10 ÓSKIR FYRIR VETURINN

Óskalistinn

Áður en ég dembi mér í árlegu jólagjafahugmyndirnar þá mátti ég til með að setja einn óskalista saman fyrir mig – 10 óskir. Ég hef undanfarið verið nokkuð sparsöm og er orðin mjög passasöm upp á það hvaða hlutir bætast við heimilið okkar. Það er þó erfitt að vera sparsamur þegar manni vantar hreinlega hluti eins og í mínu tilfelli núna en þar má nefna krem, maskara, húfu, jógahandklæði og annað fínerí – sem er klárlega nauðsynlegt fyrir sálina eða er það ekki annars?

// Húfa frá COS, ég hef átt eins í bleiku en týndi henni því miður. // Svartar morgunverðaskálar frá Bitz sem ég er nýbyrjuð að safna, fást t.d. í Dúka, Snúrunni og Bast. // Kertastjaki og glervasi frá Ikea, sé fyrir mér að það sé fallegt að setja smá jólapunt ofan í. // Steingrá rúmföt frá Winston Living, sá líka svona kolsvört sem eru væntanleg – hrikalega flott. Sjá meira úrval hér. // Hvatningararmband frá Daniel Sword, ég gæti hugsað mér fleiri í safnið, Dúka. // Tyrkneskt handklæði frá TAKK home, sjá sölustaði hér. // Ég er lítið fyrir að prófa endalaust af snyrtivörum, ef ég finn eitthvað sem er gott þá vil ég nota það áfram. Clinique eru góðar vörur og eruð þið að sjá hvað þessar umbúðir eru fallegar á litinn♡// Mjúkur og loðinn púði frá Ikea. // Gyllt ígulker sem borðpunt, einstaklega fallegt og svo öðruvísi en við sjáum oft, frá Winston Living.

EKKI MISSA AF #IITTALAISLAND GJAFALEIKNUM!

Það sem ég hef skemmt mér að fara yfir innsendar myndir í einn veglegasta gjafaleik ársins þar sem einn heppinn fær í vinning glæsilegan Leimu lampa frá Iittala, kíktu endilega á færsluna um leikinn. Þátttakan er alveg frábær og þó er enn tími til stefnu til að taka mynd og merkja #iittalaisland á Instagram og eiga von á þessum veglega vinning. Ég hef alltaf viðurkennt að vera mjög forvitin og það að ég fái að sjá núna brot af heimilum ykkar og jafnvel inní skápa hjá nokkrum þykir mér vera hrikalega skemmtilegt, og fagurkerarnir sem þið eruð! Myndirnar eru ótrúlega fjölbreyttar sem gerir þetta svo skemmtilegt, sumir birta myndir af erfðargripum og aðrir mynd af iittala safninu eins og það leggur sig. Ég á von á því að veittir verða aukavinningar þar sem þátttakan er svona ótrúlega góð svo ég hvet ykkur til að taka þátt. Þetta er að minnsta kosti gjafaleikur sem enginn fagurkeri vill missa af.

Ég tók saman nokkrar myndir af handahófi sem merktar eru #iittalaisland – ef þín er ekki hér engar áhyggjur ♡

Vinningshafi verið tilkynntur á föstudaginn – ég get ekki beðið eftir að fá að afhenda heppnasta vinningshafa landsins drauma Leimu lampa frá iittala.

Einn, tveir og allir taka þátt!

MINIMALÍSKT Í BERLÍN

Heimili

Þetta innlit er dálítið í anda þess sem ég sýndi ykkur í gær, stórfengleg smáatriði skreyta loftin nema í þetta sinn er innbúið líka dálítið spennandi. Ég rakst á þetta heimili hjá bloggaranum Niki hjá Scandinavian home, sú smekkdama sem ég fæ aldrei nóg af innblæstri frá. Þetta er heimili Selinu Lauck, innanhússstílista sem búsett er í Berlín ásamt fjölskyldu sinni. Stíllinn er minimalískur og með afslöppuðu yfirbragði sem er dálítið skemmtilegt á móti þessum íburðarmiklu loftskreytingum sem ég heillast alltaf svo mikið af.

Myndir : Selina Lauck

Fyrir áhugasama þá kíkti ég í innlit á spennandi lagersölu í dag og er með nokkrar heimsóknir bókaðar á næstunni ♡ Þið finnið mig undir svartahvitu á Snapchat og @svana.svartahvitu á Instagram.

STÓRFENGLEG SMÁATRIÐIN

Heimili

Ég má til með að deila myndum af þessi stórfenglega heimili – eða að minnsta kosti smáatriðunum. Húsið lítur út að utan eins og hver önnur bygging sem finna má í hjarta Gautaborgar, byggt árið 1878 og er um 180 fm. Einstök upprunaleg gólfefni, listar og skreytingar í hverju horni sem vel hefur verið haldið við. Hér gæti ég hugsað mér að búa…

Myndir via Entrance Makleri

Fyrir ykkur sem viljið sjá heimilið í heild sinni smellið þá hér. Ég er heilluð af þessum fallegu smáatriðum og allt í einu eru litlu rósetturnar á mínu heimili ekki alveg jafn spennandi. Að ímynda sér að búa svona!

FYRSTU -15 KG MEÐ FITSUCCESS

Persónulegt

Það er heldur betur kominn tími á smá stöðutékk á mér en ég fékk í gær send skilaboð frá lesanda hvort ég væri ennþá í fjarþjálfun hjá FitSuccess – og svarið er sko aldeilis JÁ. Einnig hafa nokkrar verið forvitnar hvernig þetta allt virkar.

Ég var frá upphafi búin að ákveða að leyfa ykkur að fylgjast með svona til þess að setja smá pressu á mig sjálfa í leiðinni, en engar áhyggjur ég ætla ekki að birta neinar fyrir myndir af mér í þessari færslu;) … en halelúja hvað ég sé mikinn mun þegar ég skoða myndirnar sjálf og það gefur mér ótrúlega mikla gleði. Í dag hefur mér tekist með aðstoð heimsins bestu þjálfara að ná af mér 15 kílóum sem mér þykir vera mikill sigur þó enn sé langt í land. Þetta er allt gert án öfga og ég borða mjög venjulegan mat sem ég held að sé galdurinn. Ég var nefnilega alltaf að leita að einhverri töfralausn og hlustaði á hvaða ráð frá nánast hverjum sem var til að léttast en aldrei gekk neitt upp, ég nennti ekki lengur að prófa enn einn kúrinn og að pína mig sjálfa því það er ávísun á stórslys hvað varðar matarræði hjá mér. Ég hef jú prófað þetta allt – nefndu það og ég lofa ykkur að ég hef prófað – en ekkert gengið til lengdar.

Ég upplifi ekki að ég sé á einhverjum “kúr” núna heldur smellpassar planið sem ég fæ frá stelpunum við mitt daglega líf og ég borða sama mat og aðrir á heimilinu, þetta er því bara heilbrigður lífstíll sem ég fylgi eftir bestu getu. Þetta er þó hörkuvinna en ég sem er algjör sykurfíkill hef nokkrum sinnum fallið ef svo má kalla, og þarf þá nokkra daga til að komast aftur á skrið. Ég hef átt stundir þar sem ég keyri í ræktina bara til þess eins að keyra beina leið aftur heim því mig langaði ekki inn og ég átti líka móment í byrjun árs þegar ég hreinlega grét þegar ég var komin í æfingarföt og kom mér að sjálfsögðu ekki á þá æfingu. En í stað þess að gefast upp þá reyni ég bara aftur daginn eftir eða þangað til að ég kem mér inn sem gerist alltaf að lokum. Það að breyta lífstílnum er eitt það erfiðasta andlega sem ég hef gert og suma daga þarf ég á öllum mínum innri krafti að halda til að halda áfram. Ég byrjaði í þjálfuninni í janúar á þessu ári svo þið sjáið að þetta er ekkert á neinum Biggest Looser hraða enda er það ekki það sem ég vil – því ég vil halda árangrinum og ég vil líka að húðin nái að jafna sig. Það hafa komið skipti þar sem ég skilaði inn nánast engum árangri ásamt ljósmyndum af mér á nærfötum alveg eins og mánuðinn á undan, gamla ég hefði hætt í þjálfuninni áður en kæmi að þessari myndatöku en núna bít ég bara á jaxlinn og fæ í staðinn extra gott pepp og jákvæðar athugasemdir frá stelpunum sem gefa auka kraft inn í næsta mánuð. Ég sjálf þrífst á jákvæðni og það að hafa svona gott stuðningsnet frá þremur þjálfurum er það besta sem hefur komið fyrir mig ♡

Ég hugsaði lengi hvaða mynd ég gæti látið fylgja með þessari færslu þar sem ég er langt því frá tilbúin að sýna fyrir & eftir myndir úr þjálfuninni og mundi þá eftir þessari frá nýliðinni Santorini ferð. Gamla ég hefði fengið áfall ef tekin væri af mér mynd á sundfötum en núna var mér alveg sama. Sem eru viss lífsgæði skal ég segja ykkur – það að vera bara alveg sama hvað öðrum gæti þótt.

Þið sem lásuð til enda, til hamingju haha. Núna er það bara að massa markmið ársins sem ég krossa fingur að ég nái svona með jólin handan við hornið. En ef það var ekki komið nógu skýrt fram þá gæti ég ekki mælt meira með stelpunum hjá FitSuccess og ef þið hafið áhuga þá mæli ég með að skoða heimasíðuna þeirra vandlega, annars verður þessi færsla mín alltof alltof löng. Ykkur er þó alltaf velkomið að senda á mig línu ef það er eitthvað fleira sem þið viljið vita. P.s. ég hef verið í stuttu snapchat fríi sökum anna – en mæti líkegast aftur á morgun víjj.