinguna. Kirsuberjatómatar eru ríkir af andoxunarefninu carotenoid en einnig af lycopene sem talið er geta dregið úr öldrun. Ég er því sannfærð um að þetta, ásamt öðru í miðjarðarhafsmatarræðinu, sé ástæða þess að ég held alltaf að allir sem ég kynnist á ítalskri grundu séu miklu yngri en þeir í raun og veru eru.
Djúsinn sem þið sjáið í glösunum er einfaldlega bara gerður úr tómötunum sem þið sjáið. Mestu máli skiptir að tómatarnir séu vel þroskaðir og fallega rauðir en best er að láta tómata þroskast í bréfpoka við stofuhita. Einn af eiginleikum slow-juicer véla er sá að safinn skilur sig ekki og því helst hann svona jafn þrátt fyrir að hann sé látinn standa.
Vélin mín er af tegundinni Kuvings en þegar ég var heima á Íslandi keypti ég samskonar vél handa tengdafjölskyldu minni, aðra tegund að vísu, en hana fékk ég í ELKO á um 20.000 kr. Ég veit líka að þær eru til í Byggt og Búið í Kringlunni á svipuðu verði, ef einhverjir hafa áhuga á að eignast svona vél – og yngjast í leiðinni ;-)
Skrifa Innlegg