FALLEGT ÚR ÝMSUM ÁTTUM

Skemmtilegustu heimilin sem ég heimsæki eiga það öll sameiginlegt að þar má finna hluti úr öllum áttum og sitthvað sem vekur forvitni mína. Það er sagt að það taki aðeins nokkrar vikur að koma sér fyrir á nýju heimili en það tekur þó nokkur ár þar til heimilið er orðið tilbúið ef svo má segja. Mitt heimili er svo sannarlega ennþá í vinnslu og eins og svo oft áður þá get ég legið yfir svona óskalistum og leyft huganum að reika. Ég er sérstaklega ánægð með óskalistann að þessu sinni en hér má sjá hluti úr öllum áttum og ekki einn stíll sem ræður ríkjum. Það er líka skemmtilegast að hafa það þannig og það má að sjálfsögðu blanda öllu saman!

Falleg útskorin hauskúpa frá nýju RVK design netversluninni. // Postulínperlur undir heitt, Dúka. // Taika stell frá iittala sem er svo fallegt. // Scintilla púði í flottum litum, scintilla.is. // Handgerð ilmsápa frá íslenska URÐ. Fæst t.d. í Epal og Snúrunni. // Blár og klassískur Aalto vasi sem er tilvalinn undir sumarvöndinn. // Royal Copenhagen draumaskál á fæti, Kúnígúnd. // Dásamleg vatnskanna frá AYTM, Epal. // Skeljalampi eftir meistara Verner Panton – heitir Mother of Pearl.

Ég reyndi mitt besta að hafa ekkert bleikt með – en það gekk ekki betur en þetta ♡

 

 

HEIMA HJÁ RAKEL RÚNARS

HeimiliPersónulegt

Þetta er aldeilis ekki í fyrsta sinn sem ég fjalla um vinkonu mína hana Rakel Rúnarsdóttur hér á blogginu og fær hún eflaust að vera fastagestur hér inná þar til ég segi skilið við bloggbransann – sem verður vonandi aldrei. Rakel mín er ekki bara ein af mínum allra bestu vinkonum en eins og ég hef áður sagt ykkur þá stofnuðum við bloggið saman fyrir um 8 árum síðan. Við deilum flestum áhugamálum saman en þar að auki höfum við mjög líkan smekk og ég hrífst af öllu sem hún kaupir sér og svo er það eins á móti. Í dag sýndi ég smá frá heimilinu hennar á Svartahvitu snapchat og verður heimsóknin aðgengileg þar til hádegis þann 13. júlí. Það er orðið ansi huggulegt hjá þeim í firðinum fagra en líka margt eftir að gera sem verður spennandi að fylgjast með.     

Ég sendi á Rakel nokkrar spurningar svo þið kynnist þessari elsku aðeins betur,

Hér búa?  Andri, Rakel, Emil Patrik og Evelyn Alba 

Er þetta draumaeignin ykkar? Húsið kemst ansi nálægt því að vera okkar draumaeign já. Passlega stórt, vel skipulagt, bjart og fallegt og fullkomin staðsetning í grónu og barnvænu hverfi.

Þurfti að gera eitthvað áður en þið fluttuð inn? Þar sem við vorum að flytja til landsins að utan þá þurftum við að flytja strax inn í húsið áður en við gerðum nokkuð. Við máluðum svo mest allt og höfum verið að vinna mikið í lóðinni, bæði að framan og aftan. Einnig voru nokkur viðhaldsverkefni sem þurfti að sinna.

Á eftir að klára mikið? Já mjög mikið, en við erum ekkert að flýta okkur og ætlum að taka nokkur ár í þetta allt saman, eiga fyrir hverju verkefni. Í sumar ætlum við að halda áfram að vinna í lóðinni, byggja pall að aftan o.fl. í þeim dúr. Einnig ætlum við taka efri hæðina alveg í gegn, skipta um gólfefni og mögulega hurðar. Svo á eftir að taka bæði baðherbergin í gegn, opna frá borðstofu og inn í eldhús og taka eldhúsið þá í gegn í leiðinni. Þá munum við líka skipta um öll gólfefni á neðri hæðinni.

Þessi stofa er algjör draumur, ég elska smáhlutahilluna sem er fyrir ofan ofninn þar sem nokkrir af uppáhaldshlutum fá að standa. Gluggarnir eru æðislegir og hleypa rosalega mikilli birtu inn og það er gott að sitja hér og geta horft á krakkana úti að leika. Á efri hæðinni er sjónvarpshol og því fær betri stofan að njóta sín enn betur án þess að sjónvarp trufli.

Ég er bálskotin í þessum lit og gæti vel hugsað mér að mála einn vegg í stofunni minni með honum, svo mildur og bjartur grár litur. Fyrir áhugasama (ég veit þið eruð mörg) þá heitir liturinn Hop Greige og er frá Sérefni eins og öll málningin á heimilinu.

Ikea Eket skápur á veggnum og uppáhalds hluturinn á heimilinu, Panthella lampinn góði. Þarna vantar að vísu Scintilla myndina góðu sem var fjarri góðu gamni í innrömmun.

Borðstofuborðið sem tengdapabbinn smíðaði og Rand mottan kemur hrikalega vel út undir borðinu en ekki sem stofumotta. Glerskápurinn var keyptur notaður á Bland og ljósið er frá Northern Lighting (fæst hér í Módern).

Hér eiga eftir að verða ansi mörg matarboðin!

Hvað er það besta við heimilið? Skipulagið og allir gluggarnir sem hleypa svo mikilli birtu inn.

Uppáhaldshlutur? Verner Panton Panthella lampinn minn og svo verð ég líka að nefna borðstofuborðið okkar sem tengdapabbi smíðaði fyrir mig.

Krúttherbergið hans Emils sem er á efri hæðinni. Blái liturinn heitir Clear Paris frá Sérefni, ég fékk margar fyrirspurnir um hann í dag enda alveg fullkominn mildur blár litur sem myndi einnig njóta sín vel í svefnherbergi. Tunglmyndin “til tunglsins og tilbaka” er eftir Fóu Feykirófu – sjá hér.

Svefnherbergið er fallegt og hugsað út í hvert smáatriði. Liturinn á veggjunum heitir Soft Stone og er frá Sérefni, en þessi litur kemur líka til með að prýða einn vegg í eldhúsinu við tækifæri.

Hvað kom til að þið fluttuð aftur til Íslands? Við erum búin að vera úti meira og minna síðan 2012 svo við vorum alveg tilbúin að koma heim og koma okkur fyrir hér. Svo var maðurinn minn að klára framhaldsnámið sitt og langaði til að koma heim og starfa við það svo við ákváðum bara að nú væri rétti tíminn.

Hvað er svo á döfinni? Ég verð í fæðingarorlofi út sumarið og stefni svo á að fara aftur út á vinnumarkaðinn.

Takk elsku Rakel fyrir að bjóða okkur í heimsókn ♡

Og ef það eru spurningar þá ekki hika við að skilja eftir skilaboð.

HERBERGIÐ HANS BJARTS ♡

Barnaherbergi

Ég fæ að deila með ykkur einni mynd á þessum ótrúlega fallega degi. Það reynir virkilega á sjálfsagann að sitja inni og vinna við tölvuna þegar að sólin loksins kemur fram og er í þessu líka góða skapi. Herbergið hans Bjarts Elíasar varð fyrir valinu í tilefni þess að mamman tók til um helgina – þá sjaldan sem það er ekki dót útum allt þarna inni.

Herbergið er hlýlegt og fallegt og þarna má finna mögulega of mikið af dóti. Það er að vísu í dótakössum við hliðina á skrifborðinu mínu sem sjást ekki á myndinni. Ég er með litla vinnuaðstöðu inni hjá Bjarti sem hefur ekki verið neitt vandamál hingað til og mér finnst í góðu lagi að samnýta herbergi í litlum íbúðum. Tekk náttborðið er frá langaömmu minni og tekk kommóðuna gerði Andrés upp svo mér þykir stíllinn vera dálítið persónulegur en á veggjum eru einnig nokkrar myndir ýmist eftir vinkonur mínar eða mig sjálfa sem ég skipti reglulega út. Ikea leikeldhúsinu breytti ég smávegis fyrir löngu síðan, setti marmarafilmu á borðið og spreyjaði höldurnar og kranann í gylltu. Motturnar á gólfinu eru frá HAY og frá H&M home, en teppið sem liggur yfir stólnum er frá Iglo+Indi. Sólin skein svo skært þegar ég tók myndina að það sést varla í Svana-óróann sem hangir í loftinu en þann fékk ég í gjöf frá eiganda Flensted Mobiles en honum þótti ég þurfa að eiga einn “Svönu” óróa.

Þið látið mig vita ef það er eitthvað fleira sem þið viljið vita:)

INSTAGRAM @SVANA.SVARTAHVITU

Persónulegt

Ótrúlegt en satt þá hef ég verið nokkuð virk á Instagram undanfarið, eða að minnsta kosti miðað við virkni mína undanfarin ár. Ég hef mjög gaman af þessum miðli þrátt fyrir að þetta sé einn versti tímaþjófur sem hægt er að finna og mér finnst orðið erfitt að gera upp á milli hvort Snapchat eða Instagram sé betri vettvangur? Ég ætla að halda mig eins og er við báða miðla og núna er næsta skref að koma Snapchat í rútínuna! Skemmtilegt að segja frá því að á mánudaginn verður einmitt smá innlit þar hjá einni smekkdömu ef þið viljið kíkja með ♡

Instagram @svana.svartahvitu

Ég vona að helgin ykkar verði góð, ég ætla að kíkja í heimsókn í bústaðinn ótrúlegt en satt… Ég er búin að vera eitthvað svo stressuð undanfarið að mig vantar smá ró og næði og það er hvergi betri staður til þess en sveitin. Góður matur, útivera og að lesa nokkur tímarit eða bók. Ég er alveg í gírnum til þess að lesa eitthvað sem væri geymt í “sjálfshjálpar” rekkanum haha, öll tips vel þegin en ég er algjör sökker þegar kemur að slíku lesefni.

FULLKOMIN VINKONUFERÐ ♡

Persónulegt

Fyrir nokkrum dögum síðan héldum við vinkonurnar í saumaklúbbnum upp á árlega árshátíð og fékk ég að koma að skipulagi hennar sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt. Það er alveg nauðsynlegt að lyfta sér upp reglulega og styrkja sambandið við vini sína. Ég er ekki frá því að ég hafi einnig lengt líf mitt um nokkur ár því það var svo mikið hlegið í ferðinni – algjörlega frábær dagur með skemmtilegum vinkonum.
Við erum með hefð fyrir því að ca. tvær úr hópnum skipuleggi allt og komum svo hinum á óvart en þó leggjum við allar jafnt út fyrir deginum. Ég vona að þetta geti komið ykkur að gagni sem eruð að skipuleggja vinkonu/vinaferðir:) 

Við byrjuðum daginn á því að hittast fyrir utan Sundhöllina á Selfossi þar sem við áttum bókaðan tíma í Trampolín fitness í World Class. Ég man eftir að hafa séð stelpurnar í RVK fit (snapchat) fara þangað nýlega og það virkaði svo hrikalega skemmtilega að við vildum einnig prófa. Við vorum einar með salinn og borguðum fyrir klukkustund með kennara sem var alveg frábær. Hún blandaði saman æfingum og hópeflisleikjum sem var hressandi að byrja árshátíðina okkar á. Ég mæli endilega með því að prófa!

Eftir það þá keyrðum við í bústaðinn minn þar sem við gistum í eina nótt og elduðum góðan mat og vorum í misgáfulegum leikjum langt fram á nótt. Við erum með smá steiktan húmor og ákváðum að hafa keppni okkar á milli varðandi klæðnað og fékk hver og ein þemalit sem hún átti að klæða sig eftir og voru haldnar kynningar. Sú sem gekk lengst með þemað sitt hlaut svo verðlaun – en einnig voru veitt aukaverðlaun fyrir besta fylgihlutinn í þemalitnum. Ég veit varla afhverju ég er að skrifa þetta hérna haha. En það er alveg nauðsynlegt að taka sig ekki of alvarlega og geta ennþá fíflast þó við séum ekki ennþá 16 ára. Við lögðum okkur allar mikið fram við þemað og það var mikið hlegið og myndirnar sem náðust af mér fá ekki að fara á alnetið – en verðlaunin komu heim með mér;)

Morguninn eftir var síðan vaknað snemma og haldið í bröns í Þrastarlundi þangað sem ég hef verið á leiðinni síðan að bústaðarævintýrið hófst en þetta er jú hverfisstaðurinn okkar fjölskyldunnar núna. Það sem kom mér svo á óvart að þrátt fyrir að hafa heyrt mjög marga tala um brönsinn þá er staðurinn sjálfur alveg einstaklega fallegur og vel hannaður en það hefur alveg gleymst í allri umræðunni. Stærðarinnar gylltar ljósakrónur og háir leðurbekkir setja sinn svip á staðinn og grófir og töffaralegir leðurstólar eru við borðin. Það voru þau Dóra Björk Magnúsdóttir og Leifur Welding sem hönnuðu staðinn og heppnaðist svona líka vel. Ég get ekki sleppt því að minnast síðan á brönsinn sjálfan sem var virkilega ljúffengur en það besta var líklega þjónninn okkar hann Marek sem dekraði við okkur. Við tókum nokkrar myndir af staðnum og gátum ekki sleppt því að taka klassísku -bloggari í bröns- myndina (haha) sem við skemmtum okkur mikið yfir. Við vorum mættar alveg við opnun sem mér þótti kostur því þá nýtur maður umhverfisins og útsýnisins sem er svo fallegt betur. Ég mæli því hiklaust með Þrastarlundi ef þið eruð á ferðinni og ég mun eiga næsta deit þarna með fjölskyldunni minni en við keyrum þarna framhjá um hverja helgi nánast.

Þessar fjórar sáu svo um að þrífa bústaðinn eftir partýlætin og fáum því að öllum líkindum að kíkja aftur!

Við saumaklúbburinn höfum haldið árshátíð í nokkur ár núna og er alltaf mjög fjölbreytt dagskrá en í fyrsta sinn núna gistum við saman. Ég tek fram að við erum fleiri í hópnum en sést á myndinni – mér yrði þó líklega ekki fyrirgefið ef ég birti myndir af þeim hér á Trendnet sveittum í leikfimifötum eða fullum um kvöldið. Núna krossa ég fingur að næsta árshátíð verði haldin í L.A. þar sem að ein kær vinkona úr hópnum er að flytja þangað.

x Svana