4 ÁRA AFMÆLI SNÚRUNNAR ♡ AFMÆLISVEISLA & AFSLÁTTUR

HeimiliVerslað

Eins og þið vitið nú þegar þá er ég mikill aðdáandi Snúrunnar, ekki aðeins vinna þarna sumir af mínum nánustu vinum heldur hef ég einnig fengið að fylgjast með þessu ævintýri hjá Rakel, eiganda Snúrunnar frá fyrsta degi.

Á morgun fagnar Snúran sem er ein glæsilegasta verslun landsins 4 ára afmæli sínu sem mér þykir alveg hreint ótrúlegt því ég man enn svo vel eftir því að hafa verið í bílskúrnum hennar Rakelar að versla vörur og þá hefði hvorugum okkar dottið í hug þessi ótrúlega velgengni svona stuttu síðar en núna hýsir Snúran einnig danska vörumerkið Bolia sem þykir mikill heiður. Í tilefni afmælisins fékk ég Rakel til að setjast niður og deila með okkur hvernig þetta ævintýri fór af stað og hvað stendur upp úr.

“Ráð mitt er alltaf að elta draumana sína, það er eitt að hafa hugmynd en allt annað að framkvæma hana. Það eru svo margir sem þora ekki af ótta við að mistakast.”

Í samstarfi við Snúruna vildi ég kynna fyrir ykkur afmælisfögnuðinn ásamt því að segja ykkur að um helgina verður 20% afsláttur af allri smávöru og ljósum í verslun og vefverslun. // Nánar tiltekið frá og með kl. 16:00 á föstudag og fram yfir helgi. Neðst í færslunni tók ég svo saman minn óskalista úr Snúrunni sem vonandi veitir ykkur innblástur.

Hvað kom til að þú opnaðir Snúruna?

Ég var búin að vera í löngu fæðingarorlofi og langaði virkilega til þess að komast í draumastarfið. Eru ekki allir að leitast eftir því að eftir að komast í starfið sem maður kallar að vera orðin fullorðin. Ég kynntist svo vel netverslunum þegar ég bjó út í London árið 2011 og langaði til þess að kynna hana fyrir Íslendingum. Upphaflega byrjaði Snúran sem netverslun og var þannig í 1 ár áður en við opnuðum í Síðumúlanum.

Myndir úr versluninni sem engin önnur en Rut Káradóttir hannaði.

Hverjir eru stærstu áfangarnir sem þú hefur náð með Snúruna?

Stærsti áfanginn er samningurinn við Bolia, það var rosalega stórt skref fyrir okkur að fara úr því að vera smávöruverslun yfir í húsgagnaverslun. Það hefur alveg ótrúlega mikið breyst frá því að vera með einn lítinn pappakassa í bílskúrnum heima í verslunina sem við erum með í dag. Ég hef alltaf verið dugleg að fagna áföngum en fyrsti var klárlega að opna verslunina í Síðumúlanum. Ári síðar var svo stækkun á sama stað og í fyrra færðum við okkur svo í tvöfalt stærra rými í Ármúla. Loksins get ég með sanni sagt að ég taki mér sumarfrí þetta árið en framkvæmdir fyrri ára hafa alltaf lent á sumrin.

Hver er best selda varan ykkar?

Best selda varan er án nokkurs vafa New Wave veggljósin okkar.

Topp 3 hlutir sem þú myndir vilja að allir ættu úr Snúrunni?

Það er erfitt að gera upp á milli barnanna sinna en ef ég þyrfti að velja þá væri það kertastjaki frá Reflections, New Wave veggljós og sængurver frá Mette Ditmer.

Hvaða ráð hefur þú fyrir ungar konur sem dreymir um að eiga eigin rekstur?

Ráð mitt er alltaf að elta draumana sína, það er eitt að hafa hugmynd en allt annað að framkvæma hana. Það eru svo margir sem þora ekki af ótta við að mistakast. Ég mætti stundum hafa smá stoppara á mér en maður veit aldrei hvernig hlutirnar ganga nema að prófa þá.

Takk elsku Rakel fyrir spjallið – ég hvet ykkur til þess að kíkja við á afmælisfögnuðinn og fagna með þessum snillingum sem standa á bakvið Snúruna. Núna á föstudaginn, þann 23. mars verður smá gleði í versluninni í Ármúla 38. Drykkir, snarl, tónlist og almenn gleði.

// Hér má svo sjá minn lista af hlutum sem ég myndi velja inn á mitt heimili. Eins og alltaf þá vel ég vörurnar sjálf og þær endurspegla minn persónulega smekk ♡ Ég fæ hreinlega ekki nóg af kristal vörunum frá Reflection og sófaborðið frá ByOn er eins elegant og þau gerast.

HEIMSINS FALLEGUSTU GARDÍNUR

HeimiliPersónulegtStofaSvefnherbergi

Mig hefði ekki grunað að það væri hægt að verða alveg bálskotin í gardínum en það er tilfellið eftir að ég setti upp nýju gardínurnar mínar frá Z brautum og gluggatjöldum sem ég fékk í gjöf – ég er bókstaflega ástfangin af þeim ♡

Eftir að hafa farið fram og tilbaka með það hvernig gardínur ég vildi til að gera herbergið okkar dálítið huggulegt þá varð fyrir valinu New Wave gardínur með 100% rykkingu í “hör” efni. New Wave er glænýtt kerfi sem gefur dýpri bylgjur og ég er að elska útkomuna, það er þó að sjálfsögðu hægt að velja hvaða efni sem er fyrir New Wave t.d. gegnsætt Voal. Í þessum gardínupælingum mínum og samstarfi kynntist ég eiganda Z brautum, henni Guðrúnu sem var mín hjálparhönd í þessum frumskógi sem gardínur geta verið og kynnti mig fyrir öllu því nýjasta í gardínuheiminum (án gríns það eru tæknibyltingar að koma þar inn). Upphaflega vissi ég nákvæmlega ekkert um gardínur og mig hefði ekki grunað að það væri í raun mikið úrval til af slíku. Ég hafði legið yfir myndum af fallegum gardínum á Pinterest til að finna út hverju ég heillaðist mest af og skrifaði jafn framt þessa færslu hér um leit mína af hinum fullkomnu gardínum og hér er enn önnur frá árinu 2014. Hlýlegt efni í hörlíki varð loks fyrir valinu og þessar stóru bylgjur eru alveg æðislega fallegar.

Mér líður orðið alveg ótrúlega vel á þessu litla heimili okkar og sé ekki eftir að hafa fengið mér svona glæsilegar gardínur – ég mun vissulega flytja þær með mér þegar við eignumst nýtt heimili því svona gardínur eru framtíðareign. Það er svo stutt síðan að ég var með ekkert nema þrýstistöng með teppi á fyrir gluggum ótrúlegt en satt.

Ég fékk mér einnig myrkvunartjöld frá Z brautum í hvítum lit – ég var búin að kaupa staðlaðar úr annarri verslun sem pössuðu svo ekki og fékk svo sérsniðnar akkúrat í þessa glugga og þvílíkur munur að sofna með myrvkunargluggatjöld ahhhhh.

Rétt áður en ég tók myndirnar í gær hafði ég þó verið að fikta í bylgjunum og svissa þeim (inn varð út) og áttu þær þarna eftir að jafna sig neðst, í dag eru bylgjurnar 100% fullkomnar.

 

Hérna sjáið þið smá á bylgjunni neðst eftir að ég hafði svissað þeim en þetta efni er ótrúlega fljótt að jafna sig á krumpum sem er vissulega mikill kostur. Neðst á gardínunum er blíþráður sem þyngir vængina svo þeir haldast nokkurn veginn á sínum stað.

// Grái liturinn á veggnum er Soft Paris frá Sérefni.

Hér má sjá áferðina á efninu sem er svo falleg.

Færslan er í samstarfi við Z brautir og gluggatjöld og fékk ég gardínurnar í gjöf. 

Fyrir ykkur sem ekki þekkið til okkar aðstæðna þá búum við tímabundið hjá foreldrum mínum í 20 fm herbergi og því munar öllu að geta gert svona litlar breytingar sem breyta þó öllu andrúmsloftinu til hins betra. Mér líður alveg innilega vel að koma inn í herbergið núna og þetta ár verður enga stund að líða þegar umhverfið veitir svona góða orku og vellíðan.

Væru aðstæður öðruvísi í dag en þær eru þá hefði ég mögulega valið ljósgrátt hör efni eða ljósbleikt á mismunandi herbergi, sjáið t.d. á þessu glæsilega heimili hér, til skiptis brúnar og hvítar og útkoman er stórglæsileg. Það má aldeilis leika sér með gardínur eins og liti á veggjum, sjáið einnig hér á heimili Mörtu Maríu á Smartlandi, ólíkir litir á gardínum eftir rýmum – ótrúlega smart!

Mér finnst hálf ótrúlegt að ég hafi ekki verið búin að þessu mikið fyrr og sé fyrir mér hvað stofan mín á Austurgötunni hefði verið tryllt með svona gardínum – næsta heimili verður með gólfsíðum gardínum í öllum rýmum.

SUNNUDAGSINNLIT : GRÁTT & SMÁTT

Heimili

Lítil heimili eiga hug minn allann þessa dagana – sem kemur varla á óvart.

Hér má sjá vel skipulagða 50 fm íbúð sem eigendur með góðar lausnir tókst að gera þetta langa mjóa rými nokkuð huggulegt. Skápurinn með rennihurðunum er frábær lausn til að hólfa niður rými og býr til geymslupláss á saman tíma, og sjáið hvað það er mikilvægt að hann nái ekki alla leið upp í loft til að hleypa dagsbirtunni inn. Ég sakna þess þó að sjá ekki ljós í loftinu en það er eitt það mikilvægasta að mínu mati fyrir heimilið að velja falleg ljós í loft og lampa.

Myndir via Bolig Magasinet 

Í dag er svo síðasti dagur HönnunarMars svo um að gera að skella sér í betri fötin og fara á sýningu áður en þær klárast. Dagskrána er hægt að skoða hér.

HÖNNUNARMARS – HVAÐ ER MÖST AÐ SJÁ!

HönnunÍslensk hönnun

Í dag hefst HönnunarMars formlega þó svo að í gær hafi þónokkrar sýningar opnað. Við erum að tala um 10 ár af HönnunarMars ótrúlegt en satt og það er aldeilis kominn tími til að kynna sér dagskrána í ár og punkta hjá sér áhugaverðar sýningar sem ekki má missa af. – Sjá dagskrá hér –

Ég ætla aðeins að stikla á stóru hér – og má því aðeins finna þær sýningar sem ég ætla alls ekki að missa af þó svo ég reyni nú að kíkja á fleiri. Ég kem til með að vera virk á Snapchat Svartahvitu yfir hátíðina svo áhugasamir um íslenska hönnun geta fylgst með ásamt hér á blogginu. Ég vil einnig taka fram að ég legg helst áherslu hér á þær sýningar á sviði vöruhönnunar, þó HönnunarMars hafi upp á ýmislegt að bjóða á sviði arkitektúrs, fatahönnunar, skartgripahönnunar og grafískar hönnunar.

// Ef þið smellið á sýningarnar þá farið þið yfir á viðburð þar sem sjá má opnunartíma og staðsetningar.

Geysir Heima : 5 sýningar 

5 sýningar hönnuða opna í Geysir Heima á Hönnunarmars, það eru þau Atelier Dottir, FÓLK x Ólína Rögnudóttir, STUDIO A, Theodóra Alfreðsdóttir ásamt 1+1+1+Sweet Salone. Ég er sértstaklega spennt fyrir FÓLK Reykjavík x Ólína ásamt Theodóru vinkonu minni. Hér verður nóg um að vera.

Lumex : Motta 

Verkefni Lumex eru gólfmottur unnar í samstarfi við Hollenska hönnunarfyrirtækið MOOOI sem sérhæfir sig í framúrstefnulegir hönnun. Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Í ár ætlar Lumex að leggja sitt af mörkum í baráttunni við krabbamein og hefur fengið til liðs við sig vöruhönnuðinn Hjört Matthías Skúlason og myndlistamennina Ingimar Einarsson og Kristin Má Pálmason.

Epal : Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd

Verk 17 hönnuða eru til sýnis og lögð er áhersla hér á hönnunargripi sem hafa nú þegar náð mikilli velgengni á erlendri grundu. Ásamt því má sjá spennandi nýjungar frá Fólk Reykjavík, Gagn, Hring eftir hring, Páli Garðarssyni, Ísak Winther og Sveinbjörgu

Norræna húsið : Innblásið af Aalto – með sjáfbærni að leiðarljósi.

Hönnunarsýningin Innblásið af Aalto tekur fyrir húsgagna- og aðra innanhússhönnun eftir finnska arkitektinn Alvar Aalto, sem og valda meistarahönnuði sem hafa starfað undir áhrifum frá Aalto. Allir hönnuðir á sýningunni eiga sammerkt að hafa unnið fyrir eða starfað með hönnunarfyrirtækinu Artek, sem Alvar Aalto var meðstofnandi að árið 1935. // Sýningin stendur fram í september.

Listasafn Reykjavíkur : #endurvinnslumálið

Efnt var til söfnunarátaks á áli í sprittkertum yfir hátíðarnar til þess að efla vitund almennings um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu. Nú bregða hönnuðir á leik með efniviðinn í samstarfi við Málmsteypuna Hellu: Studio Portland, Olga Ósk Ellertsdóttir, Ingibjörg Hanna og Sigga Heimis.

Rammagerðin : 54 Celsius – sjóðheitt nýtt stöff

54 Celsius er hönnunarmerki stofnað af Þórunni Árnadóttur vöruhönnuði og Dan Koval. Aðaláhersla merksins er á hið óvænta. Forsýning verður á nýjasta Pyropet dýrinu einhyrningnum Einari. Auk hans munu gestir fá nasaþef af glóðvolgum prufur og frumgerðum af nýjum vörum sem eru í þróun. Þær eru hannaðar af Theodóru Alfreðsdóttur, Adrianus Kundert og Ólöfu Erlu Bjarnadóttur.

Afgangar og nýjungar – húsgögn og ljós

AGUSTAV og Kjartan Óskarsson Studio opna formlega sýningarrými sitt að Funahöfða 3, 110 Reykjavík.
Heimsfrumsýning á nýjum vörum ásamt kynningu á nýrri hugmyndafræði AGUSTAV kölluð AFGANGAR sem er sérstaklega miðuð að umhverfisvitund í framleiðslu og getur af sér seríu af lífstíls og heimilisvörum.

MUN Barónsstíg- HönnMUNarmars 

MUN er allt í senn vinnustofa, gallerí og verslun, rekið af fjórum hönnuðum sem einblína markvisst á að gera fallegar vörur þar sem gæðin og notagildið eru alltaf í fyrirrúmi.
Vörumerkin sem reka saman MUN ætla að kynna fyrir gestum sínum nýjar vörur auk þess að fagna afmæli HönnunarMars og nýju húsnæði vörumerkjanna. Einnig verða upprennandi íslenskir hönnuðir með verkefni til sýnis.

My Concept store: Grown Alchemist

Ein fallegasta verslun miðbæjarins kynnirn nýtt merki – lífræna húðvörulínu Grown Alchemist. Vissulega ekki á sviði íslenskrar hönnunar en ef þið eigið leið um miðbæinn þá er tilvalið að kíkja við og skoða fallegar vörur fyrir heimilið

Hótel Marina : Studio Trippin 

Studio Trippin er hönnunarteymi á mörkum fatahönnunar og vöruhönnunar sem einbeitir sér að því að búa til hönnunarvöru úr loðnum hrosshúðum, sem eru vannýtt hráefni hérlendis. Sýningin verður innsýn inn í hugarheim Studio Trippin og mælt er með að fólk mæti með skilningarvitin sperrt.

Hlín Reykdal : Reykdalssystur

Systurnar Nanna, Hadda Fjóla og Hlín Reykdal sýna saman í verslunar- og vinnustofurými Hlínar Reykdal á Fiskislóð 75, 101 Reykjavík. Hlín mun kynna það nýjasta sem hún er að hanna í fylgihlutum, frá hugmyndavinnu að tilbúnu verki, Hadda Fjóla gefur okkur innsýn í það sem hún er að vinna með á mörkum lágmyndar og málverks, og Nanna gefur þrívíddarpælingum sínum lausan tauminn með pappírsinnsetningu í glugga.

66°Norður Bankastræti: Samstarf 66NORÐUR og Tulipop

66°Norður og Tulipop munu kynna samstarf sitt á HönnunarMars. Um er að ræða hina klassísku húfukollu 66°Norður og hefur Tulipop nú sett svip sinn á þær með ævintýraheimi sínum. Í samstarfinu við Tulipop má einnig finna léttar peysur og boli á yngstu kynslóðina.

Hönnunarsafn Íslands: Undraveröld Kron by Kronkron

Kron by Kronkron er undraveröld Hugrúnar Árnadóttur og Magna Þorsteinssonar, hliðarheimur sem fylgir þeim í öllu sem þau gera. Síðustu tíu ár hafa Magni og Hugrún hannað, framleitt og selt um allan heim yfir 2000 tegundir hluta, þar af yfir 1200 skótegundir sem eru uppistaðan á þessari sýningu.

iglo+indi x Kærleiksbirnirnir

Íslenska barnafatamerkið iglo+indi og hinir heimsfrægu Kærleiksbirnir (Care Bears) kynna skemmtilega línu í takmörkuðu upplagi. Línan er hönnuð á krakka á aldrinum 0-11 ára og einnig er í henni peysa í stíl fyrir eldri krakka og fullorðna.

Akkúrat : Vertu Akkúrat

Akkúrat leitast við að bjóða upp á rjómann af íslenskri hönnun í verslun sinni og selur vörur eftir um 50 hönnuði og listamenn sem hægt er að skoða og versla á Hönnunarmars. 7 hönnuðir munu vera með sérstaka innsetningu í versluninni dagana 15-18 mars, Það eru þær Dögg Design, Hring eftir Hring, inosk, Marý, Sif Benedicta, Studio Fræ og usee Studio.

 Gleðilegan HönnunarMars og hlakka til að sjá einhver ykkar !

HVAÐAN ERU BLÓMIN MÍN?

HeimiliPersónulegt

Nýlega pantaði ég í fyrsta skipti vöru frá alræmda Ali express og urðu gerviblóm fyrir valinu sem ég hafði séð heima hjá vinkonu minni fyrir jól, einhverskonar blandaður vöndur með bóndarósum í. Sitt sýnist hverjum bæði varðandi það að versla af Ali express en einnig varðandi gæði slíkra kaupa. En það sem ég veit er að árið 2017 eyddi ég alltof miklum pening í afskorin blóm og í veikri tilraun til að spara ákvað ég að bæta við mig gerviblómum sem kostuðu mig um 1.000 kr. vöndurinn með öllu. Fyrir áhugasama þá má finna þessi blóm hér en þau fást í hinum ýmsu litum.

Aldrei myndi ég þó halda því fram að gerviblóm væru jafn falleg og ekta, og mér þykir ennþá jafn dásamlegt að eiga afskorin blóm – en núna verður það a.m.k. örlítið sjaldnar. Þessi eru hin fínustu í bili.

ÓSKALISTINN FYRIR KONUKVÖLD SMÁRALINDAR

Óskalistinn

Eitt það allra skemmtilegasta sem ég geri er að taka saman óskalista með drauma hlutum úr öllum áttum sem ég læt mig dagdreyma um. Þegar ég var beðin um að eyða brot úr degi í Smáralind og þræða verslanir í leit að hugmyndum fyrir óskalistann minn hljómaði það eins og draumur og öll önnur plön fóru á bið.

Tilefnið er Konukvöld sem haldið verður með pompi og prakt í kvöld frá 19.30 – 23.00 en ég tók forskot á sæluna og kynnti mér öll tilboðin í dag. Hér að neðan má sjá nokkrar hugmyndir sem rötuðu á minn óskalista en á facebook síðu Smáralindar má sjá nokkrar hugmyndir viðbótar.

// Tropical skyrta, Karakter. 9.995 kr. Og 20% afsláttur af. // Lyngby skál með loki, 8.960 kr. Og 10% afsláttur af. // Aalto vasi, Dúka. Fullt verð: 18.950 kr og 20% afsláttur. // Iittala Festivo kertastjakar, Dúka. Verð frá 5.890 kr. Og 20% afsláttur af. // Kaktus vasar, Dúka, verð frá 6.900 kr og 20% afsláttur af. // Versace sólgleraugu, Optical studio. 32.900 kr. Og 20% afsláttur. // Hlébarða hælar frá Billi bi, 20.995 kr og 20% afsláttur af. // Salatskál og áhöld frá Bitz, Líf og list. 11.550 kr. Og 20% afsláttur af. // Royal Copenhagen skál á fæti, Líf og list. 34,980 kr og 10% afsláttur af. // Nike tech rennd peysa, Nike búðin. 15.495 kr og 20% afsláttur. 

HÖNNUNARNÁMSKEIÐ HÖLLU BÁRU

Heimili

Ég má til með að mæla með hönnunarnámskeiðinu sem hún Halla Bára innanhússhönnuður hjá Home & Delicious fór af stað með fyrir stuttu síðan. Námskeiðið byggir hún á hugmyndum sínum um að búa sér til áhugavert og fallegt heimili en ég ásamt góðri vinkonu fórum til hennar s.l. laugardag og áttum virkilega góða stund. Námskeiðið er haldið á heimili Höllu í miðbæ Reykjavíkur og það er ekki annað hægt en að fyllast af innblæstri inná þessu gullfallega heimili. Stemmingin var notaleg við sátum nokkrar í stofunni með skrifblokk og penna og punktuðum niður ráð sem koma til með að nýtast vel síðar. Í boði voru léttar veitingar og að lokum vorum við leystar út með ljúffengri gjöf.

Heimilið er eitt það fallegasta sem ég hef heimsótt, afslappaður stíll þeirra hjóna skýn í gegn ásamt góðu auga fyrir litum, efnisvali og gæðum.

Ég mæli 100% með og um að gera að draga með vinkonur, vini, frænkur eða mömmur! Upplýsingarnar hér að neðan tók ég af facebook síðu Home & Delicious.

Á námskeiðinu verður farið yfir ýmsa þætti til að koma sköpunargáfunni af stað og hvernig má vinna með eigin stíl. Huga að heimilinu í heild og hvetja til sjálfstæðrar hugsunar. Halla Bára fer yfir tíðarandann, tísku og stíl. Og svarar spurningum sem allar eru mikilvægt skref í átt að aukinni færni og meira öryggi í að vinna með rými sem vilji er til að geisli af.

Sæktu innblástur, þiggðu ráð og viðaðu að þér þekkingu til að skapa þér og þínum persónulega umgjörð.

Námskeiðin eru fyrir litla hópa og áhugasama einstaklinga sem vilja koma saman, hlusta, spjalla og læra um það hvernig heimilið verður aldrei fullkomið heldur hugsað sem eining sem heldur utan um okkur og þróast með breyttum aðstæðum.

Sum námskeiðin eru haldin á heimili Höllu Báru og önnur í heimahúsum þar sem þess er óskað.

Fyrir skráningu, frekari upplýsingar um tilhögun og verð, sendið þá tölvupóst á hallabara@hallabara.com

HVAR KAUPI ÉG FALLEG PLAKÖT?

Fyrir heimilið

Mjög algeng spurning sem ég fæ er “hvað á ég að setja á veggina” og “hvar fást falleg plaköt”?

Það er hægt að svara þessari spurningu á ótal vegu enda úrvalið frábært þegar kemur að plakötum, ljósmyndum og listaverkum. Langflestir eru staddir í þeim sporum að vilja hafa fallegt á heimilinu án þess að eyða í það of miklum pening og þá eru plaköt besta lausnin.

Ég hef margoft bent á sænsku síðuna Desenio sem er með yfirburða úrval af veggmyndum sem er oft gaman að skoða, þau eru líka með flottan myndabanka sem gefa hugmyndir að uppröðun og sem hjálpar einnig til við að sýna hvernig stíl við höllumst að. Myndirnar fékk ég allar að láni frá Desenio til að sýna ykkur brot af úrvalinu. Hér heima er vissulega líka gott úrval af veggspjöldum og má þar nefna t.d. Dimm, Epal, Snúran og fleiri. Ég hef einnig nýtt mér að kaupa veggspjöld frá Moderna safninu og Fotografiska safninu í Stokkhólmi / vefverslun.

// Desenio.com

Eina ráðið sem ég hef fyrir ykkur er að ekki mikla svona hluti fyrir ykkur. Í alvörunni.

Núna er ein góð vinkona mín búin að vera góð 5 ár að klára einn myndavegg á sínu heimili og er enn ekki 100% tilbúinn haha ég gæti bilast úr hlátri yfir svona fullkomnunaráráttu sem ég þjáist aldeilis ekki af. Í versta falli þá verða myndirnar bara seldar aftur ef þær henta ekki heimilinu. Svo er skemmtilegt að hafa uppröðunina nokkuð afslappaða og það þarf alls ekki að hengja allar myndir upp, þær koma nefnilega mjög vel út standandi uppvið vegg. Næst á dagskrá hjá mér er annars að eignast fallega ljósmynd…

Ykkur er velkomið að fylgjast með á instagram @svana.svartahvitu og á Snapchat @svartahvitu

NÝTT: BAST.IS

ÓskalistinnVerslað

Það er alltaf ánægjulegt þegar bætist við verslunarflóruna hér heima og vöruúrval eykst, í dag langar mig að segja ykkur frá því að verslunin BAST var að opna vefverslun sem gleður eflaust þau ykkar sem búa utan höfuðborgarsvæðisins eða okkur hin sem einfaldlega kunnum vel að meta að versla uppí sófa.

Uppáhalds merkið mitt sem fæst í BAST er Bitz en það er stellið mitt sem ég hef verið að safna og er núna komin með matardiska ásamt gylltum hnífapörum en ég fékk þessar vörur á heilann fyrir um einu og hálfu ári síðan enda dásamlega fallegar. – Getið lesið færsluna um hollustustellið Bitz hér á blogginu – Í versluninni fæst ýmislegt fyrir heimilið og borðhaldið og fást þar merki eins og Södahl, Simple Mess, Jamie Oliver, Rosti, Bitz og fleiri.

Ég tók saman smá lista til að sýna óskalistann minn úr versluninni…

// Fallegur bleikur púði. // Ljúffengt nammi sem tækifærisgjöf. // Viðarbretti undir osta eða pizzur. // Gylltur bakki. // Bleik diskamotta frá Södahl sem ég á nú þegar. // Bitz bollar og skálar. // Skyndilega langar mig í hvít og einföld rúmföt – þessi eru frá Södahl. // Marmarabretti. // Eldfast mót frá Bitz. // Stundaglas sem stofupunt. // Ótrúlega fallegir blómavasar frá Simple Mess.//

P.s. út morgundaginn 3. mars er 20% opnunarafsláttur!

Eigið annars alveg ljómandi föstudag.

#1 AF 6

Íslensk hönnun

Fyrir nokkru síðan fékk ég í gjöf fallega lyklakippu hannaða af Hlín Reykdal fyrir Tilveru. Samtökin standa mér nærri og hef ég fylgst með starfsemi þeirra í nokkur ár í gegnum aðila sem eru náin mér.

Tilvera, samtök um ófrjósemi, stendur fyrir vitundarvakningu um ófrjósemi dagana 26. febrúar – 3. mars sem nefnist 1 af 6 en áætlað er að einn af hverjum sex glími við ófrjósemi. Markmið vitundarvakningarinnar er að vekja athygli á ófrjósemi og þeim sorgum og sigrum sem fólk gengur í gegnum þegar það þarf að nýta sér aðstoð tækninnar til að eignast barn. Ófrjósemi er skilgreint sem sjúkdómur sem þungt er að bera í hljóði og vill Tilvera opna umræðu og auka skilning í þjóðfélaginu.

Síðastliðið haust stofnaði stjórn Tilveru styrktarsjóð en í þann sjóð fer öll sala af lyklakippu sem Hlín Reykdal hannaði fyrir samtökin og er tilgangur styrktarsjóðsins að styrkja árlega nokkra félagsmenn vegna kostnaðar við óniðurgreiddar glasameðferðir. Lyklakippan kostar 3.500 kr. 

Fallegt málefni sem ég hvet ykkur til að styrkja – sjá nánar hér