fbpx

MEÐMÆLI DAGSINS : BIO KULT MIND – fyrir covid heila & fleiri

PersónulegtSamstarf

Ég var að horfa á svo góða heimildarþætti í gær, Stormur á RÚV þar sem farið er yfir baráttuna við Covid á alveg einstakan hátt og ég verð að mæla með þeim fyrir alla. Á okkar heimili var það bara Andrés sem smitaðist og þrátt fyrir að hafa ekkert orðið mikið veikur þá hefur hann undanfarið ár verið að glíma við allskyns eftirkvilla sem lýsa sér best sem “Covid þoku” en það er víst eitthvað sem margir tengja við í dag. Fyrir nokkrum vikum síðan þá deildi ég í ganni á Instagram viðbrögðunum frá Andrési eftir að hafa prófað Bio Cult Mind góðgerla í einn dag en þau voru vægast sagt jákvæð. Ég hafði heyrt mjög gott af þessu og græjaði skammt fyrir minn mann með bæði fingur og tær í kross og vonaði að þessi heilaþoka færi að kveðja heimilið sem var aðeins farin að setja svip á heimilislífið.

Bio Kult Mind er  s.s. “háþróuð og fjölvirk örverublanda sem er hönnuð fyrir meltingarveginn og hugræna virkni”

Fannstu mun á þér eftir að hafa fengið covid?

“Já, þó ekki strax en í langan tíma gat ég illa einbeitt mér, gleymdi mörgu og leið eins og ég væri með “þoku” í hausnum.”

Finnuru mun að taka Bio Kult?

Ég er miklu skýrari í kollinum, get einbeitt mér betur, er léttari á mér og ekki svona “ský” inní hausnum.  Ég veit þetta hljómar eins og auglýsingarnar sem eru stundum í blöðunum haha en þetta virkar mjög vel á mig”!

Árangurinn og hvert einasta orð í þessari færslu eru 100% raunveruleg – mér þætti agalegt að deila svona góðri reynslu ekki áfram með fleiri Covid heilum þarna úti eða Covid mökum haha. Í dag er ég í samstarfi við Artasan sem er heildverslunin sem býður meðal annars upp á Bio Kult vörurnar sem ég hef af og til gripið í búðinni gegnum árin (þá helst Bio Kult Candéa) en í fyrsta sinn erum við að prófa Bio Kult Mind sem er greinilega algjör snilld!

“Ef það er fallegt eða skemmtilegt þá gerir þú það frekar” er frábær setning sem ég heyrði í dag og sem ég tengi svo ótrúlega mikið við á mörgum sviðum lífsins. Það má yfirfæra þetta yfir á ansi margt en ég er að sjá hvort mér takist að vera duglegri að taka vítamín! Vá hvað mér finnst erfitt að muna eftir þeim en núna sitja þau á fallegum bakka þar sem ég sé þau alla morgna, ég er nefnilega þannig að ef ég sé það ekki þá get ég gleymt því að muna það!

Eru fleiri þannig? Ég finn að minnsta kosti hvatningu þegar ég heyri svona jákvæðar upplifanir ♡

10 ELDHÚS SEM SEGJA VÁ

Eldhús

Þessi eldhús eiga það sameiginlegt að vera ekki aðeins ótrúlega falleg heldur einnig svo dásamlega litrík og skemmtilega óhefðbundin. Ef þú ert í eldhúshugleiðingum þá mæli ég með að punkta niður nokkrar hugmyndir héðan og ef þú vilt sjá enn fleiri myndir þá finnur þú mig einnig á Pinterest ♡

Náttúrusteinn, brass og fallegur viður er hin fullkomna blanda sem er hér toppuð með vegginnréttingu í björtum ljósgrænum lit.

Hér er loftið málað í stíl við veggina og sjáið hvað eldhúsinnréttingin poppar út og grænar flísarnar njóta sín.

Kóngablá innrétting við bleika efri skápa er skemmtileg blanda og útkoman er bæði fersk og falleg.

Hér nýtur sín vel stærðarinnar bleik eyja sem ég sé ekki betur en að sé steypt? Ég elska þessa ljósu litapallettu og litirnir á veggnum eru sömuleiðis mjög fallegir í mildum gráum tónum. Skemmtilegt hvernig háfurinn er síðan klæddur einhverskonar þiljum sem koma inn með nýja áferð svo útkoman verður allt annað en óspennandi:)

Myndaveggur í eldhúsið er góð hugmynd sem myndi lífga rýmið við og gefa því persónulegan sjarma.

Halló eldhús drauma minna! Ég elska hvað brassið gefur eldhúsinu mikinn elegans og þetta er eitthvað sem er á to do listanum mínum að klæða sökkla undir innréttingu á þennan hátt:)

Þessi blái litur er alveg æðislegur! Ég þarf að komast að því í Sérefni hvaða litanúmer hann væri en hann minnir mjög á bláa litinn sem ég var að mála baðherbergið með ♡ Það vaknar enginn í vondu skapi í svona björtu eldhúsi!

Fölbleikur litur nýtur sín svo ótrúlega vel við grænan lit, sjáið þessa fegurð! Og veggþiljunar á eyjunni gera útkomuna enn meira djúsí! (Fyrir áhugasama þá fást veggþiljur í Sérefni).

Hér má svo sjá klassískt og afar glæsilegt eldhús þar sem innréttingar með dökkum viðarfrontum og djúsí marmara eru alveg fullkomin blanda. Hillurnar tvær með fáum og vel völdum hlutum á setja svo punktinn yfir i-ið!

Ég er alltaf svo hrifin af brassi og þessar tvær myndir sýna ansi flotta útkomu þar sem brassplötur eru notaðar á innréttingar, á sökkul og á vegg. Svo fallegt og elegant.

Myndir frá Svartahvitu á Pinterest ♡

Vonandi veita þessar myndir ykkur góðan innblástur!

DÁSAMLEGT PÁSKASKRAUT FRÁ ROYAL COPENHAGEN

HönnunKlassík

Vorlínan frá Royal Copenhagen er dásamlega falleg og má þar meðal annars finna handmáluð páskaegg úr postulíni skreytt blómum sem innblásin eru af klassíska Flora Danica matarstellinu fræga. Páskaeggin eru eins og ljúfur vorboði og mér finnst svo fallegt að skreyta með þeim yfir páskana og hengja á greinar í vasa. Á hverju vori eru ný blóma kynnt til sögunnar og vorlínan stækkar hægt og rólega söfnurum til mikillar gleði.

Sjá þessa fegurð!

Fyrir áhugasama þá fást Royal Copenhagen páskaeggin fallegu hjá Kúnígúnd og Epal.

MARS ÓSKALISTINN – VORIÐ ER KOMIÐ

Óskalistinn

Ég elska vorið og síðustu dagar hafa aldeilis minnt okkur á hvað það eru dásamlegir tímar framundan. Ég er byrjuð að huga að allskyns vorverkum og get varla beðið eftir að það hlýni örlítið meira til að fara að eyða löngum stundum úti í sitthvað dúllerí og nokkur verk sem framundan eru á lóðinni. Það fyllist líka alltaf svo vel á orkubirgðirnar mínar þegar vorið mætir og því finnst mér um að gera að nýta hana vel í vorverkin hvort sem þau séu úti eða inni.

Eins og alltaf þá eru ýmsir hlutir sem heilla augað og ég tók saman nokkra í vorlegum fíling. Fatnaður, snyrtivörur, skart og ýmislegt fyrir heimilið. Bland af því besta ♡

// 1.  Avókadó bók með geggjuðum uppskriftum, frá Epal // 2. Íslensk list á veggina, þetta verk er eftir Áslaugu Írisi og er frá Listval. // 3. Íslensk dúnamjúk rúmföt frá Ihanna home í Skyrta mynstrinu eru æðisleg. // 4. Blómaveggfóður frá Sérefni er eitthvað sem mig dreymir um að skreyta herbergið hennar Birtu með. // 5. Perluhálsmenið frá By Lovísa er svo gordjöss, langar afskaplega mikið í eitt slíkt. // 6. Hvítir strigaskór eru alltaf ofarlega á mínum óskalista þegar vorið mætir, þessir eru frá Andreu og eru þægilegustu skór sem ég hef átt. // 7. Anna von Lipa litrík glös eru draumur í dós, ég á nokkur og vantar fleiri í safnið. Epal. // 8. Bleikur kjóll – afþví að bleikt gerir allt betra. Frá Andreu. // 9. Mac Locked Kiss ink gloss er á óskalistanum í sumarlegum lit. //

// 1. Smashbox Halo kinna og varalitur í sætum lit, mig langar mikið að prófa þennan! // 2. Royal Copenhagen páskaeggin eru svo falleg. Epal og Kúnígúnd. // 3. Sumarleg og sæt peysa frá Andreu. // 4. Thé Matcha ilmurinn frá Le Labo eru möst að finna. Mikado. // 5. Klassísk perlufesti frá By Lovísa. // 6. Blómavasi frá Fritz Hansen. Epal. // 7. Dolce vasinn frá Anna Thorunn er svo flottur, ég fékk hann nýlega í gjöf og elska þessa hönnun. Fæst m.a. í Epal, Ramba og Litlu Hönnunarbúðinni. // 8. Gallabuxur – vá hvað það er erfitt að finna góðar gallabuxur og þigg ég því öll meðmæli um mjúkar gallarbuxur sem eru klæðilegar og með flottum rassvösum. (Ég get ekki buxur með litla vasa og langt á milli) þið skiljið sem skiljið…;) // 9. Essie í vorlit ahh já takk, þessi lavendar litur er æðislegur. //

Eigið góðan dag! ♡

HIN FULLKOMNA ÍBÚÐ – HEIMA HJÁ BALDRI KRISTJÁNS LJÓSMYNDARA

Íslensk heimili

Baldur Kristjáns er einn færasti ljósmyndari landsins og auk þess mikill smekkmaður sem vel má sjá þegar myndir af glæsilegu heimili hans eru skoðaðar. Hér býr hans ásamt fjölskyldu sinni á efstu hæð í sannkallaðri útsýnisíbúð við Hátún í Reykjavík sem svo skemmtilega var titluð “hin fullkomna íbúð” en hún var upphaflega happdrættisvinningur í happdrætti DAS á sínum tíma. Íbúðin hefur verið mikið endurnýjuð á vandaðan hátt og hér væri án efa gott að búa.

Kíkjum í heimsókn,

       

Smelltu hér til að skoða nánari upplýsingar um íbúðina sem nú er á sölu. 

UPPÁHALDS Á INSTAGRAM @SUSSIEFRANK

Heimili

Það er litríkt og fallegt um að litast heima hjá hinni dönsku Sussie Frank, stílista og innanhússráðgjafa sem veitir mér mikinn innblástur þegar kemur að heimilum. Bleiki stiginn sem er algjör senuþjófur vakti mikla athygli þegar myndir af heimili Sussie birtust á síðum Bolig Magasinet í apríl á síðasta ári og vakti innlitið mikla lukku hjá mér, enda ekkert nema stórkostlega fallegt. Ég vona að þessar myndir veiti ykkur einnig innblástur og jafnvel smá gleði, því það er akkúrat það sem lífleg og litrík heimili gera fyrir mig.

Til að fylgja Sussie Frank og hennar litríka og fallega heimili smellið þá hér @sussiefrank

Myndir : @sussiefrank

Eigið góðan dag kæru lesendur,

UPPÁHALDS HORNIÐ Á HEIMILINU – ALLT AÐ KOMA SAMAN

HeimiliPersónulegtSamstarf

Góðir hlutir gerast hægt er mín mantra sem ég þarf reglulega að minna mig á ♡ Það eru margir mánuðir síðan við ætluðum að klára að græja eldhúskrókinn en svo kemur alltaf eitthvað nýtt upp á sem gengur fyrir, bæði verkefni og lífið sjálft ♡ Hér elska ég að sitja og fletta blöðum, horfa út um gluggann og stundum vinna í tölvunni. Ég er enn eftir að líma lista framan á skápahurðarnar til að gera útlitið aðeins meira elegant og mála aðra umferð ásamt því að púðarnir allir áttu bara að vera tímabundin lausn þar til ég klára að hanna bakið og útfæra hvernig ég geng frá ofninum sem er undir glugganum. Ah alltaf skemmtileg verkefni framundan!

Nýlega eignaðist annars dóttir mín þennan dásamlega fallega matarstól frá Nofred sem algjörlega fullkomnar stólamixið á heimilinu, en Mouse Junior matarstóllinn hefur verið á óskalistanum alveg síðan Birta Katrín eignaðist litla Mouse stólinn í herbergið sitt og var hann fenginn að gjöf frá Nofred. 

Mouse stóllinn er dönsk verðlaunahönnun frá Nofred og ég hef verið heilluð af alveg frá því að Epal hóf sölu á þessum fallegu barnavörum. Ég er alltaf svo hrifin af klassískri danskri hönnun og alveg sérstaklega danskri stólahönnun og þrátt fyrir að hönnun Mouse stólsins sé ekki nema nokkra ára gömul þá fer stóllinn svo afskaplega vel saman við eldhús og stofustólana og eru að öllu leyti mikið fallegri en barnastóllinn sem við áttum fyrir. Mouse Junior er sagður vera frá ca 3-9 ára aldri, dóttir mín verður 3 ára í sumar og er þó alveg meira en tilbúin í þennan stól sem hún prílar sjálf í upp og niður.

Litur á vegg: Svönubleikur frá Sérefni, einnig gereftin kringum hurðina sem við settum á nýlega. // Borðið: Tom Dixon frá Lumex, einnig Gubi lampinn í glugganum. // Ljós yfir borði er PH5 keypt í Epal og bleika Sjöan er afmælisútgáfa frá Fritz Hansen einnig keypt í Epal. 

Smelltu hér til að skoða Nofred í vefverslun Epal

Púðarnir eru úr öllum áttum og mér finnst þeir gera hornið alveg extra kósý og heimilislegt. Það þarf ekki allt að vera fullkomið, alveg langt því frá og því um að gera að henda púðum ofan á hálfkláraðan bekk og nota hann þar til allt fær að smella. Bleiku púðarnir eru jú frá vinkonum mínum í Ihanna home og eru í miklu uppáhaldi!

Ah hér er gott að vera! P.s. ég er núna að taka mig í gegn varðandi vítamíninntöku sem ég fæ algjöra falleinkunn í og er því að reyna að tileinka mér góðar venjur til að muna betur að taka þau inn. Ég er einnig að leyfa mér að prófa nokkur ný með þær vonir að bæta svefnin, minnið og einbeitinguna svo fátt sé nefnt og fá smá meiri orku eftir þennan langa vetur *krossa fingur! Öll tips vel þegin ♡

Ég vona annar að þið munið eiga góðan dag!

HVAR VÆRUM VIÐ ÁN PINTEREST?

Fyrir heimiliðMæli með

Pinterest er oft besti kosturinn þegar þú ert í leit að innblæstri hvort sem það er fyrir heimilið, til að fá hugmyndir af nýjum samsetningum fyrir dress morgundagsins, föndur til að gera með krökkunum eða ný kökuuppskrift fyrir helgina. Heill heimur af hugmyndum sem ég vona að þið séuð flest að nýta ykkur að einhverju leiti. Oft geta allar þessar ljósmyndir og hafsjór af innblæstri hjálpað okkur til að móta eigin hugmyndir og stíl og jafnvel verið gott fyrsta skref ef þú stefnir á breytingar eða jafnvel ætlar að fá hönnuð til að aðstoða þig og getur þannig sýnt með myndum hvað heillar þig. Ef þú ert byrjandi að nota Pinterest þá mæli ég með að skoða myndirnar sem taka á móti þér og smella á þá mynd sem höfðar best til þín og þar færðu upp enn fleiri myndir í svipuðum stíl og þú varst að skoða, svo leikur þú þér að því að raða myndunum í möppur og hægt og rólega lærir Pinterest inn á þann stíl sem höfðar best til þín.

 Hvað værum við hreinlega án Pinterest? ♡

Myndir : Pinterest/Svartahvitu

FALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI : ELÍSABET & PÉTUR Í VEST SELJA

Heimili

Hér er á ferð stílhreint og fallegt heimili hjá Vest hjónunum, þeim Elísabetu og Pétri, þar sem hver hlutur er vandlega valinn og mætti segja að íslensk list og ítölsk hönnun einkenni heimilið. Elísabet er þekkt sem mikill fagurkeri og það er gaman að sjá hennar persónulega stíl á heimilinu þar sem fáir en góðir hlutir skreyta heimilið sem lýsa mætti sem fáguðu og mínimalísku.

Kíkjum í heimsókn –

   

Myndir : Fasteignaljósmyndun.is 

Smelltu hér til að sjá frekari upplýsingar um eignina sem nú er til sölu.

STRING MEÐ SPLUNKUNÝJAR HILLUR

HönnunKlassík

Ég er svo heilluð af nýja hillukerfinu sem String var að kynna, Pira G2 sem eru eins og Epal sagði frá “glæsileg og nútímalegri útgáfa af klassísku Olle Pira hillunum frá 1954 eftir arkitektinn Anna won Schewen og iðnhönnuðinn Björn Dahlström. Pira G2 er fáguð og sterkbyggð í senn, byggð á einingum sem hægt er að setja saman á marga vegu eftir þínum hugmyndum og stíl en virðist nánast byggð sem ein sérsmíðuð heild. Pira G2 býður upp á þann möguleika að vera veggfest eða sett upp sem skilrúm, frá gólfi til lofts.”

Þessi mynd hér að neðan er svo elegant og ég get vel séð fyrir mér að margir eiga eftir að heillast af þessari hönnun. Klassík framtíðarinnar?

 

Mynd: String