NÝTT Á ÓSKALISTANUM & INNLIT Í WINSTON LIVING

Mæli meðÓskalistinnVerslað

Ég kíkti um helgina í langþráða heimsókn í verslunina Winston Living sem flutti nýlega úr Kópavoginum yfir í miðbæ Reykjavíkur á besta stað bæjarins við Hljómalindartorg. Við fjölskyldan sátum á torginu í dágóða stund á Menningarnótt og það er sjaldan sem ég hef upplifað jafn mikla “útlanda” stemmingu og einmitt þarna, falleg hús sem umkringja torgið, góður matur í úrvali ásamt glæsilegum verslunum. Winston Living heillaði mig alveg upp úr skónum en þið voruð mörg sem fylgdust með heimsókninni á Svartahvitu snapchat og voruð sum hver agndofa yfir þessum fallegu vörum sem þarna var að finna. Tvær vörur rötuðu beina leið á óskalistann minn sem eru algjörir gullmolar, annars vegar var það gordjöss bleik glerkanna ásamt gylltum trylltum geómetrískum Gloria kertastjaka. Eigum við síðan eitthvað að ræða þennan bleika stól á gylltu löppunum sem mætti einnig vel rata heim til mín einn daginn?!

Ég get vel mælt með heimsókn í verslunina þeirra við Hljómalindatorg (margir sem þekkja það sem Hjartagarð). Sjá frekari upplýsingar í vefverslun þeirra hér.

KRISTINA KROGH ♡

Hönnun

Enn á ný dreymir mig um verk eftir hina hæfileikaríku dönsku Kristinu Krogh sem ég hef nokkrum sinnum áður fjallað um. Það hefur verið gaman að fylgjast með henni þróa sinn stíl í gegnum árin og eru nýjustu verkin hennar þónokkuð ólík þeim fyrstu sem komu út en eiga það þó sameiginlegt að fókusinn er á ólíkar áferðir og efni og alveg jafn hrikalega flott. Ég hef verið með augun á röndótta svart hvíta plakatinu síðan í byrjun sumar og núna er sveimér þá kominn tími til að panta mér eintak. Ég mæli með að skoða allt úrvalið hennar á kkrogh.dk

  

Myndir: Kristina Krogh

Það sem ég er hrifnust af er áferðin á plakötunum sem hvert og eitt er prentað á gífurlega vandaðann pappír, flest þeirra eru prentuð með ‘giclée’ sem er nokkurskonar alþjóðlega viðurkennd listaverkaprentun sem notuð er m.a. af söfnum. Ásamt því má sjá Kristinu notast við sérstakan speglapappír og gullfólíur í hönnun sinni. Ég hef fylgst með Kristinu Krogh í nokkur ár núna og tók einnig viðtal við hana fyrir H&H árið 2013 áður en að nokkur íslensk verslun hóf að selja hennar verk og hef síðan þá verið dyggur aðdáandi enda er ekki erfitt að verða skotin í svona hæfileikaríkum hönnuði.

HAUST & VETUR FRÁ FERM LIVING

Hönnun

Núna flæða inn fallegar haustvörur í verslanir landsins, ég veit ekki með ykkur en þetta er minn uppáhaldstími á árinu. Innhólfið mitt hefur þó ekki aðeins verið að fyllast af fréttum af nýjum haustlínum heldur einnig af væntanlegum jólavörum sem ég er ekki alveg tilbúin í að skoða. Byrjum á haustinu takk! Það verður ekki bara einstaklega gott heldur líka sérstaklega fallegt ef marka má myndirnar sem danska Ferm Living sendi frá sér í gær.

  

Bleiki liturinn heldur áfram að vera áberandi sem gleður mig ó svo mikið, en litirnir eru einnig að verða dekkri – vínrauður og dökkgrænn á veggi gæti ekki verið haustlegra. Ég er mjög hrifin af nokkrum vörum sem eru væntanlegar innan skamms frá Ferm Living en spenntust er ég fyrir kertastjakanum hér að neðan sem vinkona mín Hanna Dís Whitehead hannaði í samstarfi við þau. Algjör bjútí og ekki skemmir fyrir að bæta við safnið nýrri íslenskri hönnun! Íslensk hönnun er jú best í heimi ♡

FRÉTTIR: NÝR & SÆTUR MÚMÍNBOLLI

Hönnun

Núna gleðjast Múmínbollasafnarar landsins því nýr bolli er væntanlegur og hann er ansi fallegur. Það er orðið dálítið langt síðan að ég bætti við múmínbolla í safnið mitt en þessi fallegi bolli er væntanlegur núna í september í takmörkuðu upplagi og ég get vel hugsað mér að næla mér í eintak. Það er dálítið haust í honum að mínu mati, skreyttur fallegri teikningu Tove Jansson af Múmínfjölskyldunni sitjandi við kertaljós. Núna er stóra spurningin, hversu margir bollar eru í þínu safni?:)

Það er svo mikið haust í loftinu að ég er alveg tilbúin til þess að kveðja sumarið og tek glöð á móti komandi kósýkvöldum – helst með heitt te í fallegum múmínbolla ♡

SNÚRAN STÆKKAR & BOLIA BÆTIST VIÐ

BúðirFyrir heimilið

Í gær opnaði ein af mínum uppáhalds verslunum, Snúran nýja og stærri verslun en þau kynntu einnig nýtt merki sem er eftir að spila stóran þátt í nýju versluninni en það er danska vörumerkið Bolia! Ég kíkti á þau snemma í gær á meðan þau voru á haus að klára að græja nýju verslunina og ég heillaðist alveg upp úr skónum. Verslunin er einstaklega falleg á alla vegu, vel er hugsað út í öll smáatriði og það er skemmtileg upplifun að ganga þarna um – þið munið mjög vel skilja mig þegar þið kíkið í heimsókn! Það var engin önnur en Rut Káradóttir sem hannaði rýmið sem er hið glæsilegasta, versluninni er síðan skipt upp í nokkrar fallegar stofur sem hver hefur sitt litaþema en bleika stofan er og kemur til með að vera mín uppáhalds. Ég tók þessar myndir þegar allt var ekki alveg 100% klárt svo ég kem mögulega til með að uppfæra þær þegar ég kíki næst við en í opnunarhófinu í gærkvöldi var varla hægt að þverfóta fyrir fólki svo engar myndir voru teknar þá:)

Fyrir áhugasama þá er nýja verslunin staðsett í Ármúla 38 og ég mæli svo sannarlega með að kíkja við! Til hamingju elsku Snúru vinir ♡