fbpx

SVART Á HVÍTU MÆLIR MEÐ: HÖNNUNARSÝNING ARTEK Í PENNANUM

HönnunKlassíkSamstarfUppáhalds

Ég kíkti við í hádeginu í gær á hönnunarsýningu Artek – Art & Technology í Pennanum, Skeifunni sem opnaði fyrir nokkrum dögum síðan. Sýningin var sérstaklega áhugaverð og gaman að kynna sér nánar þetta merka finnska fyrirtæki sem var jú stofnað af engum öðrum en Alvar Aalto og Aino Aalto, arkitektum og þekktustu hjónum hönnunarsögunnar. Á sýningunni má sjá m.a. hönnun og  frumkvöðulsstarf Alvar Aalto frá fjórða áratug síðustu aldar ásamt heimsþekktri hönnun þekktra yngri hönnuða.

Ég á mér nokkra uppáhalds hluti frá Artek sem flestir eru hannaðir af Aalvar Aalto, en það vakti þó athygli mína að hollenska Hella Jongerius sem ég held mikið upp á hefur valið nokkra klassíska muni frá Artek og sett í nýjan búning, þar má nefna staflanlegu kollana og Tea Trolley (1936).

Sýningin stendur til 8. október svo það er enn tími til að líta við, það er ekki annað hægt en að gefa sér tíma og skoða þessar fáu hönnunarsýningar sem hér eru haldnar og þessi er ansi vegleg. Fyrir áhugasama þá var mér bent á að 25% afsláttur væri á öllum vörum frá Artek á meðan sýningunni stendur. Eflaust mörg ykkar sem getið nýtt ykkur það.

Ég tók saman mína uppáhalds hluti frá Artek, suma sem mig hefur dreymt um í mörg ár og aðra sem nýlega hafa ratað á óskalistann minn langa. Armstóllinn með sebraáklæðinu sem Alvar Aalto hannaði árið 1936 er draumur – sem og allir hinir hlutirnir á myndinni ♡

“Fjórar ungar hugsjónamanneskjur stofnuðu Artek í Helsinki árið 1935. Þetta voru arkitektarnir Alvar og Aino Aalto, listunnandinn Maire Gullichsen og listasagnfræðingurinn Nils-Gustav Hahl. Tilgangurinn var að selja húsgögn og stuðla að nútímalegu samfélagi með sýningum og annarri fræðslu. Þarna var markað upphaf eins óvenjulegasta og metnaðarfyllsta verkefnis sem um getur í húsgagnasögunni. Stofnendurnir hugsuðu sér Artek sem vettvang fyrir nútímalist, framleiðslu, innanhússhönnun og áróður.

Artek starfar enn í dag í róttækum anda stofnendanna, er frumkvöðull í nútímahönnun og þróun á nýjum vörum þar sem hönnun, arkitektúr og list mætast. Línan frá Artek samanstendur af húsgögnum, ljósum og smærri munum, hönnuðum af finnsku hæfileikafólki og leiðandi alþjóðlegum hönnuðum.”

Ég mæli með að kíkja við hjá þeim í Pennanum Skeifunni og skoða þessa glæsilegu sýningu. Hver veit nema ég eigi eftir að skottast þarna við og næla mér í afslátt á eins og einu púðaveri…

BÓHEMÍSKT HEIMILI STÍLISTA & BLOGGARA

Skrifa Innlegg