SUNNUDAGSHEIMILIÐ: SMART HEIMILI BLOGGARA

Heimili

Heimili finnska hönnunarbloggarans Sini Liikala er smekklegt eins og þau gerast best. Með vel valda hönnunarmuni sem sýna rjómann af Skandinavískri hönnun og þá sérstaklega gersemar frá finnsku hönnunarmerkjunum Artek og Marimekko og útkoman er óvænt en falleg. Stórir gluggar og mikil lofthæð gera heimilið sérstaklega opið og bjart. Takið eftir hvað marmaraflísarnar á forstofunni koma hrikalega vel út og afmarka eldhúsið frá heildarrýminu. Hér gæti ég búið!

Myndir via My Scandinavian home 

Dásamlega fallegt heimili sem gefur mér góðar hugmyndir fyrir mitt framtíðarheimili. Ég er alltaf dálítið skotin í svart hvítu mynstri og hef lengi haft á óskalistanum sebramynstaða Artek púðann og sömuleiðis er kollurinn mjög smart. Ég gæti reyndar talið upp langan lista af hlutum sem ég sé hér sem eru á mínum óskalista, enda hittir þetta heimili beint í mark hjá mér.

Hvað finnst ykkur?

1 ÁRS AFMÆLI DIMM.IS & AFMÆLISAFSLÁTTUR

Fyrir heimiliðÓskalistinnVerslað

Ein glæsilegasta vefverslun landsins DIMM.is fagnar 1 árs afmæli sínu um helgina frá fimmtudegi til sunnudags með afslætti, gjafaleik og auka opnun í sýningarrýminu. Í tilefni þess tók ég saman minn lista af uppáhaldsvörum og ef ég ætti risa inneign hjá þeim (sem að ég á ekki) þá yrðu þessir hlutir fyrir valinu og hefði ég auðveldlega getað valið lengri lista. Það má vel nýta sér 20% afmælis afsláttinn og versla sér eitthvað fallegt um helgina – ég veit að minnsta kosti hvað mig langar í.

Rúsínan í pylsuendanum er þó að einn heppinn viðskiptavinur gæti átt von á því að vinna sér inn 50.000 kr. úttekt hjá versluninni (má einnig nýta sem endurgreiðslu á kaupunum)…. freistandi ekki satt!

Færslan er unnin í samstarfi við Dimm.is 

Sýningarrými DIMM er staðsett í Ármúla 19, 2. hæð (fyrir ofan Glóey) og eru opnunartímar eftirfarandi fyrir þau ykkar sem viljið fá að skoða vörurnar: Fimmtudagur 15:30 – 18:00 / Föstudagur 12-18 / Laugardagur 11-16.

Til hamingju með 1 árs afmælið DIMM – megi þau verða ennþá fleiri ♡ Hér að neðan má svo sjá upplýsingar um vörurnar hér að ofan með hlekk yfir í vefverslunina.

// Nordstjerne vasi í svörtu // Dökkblátt sængurverasett // BKR glerflaska fyrir vatnið // Ballerínumynd á vegginn // Bleikt ullarteppi // Gylltur Nordstjerne kertastjaki // Ilmkerti frá L:A Bruket // Falleg skrautfjöður // Töff leðurhanki frá By Wirth // Marmara eldhúsrúllustandur sem ég þarf að eignast // Smart standur undir uppþvottalög og bursta // Handsápa í flottum umbúðum // Hör servíettur // Töff granítbretti // Svart marmarabretti // Fallegur minimalískur lampi frá Watt & Veke // 

JÓN JÓNSSON & HAFDÍS SELJA DRAUMAHEIMILIÐ

Heimili

Einn af mínum uppáhalds íslensku tónlistamönnum (fyrir utan Frikka Dór) er Jón Jónsson, núna í morgun komst ég þó að því að hann er líka svona ótrúlega smekklegur þegar kemur að heimilinu sem núna er komið á sölu. Hér býr hann ásamt eiginkonu sinni, Hafdísi Björk Jónsdóttur í Sjálandinu í Garðabæ og hafa þau hjónin góðan smekk fyrir klassískri hönnun og list. Leðurklæddar Sjöur og Y-stólar skreyta eldhúsið sem er opið inn í stofu og það vekur athygli mína hvað heimilið þeirra er einstaklega gestvænt. Hægt er á auðveldan hátt að færa til stakar sófaeiningar í stofunni og hafa svalirnar einnig verið gerðar huggulegar með hengistól og sófum. Það er líklega mjög gaman að fá boð í partý hér á bæ!

Skoðum betur þetta einstaklega fallega heimili,

Myndir via Fasteignir Mbl.is 

Fleiri upplýsingar um eignina má finna hér á fasteignavef Mbl.is. Æðisleg staðsetning á íbúð en mér þykir alltaf vera smá Kaupmannahafnar fílingur í þessu hverfi. Ef ég væri ekki svona mikill Hafnfirðingur þá væri þetta hverfi líklega næst á dagskrá!

SUNNUDAGSINNLIT : MEÐ SVÖRT LOFT & GÓLF

Heimili

Sunnudagsinnlitið er að þessu sinni sjarmerandi 75 fm íbúð á Norrebrø í Kaupmannahöfn, en hér búa þau Maria Louise og Kristian Pom. Það vekur athygli að yfir helmingur íbúðarinnar er málaður svartur en hjúin segjast aðspurð ekki fara hefðbundnar leiðir þegar kemur að heimilinu og eins og alvöru dönum sæmir þá versla þau að sjálfsögðu mikið á flóamörkuðum. Þrátt fyrir að svartur ráði hér ríkjum er heimilið líflegt og einstaklega smekklegt, gólf og loft eru í svörtum lit ásamt innréttingum og með flesta veggina hvíta verður stemmingin einhvernvegin allt önnur en þegar veggir eru málaðir svartir.

Það sem mig dreymir um að komast á góðan flóamarkað en þangað til skoða ég reglulega dönsku síðuna dba.dk þar sem finna má margar gersemer.

Myndir via Bolig Magasinet

Hrikalega flott þetta heimili og skemmtilega öðruvísi!

ÓSKALISTINN: VERK EFTIR RAKEL TÓMASDÓTTUR

Íslensk hönnunÓskalistinn

Lengi hefur mig langað að eignast verk eftir Rakel Tómasdóttur sem er einn hæfileikaríkasti grafíski hönnuður landsins og er jafnframt ótrúlega hæfileikaríkur teiknari. Loksins þegar ég ætlaði að láta verða af því um daginn var verkið sem ég hafi haft augastað á orðið uppselt en við því má víst búast þegar myndirnar eru jafn fallegar og sjá má hér að neðan. Eftir nokkra daga opnar Rakel sýna fyrstu listasýningu í verslun NORR11 þann 12. apríl n.k. og má þar sjá nýjar teikningar sem hún hefur verið að vinna að undanfarið. Ótrúlega fallegar og dáleiðandi myndir… ég get horft endalaust á þær.

Myndir via Instagram @rakeltomas

Fyrir áhugasama þá fylgdi einmitt lítil mynd eftir Rakel með nýjasta tölublaði Húsa og Híbýla en fyrir þau ykkar sem viljið eignast verk má sjá úrvalið á RakelTomas.com – eða bíða spennt eftir sýningunni sem opnar innan skamms.

PÁSKAFRÍIÐ OKKAR

Persónulegt

Páskafríið hefur verið einstaklega ljúft hjá okkur fjölskyldunni, við höfum verið á dálitlu flakki fram og tilbaka í bústaðinn sem hefur reynst dýrmætt athvarf fyrir okkur öll þ.m.t. mömmu og pabba sem ég gruna að séu stundum að forða sér þangað í rólegheitin bara tvö. Í þessum skrifuðu orðum er Bjartur Elías ásamt frænda sínum einmitt í bústaðnum í næturgistingu hjá ömmu sinni og afa sem er ómetanlegt fyrir alla. Páskarnir í ár voru fyrstu “hátíðarhöldin” sem við höldum hér á heimili foreldra minna og skreytti ég því örlítið með mínum hlutum þegar ég dekkaði páskaborðið, en ég er með þrjá plastkassa geymda undir rúmi þar sem ég geymi nokkra uppáhalds hluti sem ég vil geta nálgast haha.

Spariklæddur á Páskadag ♡

Ég sem var búin að ákveða að eyða minni pening í blóm í ár gat ekki staðist þessa bleiku túlípana…

Að mála páskaegg hefur verið partur af mínum páskum frá því ég var lítil og þetta var í annað sinn sem Bjartur Elías málar líka páskaegg / tóm. Það er þó gott ráð að lakka yfir þau svo þau endist betur, en í páskaskrautinu sem ég dró upp hjá mömmu fann ég egg síðan ég var á leikskóla en þau eru líka lökkuð…

Notalegheit í bústað er það besta sem ég veit og vá hvað það er gaman fyrir svona lítil kríli að geta komist í sveitina og leikið sér úti áhyggjulaus. Og ég tala nú ekki um að fá að eiga gæðastundir með fjölskyldunni þar sem allir eru ekki uppteknir í tölvu, síma eða vinnu. Það er eitthvað sem ég hef áhyggjur af og reyni mitt besta að vera ekki hangandi í þessum tækjum fyrir framan Bjart Elías, stundum er bara svo innilega gott og hollt að gera ekki neitt nema bara vera…

Ég vona að fríið ykkar hafi verið notalegt, ég er að koma mér í gang – já enn eina ferðina, eftir súkkulaðihúðaða daga og með mælingu hjá Fitsuccess rétt handan við hornið. Ég hef ekki verið að standa mig nógu vel undanfarið í matarræði og árangurinn staðið í stað þrátt fyrir mikla hreyfingu. En batnandi fólki er best að lifa og allt það haha….

PÁSKASKREYTINGAR AÐ HÆTTI ÞÓRUNNAR HÖGNA

DIYHugmyndir

Með páskana rétt handan við hornið er tilvalið að kíkja á glæsilegar páskaskreytingar hjá skreytingardrottningunni Þórunni Högna. Ég hreinlega elska hvað hún er hugmyndarík og hennar innilega áhuga á skreytingum og að gera fallegt í kringum sig, hvað þá að leyfa okkur hinum svo að fá hugmyndir frá sér. Þemað er hvítt, gyllt og gult með nóg af glimmeri. Fallegar útprentaðar páskamyndir fá að hvíla á servíettum ásamt því að nokkrar eru hengdar á páskagreinar til skrauts ásamt skreyttum eggjum. Einstaklega sætar páskamöffins setja svo punktinn yfir i-ið með páskaeggjum og súkkulaðikanínu.

Útkoman er æðisleg! Takk elsku Þórunn Högna fyrir þína skreytingagleði og leyfa okkur að fylgjast með ♡

Dásamlega fallegar páskamöffins! 

Gyllti borðinn er frá Hjarn Living og stjakarnir frá Snúrunni. Litlu myndirnar á greininni lét Þórunn gera í Pixel og setti svo borða á. Hvítur pappadúkurinn er frá Duni og gyllta ræman er innpökkunarpappír frá Søstrene Grenes. 

” Ég bjó til lítið hreiður úr greinum úr garðinum og eggin ofan í eru gömul frá Pottery barn.”

Stóra kanínan er frá Kinderegg og litlu kanínurnar voru steyptar í mót frá Allt í köku.

Gylltu kanínurnar eru límmiðar úr Tiger sem Þórunn glimmerhúðaði – góð hugmynd!

Myndir : Þórunn Högna

Þessar myndir veita mikinn innblástur fyrir komandi páskaveislur og um að gera að leika sumar hugmyndirnar eftir og hafa fallega skreytt páskaborð um helgina. Ég vona að páskafríið sé að leggjast vel í ykkur flest – Gleðilega páska ♡

FERMINGARGJAFIR & SKREYTINGAR

HugmyndirVerslað

Fermingartíminn er aldeilis runninn upp og er ég venju samkvæmt byrjuð að aðstoða lesendur við hugmyndir að gjöfum. Það getur reynst erfitt að vita hvað 14 ára unglingar óska sér og mögulega er ég ekki með á hreinu hver vinsælasta gjöfin er í ár, enda lít ég svo á að fermingargjafir eiga að vera klassískar sem geta elst með fermingarbarninu.

Ég tók saman nokkrar hugmyndir sem veita ykkur vonandi innblástur ef þið eruð að vandræðast með fermingargjöf. Margir unglingar hafa alveg jafn mikinn áhuga og við að hafa fallegt í kringum sig og því um að gera að gefa þeim fallega hluti í herbergið svo þau geti stolt boðið vinum í heimsókn. Fyrstu hugmyndirnar sem ég tók saman eru mögulega dálítið kvenlegar en þó vil ég taka fram að allir bleiku hlutirnir sem ég sýni fást allir í öðrum litum og gætu þ.a.l. hentað betur fyrir drengi.

//1. Plakat, Dimm.is.  //2. Ballroom ljós, Snúran.  //3. Pov circle, Epal.  //4. Componibili náttborð, Epal og Casa.  //5. Ferm Living vírakarfa, Epal og Hrím.  //6. Hálsmen Hlín Reykdal.  //7. iittala Aarre hanki, Casa og iittala Kringlunni.  //8. Jansen+co kertastjaki, Kokka.  //9. Aalto vasi, sölustaðir iittala.  //10. Bleik rúmföt, Dimm.is.  //11. Vitriini skartgripaskrín, Casa og iittala Kringlunni.  //12. Ullarteppi, Kokka. 

Svo er það nú eitt sem ég hef alltaf átt smá erfitt með að skilja, það er þetta væmna þema sem virðist svo oft fylgja fermingarveislum. Ég vona að ég sé enga að móðga með þessum hugleiðingum en þeir unglingar sem ég kannast við eru aldeilis ekki með væmið yfirbragð í fatnaði né framkomu;) Ef ég væri að ferma þá myndi ég velja örlítið hressari skreytingar og hafa smá vorfíling yfir veislunni, fermingar eru jú viss vorboði og einnig er skemmtilegt að vinna með einhverskonar litaþema í blöðrum og borðskreytingum.

Myndina hér að ofan tók ég saman með vörum frá Pippu en þær voru okkur einmitt innan handar fyrir Trendnet partýið fyrr á árinu. Á vefsíðu Pippa.is má skoða allt skrautið eftir flokkum og fann ég þennan líka fína fermingarflokk – mæli með að skoða.

Ég myndi hafa í “minni veislu” fullt af blöðrum og í hverri blöðru að hengja á gull eða silfurband, ásamt því sé ég fyrir með að hafa töff mynstraðar servíettur og láta áletra ásamt því að bæta við á borðin klipptum greinum, t.d. eucalyptus og rósum. Svo væri jafnvel skemmtilegt að hafa myndahorn þar sem gestir gætu látið taka af sér Poloroid myndir og væri hornið einnig skreytt í takt við þema. Æ ég er alveg farin að gleyma mér hérna… alveg 11 ár til stefnu!

Þið sem eruð að ferma í ár – gangi ykkur vel og njótið ♡

MÚMÍN SUMARBOLLINN : GOING ON VACATION

Fyrir heimiliðHönnun

Í tilefni dagsins þar sem við erum flestöll á leið í ljúft páskafrí langaði mig til að sýna ykkur nýja Múmín sumarbollann sem væntanlegur er í verslanir í byrjun maí. Hann heitir nefnilega ‘Going on vacation’… 

Ég veit um nokkra sem safna öllum Múmín bollum sem framleiddir eru, á meðan aðrir eins og ég sjálf vel úr þá sem eru sérstaklega sætir. Þessi gæti mögulega endað í mínu safni! Það er dálítið skemmtilegt að skoða alla bollana sem framleiddir hafa verið á heimasíðu Arabia, allir eru þeir myndskreyttir af Tove Slotte eftir upprunalegum teikningum Tove Jansson höfundi Múmín bókanna sem eignast svo nýtt líf á þessum sæta borðbúnaði Arabia.

Myndir via Arabia 

Línan ‘Going on vacation’ inniheldur eins og svo oft áður disk, skeiðar og núna líka krúttlegar Múmín fígúrur sem væru sætar í barnaherbergið. Það er eitthvað svo auðvelt að vera skotin í Múmín fjölskyldunni… Ætlar þú að bæta þessum í safnið?

FLOTTUSTU & UMHVERFISVÆNUSTU NESTISBOXIN

Hönnun

Fyrir stuttu síðan fékk ég senda heim óvænta gjöf frá vinkonum mínum í Kokku, þær voru að fá til sín einstaklega smart og vistvæn nestisbox frá Uhmm og sendu mér til að kynnast betur. Ásamt þeim fékk ég fallega lífræna bleika tusku og viskastykki en nestisboxin voru einnig í sérvöldum litum fyrir mig, hvít með svörtu ásamt bleiku boxi. Eftir að hafa lesið mér til um merkið varð ég algjörlega heilluð og má til með að kynna ykkur fyrir því líka. Vöruna fékk ég ekki senda gegn því að skrifa um hana en sem menntaður vöruhönnuður er ég mjög svo hrifin af þessari hönnun og allri hugmyndafræðinni á bakvið hana.

Það fyrsta sem heillaði mig var útlitið ég viðurkenni það, boxin eru nefnilega í flottum djúsí litum og hönnunin er sniðug og þægilegt að taka með sér út í daginn. Fyrir utan það er auðvitað enn mikilvægara að þau eru umhverfisvæn og leysa engin eiturefni jafnvel þó þau séu sett í örbylgju og mega einnig fara í frysti og uppþvottavél. Boxin eru gerð úr pólýprópýlín sem að er eitt vistvænasta plastefni sem völ er á þar sem það er endurvinnanlegt og laust við bæði paraben og mýkingarefni. Uhmm Box eru þar að auki framleidd í Danmörku og koma í flötum umbúðunum svo kolefnissporið er í lágmarki.

Svo nokkrar myndir til að sýna ykkur hvað þau eru agalega smart!

 

” Uhmm Box umlykja matinn þinn á alveg einstakan hátt og breytast svo í skál eða disk þegar kemur að matmálstíma. Hönnunin gerir það að verkum að boxin er hægt að fletja út þannig að lítið fari fyrir þeim í skáp eða uppþvottavél. Auk þess er lokið áfast og þú þarft aldrei að leita að því!”

“Nestisboxin eru ekki 100% þétt heldur leyfa matnum „anda“ svo hann haldist ferskur. Þetta þýðir að boxin henta einstaklega vel til að geyma ferskvöru s.s. osta, salat, brauð og margt fleira. Þar sem Uhmm Box lætur aðeins lofta um matinn er hægt að skella því lokuðu inn í örbylgjuofn, gufan sleppur út og innihaldið hitnar fyrr. Þrátt fyrir þetta er boxið þétt og öruggt er að geyma allt nema fljótandi vökva í því.”

 

Það verður að segjast að þessi vöruhönnun er ansi vel heppnuð og auðveldar líklega líf margra. Fyrir áhugasama þá má finna nestisboxin hér í vefverslun Kokku.