fbpx

ÓSKALISTINN // TACCIA & SNOOPY FRÁ FLOS

HönnunKlassíkÓskalistinn

Óskalistinn að þessu sinni hefur að geyma tvo glæsilegustu lampa hönnunarsögunnar en það eru Taccia og Snoopy lamparnir frá Flos sem eru báðir hannaðir af þeim bræðrum Achille og Pier Giacomo Castiglioni. Castiglioni bræður eru á meðal mestu snillinga sem uppi hafa verið og má finna verk þeirra á helstu hönnunar og listasöfnum um allan heim, flestir þekkja a.m.k. Arco lampann (1962) sem er einnig eftir Castiglioni bræður. Taccia lampinn leit dagsins ljós árið 1962 og stuttu síðar eða 1967 kemur Snoopy lampinn út en á þessum tíma þykja þessir lampar mjög framúrstefnulegir. Taccia og Snoopy eiga það þó sameiginlegt að hafa staðist tímans tönn og þykja í dag mjög eftirsóknaverðir – enda skal ekki furða þar sem þeir eru alveg gífurlega fallegir og ég vona að einn daginn verði annar þeirra minn ♡

Taccia er þessi hér að ofan, og Snoopy er fáanlegur með svörtum, grænum eða appelsínugulum skermi.

Hönnunaríkon eins og þau gerast best – hvor þeirra þykir ykkur fallegri?

Fyrir áhugasama þá er FLOS fáanlegt hjá Lumex hér á Íslandi.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

NÝTT FÍNERÍ FRÁ STRING // BLUSH & BEIGE

HönnunKlassík

Klassísku String hillurnar þekkja flestir, en í ár eru 70 ár liðin frá því að hillurnar voru fyrst kynntar til sögunnar. String hillurnar hafa síðan þá notið gífulegra vinsælda, enda sérstaklega smart og svo er hægt að raða þeim saman á endalausa vegu. Núna í ár í tilefni af 70 ára afmælinu eru String hillurnar kynntar í tveimur nýjum litum, Blush og Beige en ásamt því bætist líka við galvaníseruð útgáfa sem eru hugsaðar til notkunar utandyra! Núna um þessar mundir eru ótalmargar skemmtilegar hönnunarsýningar í gangi þar sem allar nýjunar úr hönnunarheiminum eru og verða kynntar – ég er einmitt á leið á eina skemmtilega sýningu í næstu viku og ég get hreinlega ekki beðið eftir að sjá meðal annars nýju String hillurnar.

Hér að neðan má svo sjá String galvaníserað –

Skemmtilegar fréttir af einni vinsælustu hönnun í Skandinavíu en String Pocket hillurnar sérstaklega má sjá á ótalmörgum íslenskum heimilum!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÓMÓTSTÆÐILEGAR 2019 NÝJUNGAR FRÁ IITTALA

iittalaÓskalistinn

Iittala tekst enn eina ferðina að heilla okkur upp úr skónum með spennandi nýjungum sem kynntar eru til sögunnar um þessar mundir. Ég var búin að sjá myndirnar en í dag gerði ég mér leið í verslun til að skoða vörurnar og þær eru vægast sagt hrikalega flottar og nú þegar að minnsta kosti ein þeirra komin ofarlega á óskalistann. Litur ársins 2019 – glæný borðbúnaðarlína og hrikalega djúsí bleikur litur er að bætast við vöruúrval frá finnska hönnunarrisanum sem við öll elskum ♡ Skoðum þetta saman, 

Til að byrja með þá bættist nýr litur við klassísku Teema línuna sem ber heitið Powder og er ljósbleikur og alveg hreint geggjaður litur. En einn af styrkleikum Teema vörulínunnar er fallegir litir og þær skemmtilegu litasamsetningar sem hægt er að raða saman með ólíkum Teema litum. Litir eru uppfærðir reglulega til að halda Teema litasamsetningunum í samræmi við tískustrauma hverju sinni.

“Liturinn powder er fágaður, heitur og hlutlaus litur sem hefur fallega mýkt. Hann er góður bakgrunnur undir öll litríku innihaldsefnin sem hægt er að nota í matargerð ásamt því sem hann leyfir matnum að njóta sín.”

Ásamt þessum spennandi nýja bleika lit kynnir iittala til sögunnar nýja borðbúnaðarlínu sem hönnuð er af Jasper Morrison sem er heimsþekktur vöru- og húsgagnahönnuður sem unnið hefur fyrir m.a. Vitra, Alessi, Rosenthal, Muji og Flos.

“Línan, sem ber heitið Raami, er einföld, og falleg borðbúnaðarlína sem hentar vel þegar skapa á gott andrúmsloft. Önnum kafnir einstaklingar kunna flestir vel að meta frjálslegt andrúmsloft og afslappaðar samkomur í stað formlegra matarboða. Þeir kunna að meta fjölnota borðbúnað sem hjálpar til við að skapa góða stemningu hvort sem er við morgun-, hádegis- eða kvöldverðinn. Finnska orðið Raami merkir rammi eða umgerð, en segja má að vörulínan rammi inn stemninguna við matarborðið. Raami borðbúnaðurinn er lágstemmdur og tekur ekki athyglina heldur skilur eftir rými fyrir stemninguna, matinn, drykkina og ímyndunaraflið.”

Síðast en ekki síst er það litur ársins 2019 hjá Iittala sem er ótrúlega fallegur sjávarblár – Sea Blue.

“Liturinn Sea Blue er litur ársins 2019 hjá Iittala. Í Finnlandi eru þúsundir vatna ásamt því sem það hefur langar strendur sem snúa að Eystrasaltinu.  Finnar finna því ákveðna tenginu við vatnið ásamt því sem það er lífsviðurværi margra. Vatn eða sumarhús við sjóinn er nauðsynlegur hluti finnska sumarsins, en flest sumarfrí snúast að miklu leiti um vatn, svo sem sundferðir, gufuböð, veiði, kanósiglingar, róður og fleira. Liturinn Sea blue vísar í sólríkan dag í fallegum eyjaklasa og kvöldsund eftir notalegt gufubað. Einstaklega afslappandi!”

Liturinn Sea blue hefur verið í framleiðslu frá því í byrjun ársins 2000 en í ár verða fjölmargar nýjar vörur framleiddar í þessum frísklega lit. Þar má helst nefna Kastehelmi glas, disk skál og krukku, Aino Aalto glös, Kartio karöflu, Aalto vasa í nokkrum stærðum og Kaasa kertastjakann.

Myndir : Iittala press

Ég hreinlega get ekki beðið eftir að eignast nokkrar af þessum nýjungum en ég er eldheitur iittala aðdáandi eins og einhver ykkar vita nú þegar ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

DRAUMAHEIMILI FULLT AF KLASSÍSKRI HÖNNUN

Heimili

Minna er meira eða “less is more” eru setning sem margir tengja við en oft er gott að hallast aðeins í hina áttina sérstaklega þegar kemur heimilum þar sem sjá má skemmtilega persónulegt safn af fallegum munum. Slík heimili heilla mig alltaf mjög mikið, þar sem sjá má einhverja sögu og heimilið komið með þroskaðan stíl – en að sjálfsögðu gerist þetta bara á eðlilegum hraða. Hægt og rólega sönkum við að okkur nýjum og gömlum munum, stundum ættargripum, listaverkum frá börnunum ásamt fallegum munum sem við höfum virkilega fyrir því að eignast. Ég er með einn góðan lista sem ég geymi í höfðinu á mér þar sem finna má fágæt hönnunaríkon sem ég hefði gaman af því að eignast einn daginn.

Þetta fallega heimili sem ég vil deila með ykkur er akkúrat svona heimili eins og ég var að lýsa, hér má finna fallega hönnun í hverju horni í blandi við persónulega muni og sýnir heimilið glögglega að eigandinn er með mjög næmt auga fyrir hönnun og list.

Hér gæti ég búið …

Myndir via Elle Decoration

Fallegt, fallegt, fallegt!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

48 FM BLEIKT HEIMILI HJÁ VÖRUHÖNNUÐUM

Heimili

Helgarinnlitið er á sínum stað og í þetta sinn varð heimili hjá sænskum vöruhönnuðum fyrir valinu. Þau Stina Löfgren og Mattias Chrisander hönnuðu og sérsmíðuðu ekki einungis innréttingar í eldhús og svefnherbergi heldur líka húsgögn sem smellpassa inná 48 fermetra heimilið þeirra þar sem stórsniðugar lausnir vekja athygli mína. Litapallettan er dásamleg og stíllinn persónulegur. Kíkjum í heimsókn…

Myndir:  Jonas Gustavsson via Elle Decoration

Hér fann ég nokkrar hugmyndir sem ég ætla að punkta niður hjá mér en ég er ótrúlega hrifin af þessu fallega heimili og góðum lausnum sem hér má finna.

Eigið góða helgi – ég er farin út að leika í snjónum ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

GULLFALLEGT & EINSTAKT ÁSTRALSKT HEIMILI

Það er fátt skemmtilegra en þegar ég rekst á heimili þar sem ég gæti hugsað mér að búa – og ennþá betra ef ég fæ kitl í magann að skoða myndirnar. Hér er einmitt slíkt heimili á ferð, sem gefur kitl í magann því svo fallegt og persónulegt er það. Bleik eldhúseyja með gylltum innréttingum, brúnum marmara, nóg af persónulegum munum og listaverkum og útkoman er eitt stórt VÁ! Þetta allt saman ásamt flennistórum gluggum og fallegum klifurplöntum sem gefa enn meira líf. Útkoman er fullkomin. Þetta glæsilega heimili birtist á síðu ástralska Design Files og hægt er að skoða viðtalið við húseigendur þar.

 

Myndir : The Design Files 

Hvað finnst ykkur um þessa innblástursprengju?

Heimili akkúrat eins og ég vil hafa þau, fullt af óvæntum atriðum, persónuleika, sjarma, bleikum & gylltum litartónum og hrikalega góður smekkur.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FALLEGT FYRIR BARNAHERBERGI // HANDGERÐAR DÝRAMOTTUR

BarnaherbergiÓskalistinn

Þessar handgerðu mottur eru með því fallegra sem ég hef séð fyrir barnaherbergi –

Ég er nefnilega með hugann við barnaherbergið þessa dagana þar sem enn á eftir að koma herbergi sonarins í gott stand eftir flutninga og gera það huggulegt svo hann vilji eyða meiri tíma þar inni við leik, og að lokum líka svefn. Í gær rakst ég á þessar dásamlegu dýramottur sem eru handgerðar á Indlandi og eru fullkomnar í barnaherbergið og ég fékk kitl í magann þegar ég sá þessa fegurð. Ég heillast mikið af hlutum fyrir heimilið (oft líka fatnaði) sem tengist dýraríkinu og á ófáa slíka hluti og þessi dýramotta er eitthvað sem má gjarnan bætast við safnið. Þessa stundina er ég þó að reyna að gera upp á milli þeirra hver verður fyrir valinu og á að sjálfsögðu eftir að ræða þetta við einn 4 ára ♡

 

“Motturnar eru frá merkinu Doing goods og skarta ýmsum elskulegum dýrum úr dýraríkinu sem láta þig eða barnið brosa á hverjum degi. Það er fátt betra en að byrja daginn á því að stíga úr rúminu á þessar fallegu handgerðu mottur. Allar vörur frá Doing goods eru handgerðar á Indlandi í litlu fjölskyldufyrirtæki sem spratt upp í samvinnu með Doing goods. Vinnuaðstæður, frítími og kaup er til fyrirmyndar enda eina rétta leiðin í heiðarlegum viðskiptum.”

 

Ég er bálskotin!

Fyrir áhugasama þá fást þessar fallegu mottur hjá vefversluninni Purkhús – sjá hér.

MEÐ BLEIKT SVEFNHERBERGI & SVART ELDHÚS

Heimili

Það er löngu orðið tímabært fyrir fyrsta innlit ársins…

Þetta dásamlega heimili sem varð fyrir valinu hefur í dag eignast annað líf á Pinterest auk þess að hafa birst í tímaritinu Elle Decoration á síðasta ári. Það sem greip mitt auga voru andstæðurnar, svart og töffaralegt opið eldhús á móti bleiku og kvenlegu svefnherbergi. Það er gaman að sjá hvernig innanhússhönnuðir koma sér fyrir, og í þessu tilfelli er það hin sænska Mimmi Johanson sem kom sér svona vel fyrir á 46 fermetrum!

Kíkjum í heimsókn –

Myndir : Elle Decoration

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

& ÞÁ VARÐ ÉG FÖRÐUNARFRÆÐINGUR

Persónulegt

Mig langaði til þess að taka saman nokkur atriði sem stóðu uppúr á liðnu ári en eitt af þeim atriðum á þó skilið sína eigin færslu en það var þegar ég útskrifaðist sem förðunarfræðingur frá Make up Studio Hörpu Kára. Það er vel við hæfi að ég skrifi um það einmitt í dag þar sem ég tók eftir á samfélagsmiðlum að í gær byrjaði skólinn aftur með glænýjum nemendum og ég fékk alveg kitl í magann að fylgjast með þessum nemendum og vildi hálfpartinn óska þess að ég stæði í þeirra sporum að byrja í þessu skemmtilega námi – aftur. Og svo mundi ég líka að ég hef ekki komið með neina uppfærslu um námið eftir að við fluttum inn í nýju íbúðina enda haft í nógu að snúast.

Á einhvern ótrúlegan hátt hendir lífið stundum í mann ólíklegum verkefnum og þannig varð úr að ég var skyndilega búin að skrá mig í förðunarnám í lok september 2018, að mestu leyti því að ég þráði tilbreytingu í lífið, ég var byrjuð að staðna í starfi og vantaði eitthvað til að minna mig á hvar áhuginn minn liggur. Undanfarin ár hef ég einungis starfað við það að skrifa og hægt og rólega hef ég sjálf nánast drepið mína skapandi hlið í fullri hreinskilni sem blómstraði fyrir nokkrum árum síðan. Ég nefnilega elskaði að skapa, teikna, hanna, mála og svo margt þar á milli.

Þetta var mín helsta ástæða að ég ákvað að slá til þegar Harpa Kára sannfærði mig um að námskeið hjá henni myndi mögulega kippa mér í réttan gír. Og svo hef ég eins og margir tengja við, þótt förðun vera spennandi þrátt fyrir að kunna ekki neitt. Ég kom þangað inn með engan grunn og hafði aldrei farðað neinn áður, nema mig sjálfa og notaði t.d. aldrei augnskugga, gerviaugnhár eða slíkt, s.s. 100% amatör. Ég hef fengið fjölmargar fyrirspurnir varðandi einmitt þetta atriði, hvort það þurfi að hafa grunn og vil því hafa það á hreinu:)

8 vikur liðu á ljóshraða svo skemmtilegt var námið. Þegar ég horfi tilbaka þá trúi ég varla hvað kennurunum tókst að kenna mér mikið og í dag þegar ég horfi á verkefnin mín er ég ótrúlega ánægð. En ég er víst haldin þeim leiða vana að vera mjög hörð við sjálfa mig og verð aldrei fullkomnlega sátt við það sem ég geri. Ég þurfti því smá fjarlægð frá verkefnunum mínum en þegar ég skoðaði aftur myndirnar í dag eftir gott jólafrí fannst mér þetta alveg hreint frábært og það er rosalegt afrek fyrir mig að viðurkenna það.

Ég útskrifaðist sem förðunarfræðingur í miðjum flutningum, þann 6. desember og núna mánuði síðar er tilvalið að birta nokkrar myndir frá náminu. Í náminu lærði ég það helsta um undirstöðuatriði förðunar ásamt því að læra heilmikið um húðumhirðu. Ég hef verið mjög dugleg að nýta mér þann fróðleik í leit minni að heilbrigðari húð, en Harpa, Natalie, Guðrún og Thelma ásamt öllum gestakennurunum eru þvílíkir viskubrunnar og ég var mjög dugleg að spurja enda forvitin með meiru. Með náminu fylgdi veglegt förðunarkitt og burstasett og ég uppgötvaði í leiðinni nýjar vörur sem eru nánast ómissandi í dag, og mig langar einmitt mikið til þess að deila með ykkur á næstu dögum mínum uppáhalds vörum sem námið og kennararnir kynntu mig fyrir.

Það kom mér skemmtilega á óvart að nálgunin í þessu námi er á að nemendur eiga eftir útskrift að geta unnið í “bransanum” og geta tekið að sér ólík verkefni fyrir myndatökur, auglýsingar, sjónvarp, kvikmyndir og slíkt. Því var mikil vinna lögð í húðvinnu til að útkoman væri nánast lýtalaus þar sem förðun fyrir myndatökur er ólík því að farða einhvern fyrir árshátíð. Við tókum fyrir sérstaklega hvernig eigi að farða “no make up – make up” og var það einnig eitt af þremur lokaverkefnum en aldrei hefði mig grunað að förðunarfræðingar væru mikið að vinna með slíka förðun. Við lærðum m.a. auglýsingaförðun, brúðarförðun, tískuförðun, sjónvarpsförðun, smokey, no make up ásamt ýmsu öðru og kem ég til með að búa að þessari þekkingu um ókomna tíð. Ég elska líka þá nálgun í skólanum að allir koma inn með ólíkan bakgrunn og á okkar eigin forsendum og því ekki nein pressa með próf og heimavinnu, við áttum bara að hafa gaman og líða vel í skólanum. Sem var einmitt raunin og hentaði mér gífurlega vel þar sem ég hef undanfarið ár verið að kljást við mikinn kvíða og hjálpaði Harpa mér persónulega mikið og á ég henni margt að þakka ♡

Síðustu þrjár myndirnar hér að ofan tók ég af sýnikennslum, annað er brot af því sem ég var að gera í skólanum.

Beauty make up //  Yndislega Linda Ben kom sem módel til mín í klassíska beauty förðun, en hún kom strax upp í hugann á mér þegar ég fór að hugsa um mögulegt módel í þetta lokaverkefni. Hér vildi ég leggja áherslu á rauðar varir og eyleliner sem mér þótti vera mín sterka hlið í náminu.  Útkoman var glæsileg, algjört power kvendi á þessari mynd, en við sem fylgjumst með Lindu vitum að hún er alltaf brosandi.  // Mynd : Saga Sig – Fatnaður : AndreA

Fashion make up // Katrín Erla kom nokkrum sinnum til mín sem módel í skólanum, algjört yndi þessi stelpa sem er einmitt núna sjálf byrjuð í náminu. Hér er hún í tískuförðun þar sem útkoman er oft óhefðbundin og allt er leyfilegt. Ég vildi vinna með bleikan varalit á augum ásamt nóg af glimmeri sem reyndist ekki auðveldasta hugmynd sem ég hef fengið! Hér hefði ég viljað lengri tíma til að ná akkúrat fram því sem ég vildi en ég er í dag mjög ánægð með útkomuna ♡ // Mynd: Anna Kristín Óskars – Fatnaður : AndreA

No make up – make up // Halla Sigríður Ragnarsdóttir módel kom til mín í lokaverkefni í no make up – en þrátt fyrir heitið “engin förðun” fór mikill tími í húðvinnu, létta augnskyggingu og andlitskyggingu, allt fyrir þá útkomu að módelið átti að vera með fullkomna glóandi húð. // Mynd: Saga Sig – Fatnaður: í einkaeigu, frá AndreA

Ég fann nýlega bók sem ég hafði skrifað í þegar ég var 8 ára gömul að þegar ég yrði stór ætlaði ég að verða “snirtifræðingur og hönuður” haha… ætli þetta sé þá ekki bara búið að rætast! Förðunarfræðingur og vöruhönnuður ♡

Ég hlakka til að deila með ykkur þessu nýja áhugamáli mínu.

Takk fyrir að lesa – og fyrir áhugasama þá rakst ég á (það bað mig enginn um að skrifa þessa færslu né deila þessu), en hægt er að vinna förðunarnámskeið hjá Make up Studio Hörpu Kára á Instagram – sjá nánar hér.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

2019 DAGATÖL // HEIÐDÍS HELGADÓTTIR

Íslensk hönnun

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur.

Ég tók mér kærkomið frí í nokkra daga og kem endurnærð tilbaka tilbúin fyrir stórskemmtilegt nýtt ár og spennandi verkefni. Ég ætlaði að vera búin að skrifa um fallegu handteiknuðu 2019 dagatölin frá vinkonu minni Heiðdísi Helgadóttur en hún er algjört hæfileikabúnt sem er ótrúlega gaman að fylgjast með t.d. á instagram @heiddddddis. Mörg ykkar eru líklega þegar búin að næla ykkur í eintak en ef þið eruð enn í leit að fallegu dagatali þá er ég mjög hrifin af þessu.

Dagatölin fást m.a. á heimasíðu Heiðdísar sjá hér, ásamt því að fást í Epal og kosta ekki nema 2.990 kr.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu