20 FERMINGARGJAFA HUGMYNDIR

HönnunHugmyndirVerslað

Þá er sá tími runninn upp, fermingar! Ég fæ á hverju ári mikið af pósti frá lesendum varðandi gjafahugmyndir fyrir ýmis tilefni t.d. brúðkaup, stórafmæli og fermingar en það getur reynst erfitt að vita hvað 14 ára unglingar óska sér. Ég man að sjálfsögðu ennþá eftir minni fermingu og ég man sérstaklega vel eftir gjöfunum sem voru allar mjög fallegar og sumar þeirra á ég enn í dag, ég er alveg á þeirri skoðun að það eigi að gefa gæði á svona tilefnum og eigulega hluti sem geta elst með fermingarbarninu. Það er kannski þessvegna sem ég hugsa nánast eingöngu um hluti til að fegra herbergið þegar kemur að fermingargjöfum!

Ég tók saman nokkrar hugmyndir sem veita ykkur vonandi innblástur ef þið eruð að vandræðast með fermingargjöf. Margir unglingar hafa alveg jafn mikinn áhuga og við að hafa fallegt í kringum sig og því um að gera að gefa þeim fín rúmföt, töff hliðarborð við rúmið, lampa, eitthvað undir skartið, töff skrifborðsstól og annað til að punta herbergið svo þau geti verið spennt að bjóða vinum sínum heim.

fermingar

//1. Smart hliðarborð sem bæði er hægt að nota þegar vinirnir koma í heimsókn en einnig sem náttborð. Bloomingville, fæst í A4. //2. Panthella mini er til í mörgum skemmtilegum litum sem henta vel í unglingaherbergi, fást í Epal. //3. Klassísk íslensk hönnun – það þekkja allir Krummann frá Ihanna home, sölustaðir eru m.a. Dúka og Epal. //4. Spegill sem hægt er að leggja skartið sitt á, Normann Copenhagen, fæst í Epal. //5. Rúmföt er mjög klassísk gjöf og allir unglingar ættu að eiga eitt fallegt sett. Dots frá Ihanna home, söluaðilar m.a. Dúka og Epal. //6. Sætur kertastjaki til að punta herbergið, þessi er flottur stakur en einnig í grúppu með fleirum. Jansen+co, fæst í Kokku. //7. Hnattlíkan með ljósi er hrikalega smart, þessi fæst í A4. //8. Pirouette armband frá Hring eftir hring er bæði fínt en einnig hægt að nota dagsdaglega. Fæst m.a. í Aurum og Epal. //9. Þessar vegghillur eru æðislegar og hægt að raða saman að vild og snúa hilluberunum á tvo vegu, Pythagoras hillur fást í Dúka. //10. Krúttlegt hliðarborð með geymslu, fullkomið sem náttborð í unglingaherbergi. Fæst í A4. //11.  Bleikur Kastehelmi kertastjaki frá iittala í sætum bleikum lit. Fæst á flestum sölustöðum iittala. //12. OH stóll hannaður af Karim Rashid fyrir Umbra er flottur við skrifborðið og sérstaklega smart að leggja á hann gæru. Kostar 9.900 kr. í A4. //

Hér að neðan má sjá OH stólinn líka í svörtum en hann kemur í 6 litum. En mig langaði til að segja ykkur að dagana 23. – 27. mars eru Tax free dagar í verslunum A4 en þar fást t.d. vörur frá merkjum á borð við Bloomingville og House Doctor sem ég elska ó svo mikið ♡ Alltaf gott að nýta sér afslætti!
0083a00608-6b

Hér að neðan má síðan sjá fermingargjafahugmyndir sem ég setti saman í fyrra en eiga ennþá mjög vel við.

ferming2-620x852

1. Plaköt til að skreyta vegginn eru tilvalin í unglingaherbergi, þetta er frá Reykjavík Posters, fæst m.a. í Epal, Hrím og Snúrunni.// 2. Vasi frá Finnsdóttir, Snúran. // 3. DIY stafalampi, Petit. // 4. Muuto Dots snagar, Epal. // 5. Töff demantaljós, Rökkurrós. // 6. Bleikur gærupúði frá Further North, Snúran. // 7. Þráðlaus heyrnatól frá Bang & Olufsen. // 8. Fallegt hálsmen frá Octagon. //

Ég vona að þessi listi komi að góðum notum fyrir einhverja og þú mátt endilega benda á þessa færslu sérstaklega ef þú þekkir einhvern sem er að fermast sem getur þá valið sér hluti á óskalistann sinn. Æj hversu gaman væri að fá að fermast aftur – viðurkennum það bara, það var að hluta til bara vegna gjafanna:)

svartahvitu-snapp2-1

HÖNNUNARMARS: HVAÐ SKAL SJÁ?

Hönnun

Jú haldið þið ekki að HönnunarMars sé enn á ný mættur á svæðið í öllu sínu veldi. Það er því um að gera að reima á sig skóna því dagskráin sem ég var að skoða er stútfull af spennandi viðburðum fyrir hönnunarþyrsta. Mér tókst enn á ný að bóka mig til útlanda á sama tíma og hátíðin er og verð því fjarri góðu gamni en ætla þó að reyna að sjá sem mest áður en ég fer. Fyrir áhugasama þá má skoða dagskrána í ár hér.

Í kvöld opnar sýningin “Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd” í Epal Skeifunni sem mig langar til að sjá en þar eru nokkrar vinkonur mínar að sýna. Ég viðurkenni að ég hefði gjarnan viljað líka fara á Design Diplomacy Siggu Sigurjóns og Ingu Sempé sem er á sama tíma, sjá meira um það hér.

Ég er líka mjög spennt fyrir sýningunni á Kjarvalsstöðum sem opnaði fyrir stuttu sem heitir “Dæmisögur, vöruhönnun á 21. öld” en hún mun þó standa lengur en bara Hönnunarmars svo ég er róleg. Sýningin Roundabout Baltic PLUS Iceland í Norræna húsinu er einnig spennandi, en það er alþjóðleg hönnunarsýning með munum eftir um 50 hönnuði frá átta löndum sem eru sameinuð af strandlínu Eystrasaltsins, auk íslenskra hönnuða. Í Hörpu verður svo sýningin Íslensk húsgögn og hönnun, á sýningunni gefur að líta þversnið af því sem er nýjast í íslenskri hönnun og húsgagnaframleiðslu.

Ég er mjög spennt fyrir Ceci n’est pas un meuble í Ásmundarsal sem er á vegum elsku Auðar Gnáar snillings – Islanders fagnar ársafmæli og af því tilefni hefur verið efnt til samvinnu við valinn hóp myndlistarmanna. Hver og einn listamaður hefur fengið sama húsgagnið í hendur og fullt frelsi til að skapa úr því verk. Er hér verið að endurverkja samtal sem hefur víða um heim átt sér stað milli hönnunar og myndlistar.

Sýning Þórunnar Árna, Hljóðaform í Safnahúsinu hljómar áhugaverð, sem og Austurland: make it happen again sem haldin verður á KEX hostel. ANGAN upplifun er eitthvað sem ég væri til í að upplifa, og 1+1+1 óútreiknanleg hönnun og hugdetta er einnig áhugavert en þeirra fyrri samstörf hafa verið mjög flott. 1+1+1 er tilraunaverkefni þriggja hönnuða frá Íslandi (Hugdetta), Svíþjóð (Petra Lilja) og Finnlandi (Aalto+Aalto). Einnig langar mig að kíkja á Happical hjá Happie Furniture og MeeTing Þóru Finnsdóttur í Kirsuberjatrénu.

Swimslow Ernu Bergmann verður án efa flott, samstarf Hildar Yeoman+66 norður, og sýningin Stóll í Hönnunarsafninu er eitthvað sem ég vil sjá verandi mikill stólasafnari sjálf. Ég tek það fram að þessi listi sem ég er að taka saman er ekki tæmandi og það er svo ótalmargt annað frábært að sjá!

vasi_2_anna

Uppáhalds Anna Þórunn sýnir á samsýningunni í Epal nokkrar nýjar vörur.

screen-shot-2017-03-21-at-19-48-03

Spennandi lína frá Ernu Bergmann.

17352137_1621912144505066_3424281062312845147_n

Shapes of sound / Hljóðaform er spennó!

17352468_10155157276638011_8208681070033456281_n

screen-shot-2017-03-21-at-20-04-59

Skyldu endilega eftir athugasemd með þínum topp 3 sýningum sem þú vilt sjá! Við sjáumst svo kannski á HönnunarMars, eða þessa fáu daga sem ég næ að sjá:)

Gleðilegan HönnunarMars!

svartahvitu-snapp2-1

SÆTUSTU LJÓSIN Í BÆNUM

Barnaherbergi

Af og til fæ ég vissa hluti á heilann og núna eru það krúttlegar mjúkar ljósakúlu seríur sem ég rakst á í gær á búðarrölti sem eru fullkomnar í barnaherbergi. Ég hef að sjálfsögðu séð svona ljós margoft áður og þau eru sérstaklega áberandi í innlitum í barnaherbergjum þó þær henti jafnt í stofuna eða svefnherbergið. Það er eitthvað við þessa mjúku áferð sem er svo kósý og gefur hlýtt yfirbragð.

3480d88b296dcc4a7ccf2bfd8305716d 9dff54cf11e2dfc0457c7e7ae818a8a2

Seríurnar sem ég var að skoða voru í Byko Breiddinni og voru til bæði einlitaðar (svartar og hvítar) en líka í svona huggulegum blönduðum litum en þið sem eruð með mig á Snapchat sáuð mögulega frá leiðangrinum mínum þangað. Ég fékk að minnsta kosti margar fyrirspurnir varðandi nokkra hluti sem ég sýndi, með mér rötuðu heim 3 æðislegar plöntur í leiðangrinum og ein þeirra er hin eftirsótta peningaplanta sem mig hefur dauðlangað í en aldrei fundið! Þvílík gleði ♡

svartahvitu-snapp2-1

ARNA & SIGVALDI: BAÐHERBERGIÐ TILBÚIÐ!

Baðherbergi

Það er aldeilis baðherbergjaþema í gangi hér á blogginu mætti segja og er því alveg tilvalið að sýna ykkur núna lokaútkomuna hjá þeim Örnu og Sigvalda sem við höfum fylgst með taka í gegn þeirra fyrstu íbúð. Stóra baðherbergjafærslan sem ég birti í gær -sjá hér- er að slá öll met og lítur út fyrir að okkur vanti bara smá loka spark í rassinn til að hefjast handa. Þó leggja ekki allir í svona miklar framkvæmdir eins og þau Arna og Sigvaldi en það er alltaf gott að fá innblástur!

1-400x627

Segðu okkur Arna hvað er að frétta frá því síðast? Núna erum við Sigvaldi loksins búin að taka í gegn alla íbúðina, eða það sem við ætluðum okkur að gera frá því við fluttum inn. Fyrir um ári síðan gerðum við smá bráðabirgða breytingar á baðherberginu en planið var alltaf að fara svo seinna í stærri breytingar sem nú hafa loksins átt sér stað. // Sjá færsluna hér.

Hvað er það helsta sem þið breyttuð núna? Við tókum út baðkarið og settum sturtu og skiptum einnig um vask og blöndunartæki ásamt því að flísaleggja.

17409464_10154461371071238_785654280_n

Hvaðan fenguð þið hugmyndir um útlit á baðherberginu? Þegar við byrjuðum á að fara yfir hugmyndir og útfærslur um hvernig við vildum hafa baðherbergið kom Pinterest og Instagram að góðu gagni. Sem betur fer erum við Sigvaldi oftast á sama máli með stílinn á heimilinu og því ekki erfitt fyrir okkur að vera sammála um hvað við viljum og hvað ekki.

Hvaðan völduð þið innréttingar og gólfefni? Við enduðum á að kaupa allt í BYKO, við byrjuðum á að kíkja á tilboðsdaga sem þá voru í gangi og skoðuðum úrvalið. Áður en við vissum af vorum við búin að finna allt sem okkur langaði í á baðherbergið og þökk sé Ástu snillingi hjá þeim að þá var þetta fljótt að smella saman, okkar sýn var komin á pappír og allt í takt við fjármagnið sem við vorum tilbúin að eyða í baðherbergið.

Eftir að við vorum búin að taka allar ákvarðanir með útlitið á baðinu fórum við aftur í Byko og fengum lokatilboð í allan pakkann, frá leigu á búnaði sem við þurftum í framkvæmdirnar yfir í blöndunartækin og flísar … og vá þvílíkur lúxuuuus að fá þetta allt bara á sama staðnum!

Er einhver sérstök hugsun á bakvið litaval og annað? Baðherbergið hjá okkur er ekki stórt auk þess sem það er gluggalaust, svo dökkir litir voru strax teknir út af borðinu til að minnka ekki rýmið og til halda einhverri birtu þarna inni. Við vildum hafa kósý inná baði og hafa þetta stað sem væri hlýr og notalegur.

1

Liturinn sem þau völdu á flísarnar var grár sem passar einnig vel við litinn á parketinu í íbúðinni.

4

Hvernig gengu svo framkvæmdirnar fyrir sig? Sigvaldi byrjaði á að strípa niður allt baðherbergið og vá hvað það kemur mikið ryk! Við mælum með fyrir alla sem ætla að fara í svona framkvæmdir að hafa mjög góða iðnaðarryksugu og plasta allt vel því það kemur ryk á staði sem þú vissir að væru ekki til. Við byrjuðum fyrsta daginn á að nota heimilisryksuguna og komumst fljótt að því að það væri ekki málið útaf fína rykinu sem kom og fórum því og leigðum góða iðnaðarryksugu í Byko sem létti okkur lífið talsvert.

Allavega… eftir að búið var að taka dúkinn, pússa allt niður og taka eins mikið ryk í burtu og hægt var að þá var byrjað að grunna veggina og gólfið með rakavörn. Eftir það hófst múrvinnan og gerð á sturtubotninum. Við vorum svo heppin að fá Alla (Alexander Óðinsson) vin hans Sigvalda sem starfar sem múrari til að koma og sýna okkur réttu handtökin við múrverkið en það er mjög mikilvægt að fá leiðbeiningar frá einhverjum sem er með þekkingu í að múra til að aðstoða við múrverkið því það er grunnurinn að þessu öllu saman og skiptir gríðalega miklu máli að það sé vel gert. Eftir góða kennslustund og múrinn kominn á þá var næst sett vatnsþéttifilma í allar kverkar eftir að Sigvaldi var búinn að setja upp falskan vegg meðfram lögnunum. Þar á eftir setti hann tvær umferðir af vatnsþéttifilmu á veggina og það látið þorna. Undirbúningsvinnan var mun tímafrekari en við bjuggumst bæði við en hún er mjög mikilvæg uppá að það komi ekki lekaskemmdir/rakaskemmdir undir flísarnar svo þessi vinna var vonandi öll þess virði.

Flísavinnan kom síðan mun betur út en við þorðum að vona enda algjört tilraunaverkefni hjá okkur. Lykilatriðið er að vera rosalega þolinmóður því þetta var mikil vandvirknisvinna og ég get ekki verið stoltari af Sigvalda að hafa náð að gera þetta sjálfur!

2-copy

Flísarnar sem við völdum heita Sintesi Eliementi Grigo og eru með mjög litla vatnsdrægni. Fúgan sem okkur var ráðlagt að nota er svo með vörn gegn bakteríum, sveppum og myglu og hentar því vel á baðherbergi, hún fékkst einnig í Byko.

Hvers vegna sturtu í stað baðkars? Ég er mikill aðdáandi að stílhreinum og stórum opnum sturtum og hafði áður leigt hús sem var með tvöfaldri risastórri walk in sturtu sem mig langaði svo mikið í. En þar sem við vorum með ákveðið budget í þetta verkefni þá þarf maður að minnka kröfurnar á sumum stöðum. Þar sem við vorum að nýta lagnir sem voru fyrir og vildum sleppa við að færa þær þá komumst við að samkomulagi um að hafa opna einfalda sturtu með stórum sturtuhaus. Við vildum bæði hafa sturtuna opna og með gleri en ekki hengi til að rýmið væri nýtt sem best og væri sem stílhreinast.

3-copy

Blöndunartækin sem þau völdu eru öll frá merkinu Grohe.

Hvernig gekk að koma öllu vel fyrir á þessu litla baðherbergi? Vaskurinn og innréttingin var smá höfuðverkur fyrir okkur í byrjun þar sem við erum með lítið pláss til að leika með en það voru til svo margar fallegar og stærri innréttingar sem okkur langaði í sem einfaldlega pössuðu ekki inná baðherbergið. Við vildum þó halda rýminu stílhreinu og skoðuðum mikið af vöskum og litum á innréttingu en enduðum alltaf í hvítu. Við fundum í Byko ferðinni þegar við vorum að velja flísarnar þennan vask og innréttingu sem hentaði mjög vel í rýmið og var á fínu verði svo við vorum ekki að velta þessu mikið meira fyrir okkur og erum við bara mjög sátt með hvernig þetta kom út.

Hvernig er svo tilfinningin að vera loksins búin? Í heildina litið erum við hrikalega sátt með útkomuna, við náðum þeim markmiðum sem við lögðum upp með, þ.e. að stækka rýmið, gera baðherbergið notarlegt og halda okkur innan budgets. Þeir þættir sem hjálpuðu okkur mest eru líklegast aðstoð Alla múrara við grunninn á baðherberginu, Youtube myndbönd og öll þessi ráðgjöf sem við fengum frá snilldar starfsfólki í Byko. Við Sigvaldi erum nefnilega ekki iðnmenntuð en erum að reyna að krafsa okkur í gegnum það að gera upp íbúð sjálf og það að geta gengið inn í verslun og fengið svör við því sem þér vantar er ómetanlegt og því vert að taka fram, því það eru svo sannarlega ekki allar verslanir sem eru með þá þjónustu eins og við vitum líklegast flest.

// Ég samgleðst þeim alveg innilega að vera loksins búin í framkvæmdunum og íbúðin orðin svona glæsileg, en eins og áður hefur komið fram þá voru allar breytingarnar gerðar í skrefum en ekki allt í einu svo verkin og kostnaðurinn voru yfirstíganlegri. Þeim tókst líka að klára allt í tæka tíð en það eru ekki nema örfáar vikur í að þau eignist sitt fyrsta barn og geta því verið róleg í hreiðurgerð. Takk elsku Arna og Sigvaldi fyrir að leyfa okkur að fylgjast með ♡

Næstu framkvæmdarfærslur verða svo af fjölskyldubústaðnum sem við erum á fullu að taka í gegn og einhver ykkar hafa þegar fengið að sjá smá af á Svartahvitu snappinu.

svartahvitu-snapp2-1

TIPS & TRIX FYRIR BAÐHERBERGIÐ

Baðherbergi

Baðherbergið er oft það rými á heimilinu sem fær minnstu ástina þrátt fyrir að við eyðum þar dágóðum tíma flesta daga. Það getur reynst erfitt að búa í leiguhúsnæði og mega lítið gera og þekki ég þær aðstæður mjög vel, en það er þó heilmikið hægt að gera með nokkrum skrautmunum og það þarf alls ekki að vera kostnaðarsamt.

Baðherbergin eru oft nokkuð lítil svo við erum að hugsa um litla smáhluti en ekki húsgögn. Falleg handklæði til að þurrka hendurnar koma manni langt í að fríska við baðherbergið. Ef þú ert með opna innréttingu þá myndi ég hafa þau öll í sama lit og rúlla þeim smekklega saman, en ef ekki þá er um að gera að hafa þau ólík til að breyta til. Mín eru gul, bleik og einnig röndótt og vel ég handklæði vikunnar eftir stuði.

af75d80fcb8312f97eb5ec71b38bc1ff

Takið eftir hér að ofan hvað handklæðin koma vel út svona upprúlluð, en þegar innréttingin er opin er “nauðsynlegt” að hafa innihaldið vel raðað og snyrtilegt. Körfurnar neðst eru síðan góð lausn undir t.d. hárvörur, hárblásara og klósettrúllur í hinni.

Fallegt sturtuhengi getur gert gæfumuninn og er oft nokkuð áberandi partur af baðherberginu, stundum er nóg að hafa þau bara einlit en það er þó til ótrúlega gott úrval af sturtuhengjum með prenti á, mitt þessa stundina er með marmaraprenti. Ég hef keypt mín flest í H&M home en Ferm Living er einnig með frábært úrval.

2cfab2c5d1ca3a561ce64a9146ae9819
391262cf222f5d43f87cfe95159ca830

Sápan! Hafið þið tekið eftir í innlitum í heimilis eða tískutímaritum þá eru viss sápumerki mjög algeng sjón á baðherbergjum og gefa þeim smá elegant yfirbragð. Ég viðurkenni alveg að sápurnar eru rosalega góðar og ilmurinn dásamlegur og alveg “ekta” en ekki svona gervi lykt og ég leyfi mér því að kaupa slíkar sápur inn á milli. Það er einnig hægt að kaupa fjölnota og fallegar sápupumpur í ýmsum verslunum sem þú fyllir einfaldlega á.

2af726b142db78388ede02c31b27214f

Smekkleg óhreinatau – Ég hef mjög gaman af því hvað úrvalið er skyndilega orðið gott af flottum óhreinataukörfum og margar á mjög góðu verði. House Doctor hefur t.d. verið með nokkrar skemmtilegar ásamt Ferm Living.

Fallegur baðsloppur jafnvel úr silki hengdur upp getur sett punktinn yfir i-ið og er að sjálfsögðu mjög hentugur til að henda yfir sig þegar komið er úr baði. Ég keypti mér nýlega hlébarða baðslopp í H&M sem fær að hanga inni á baðherberginu og er eins og hið fínasta punt!

6498ae55d948cfb8f96f002e07be43b4

cute-pink-and-white-cast-iron-clawfoot-bath-tub

Algengasta útkoman þegar baðherbergi eru hönnuð eru hvítt, svart, viður eða marmari en hafið í huga að möguleikarnir eru endalausir og kannski er baðherbergið einmitt rýmið til að sleppa alveg af sér beislinu? Klikkað veggfóður, málaðu baðkarið í lit, litríkar marokkóskar gólflísar, flott ljósakróna, allt svart eða samsetning af bleikum og fjólubláum litum á loft og veggi eins og á baðherbergi Katrínar Ísfeld hér að neðan.

12745741_1283071921706763_8301819837149587180_n-620x930

Mynd: Rakel Ósk Sigurðardóttir / innanhússhönnun: Katrín Ísfeld, sjá meira hér. Þetta var eitt fallegasta baðherbergi sem ég hef heimsótt og ég ætlaði varla að trúa mínum augum svo fallegir voru litirnir. Takið eftir að þarna hefur hún einnig til skrauts gamla maskara sem fylla heilt ílát ásamt ilmvatnsglösum og tískuteikningu.

21642b39fbdcccfdb322cc7a700f8bbe

aff142df6f720982a04416a2b8ef9b4f

Lítill kollur eða hliðarborð til að geyma á handklæði eða uppstillingu af þínum bestu húðvörum ásamt kerti til að kveikja á þegar farið er í bað. Kollinn er einnig hægt að nýta sem stand undir blómapott eða tölvuna fyrir þá sem vilja horfa á bíómynd í baði:)

62dcfff94b87759d000c4021df0dc421

Ilmvötn til skrauts – raðaðu fallegum ilmvatnsglösum á bakka eða við vaskinn og bættu jafnvel við litlum kertastjaka eða blómavasa til að skapa smá stemmingu og fallega uppstillingu.

bad_bord_bakke_spejl_planteophaeng_-juila_froeken_overspringshandling-zc0zkcllvptopqfh6oeaq

Stilltu upp uppáhalds snyrtivörunum þínum. Minna er samt meira, við erum ekki að tala um allt uppáhaldsdótið þitt og helst aðeins það sem er í fallegum umbúðum. Sjáið einnig hvað gyllta vírakarfan kemur vel út sem smáhlutahilla og á myndinni hér að neðan sjáið þið hvernig hún er fest upp, algjör snilld þegar ekki má negla í flísarnar.

bad_haandvask_spejl_kvist_planter_-juila_froeken_overspringshandling-rf-nrf6ycxe1cbj2-v-r4q 29799afa7a53e14013a4cbd2d789cabd

Råskog hjólaborðið hefur slegið í gegn og er æðislegt til að hafa inni á baðherbergi, en getur þó auðveldlega orðið draslaralegt – hafið það í huga. Upphaflega var það hugsað í eldhúsið en eftir að stjörnustílistinn Pella Hedeby stíliseraði það á baðherbergi (mynd að ofan) hefur það rokselst. Þórunn Ívars bloggari er einnig dugleg að sýna frá sínu hjólaborði á snapchat.

bf978c2c97bd7b5a5fb1084b6ad0408a

8f608766ba66f0ff347d302879897bb7

Plaköt og myndir eiga líka heima á baðherbergjum, þetta er þó mögulega ekki rýmið til að hengja upp fjölskyldumyndir nema það séu þá sætar minningar af börnunum í baði t.d. Algengast er að sjá skemmtilegar setningar í ramma eða myndir af tískufyrirmyndum eða annað slíkt. Það er hægt að gleyma sér að skoða plaköt hjá t.d. Desenio.

tumblr_md163ocse41qa9ddao1_500

Síðast en ekki síst þá má ekki gleyma að nefna elsku plönturnar sem lífga við hvaða rými á örskotsstundu og ég mæli með að kaupa þér fallega plöntu fyrir baðherbergið sem þarf ekki of mikla umhirðu. En best væri þó að tikka við fleira en eitt atriði hér að ofan og baðherbergið verður allt annað!

Hér að neðan er síðan listi af vörum sem ég tók saman fyrir baðherbergi í mínum anda.

badherbergi

//1. Það myndu fáir slá hendinni á móti fallegum Aarre glerhanka frá iittala. //2. Hlébarðasloppur frá H&M. //3. Falleg skipulagsbox frá House Doctor undir smádótið og skreyta baðherbergið um leið. Fást í A4. //4. Pappelina gólfmotta í fallegum lit er fullkomin inn í þvottahúsið, fást í Kokka. //5. Þurrbursti er að mínu mati nauðsynlegur á baðherbergi. //6. Marmarabakki undir ilmvatnsglösin og snyrtivörur, fæst í Kokku. //7. Ég er hægt og rólega að reyna að skipta yfir í betri snyrtivörur og hugsa vel um húðina, þessa dropa langar mig að prófa frá Estée Lauder, night repair og þessi flaska mætti alveg vera uppi við. //8. Flott óhreinatauskarfa, ég er sjálf að íhuga að kaupa mér þessa. Fæst í A4. //9. Aalto vasana má nota undir margt annað en blóm, minni stærðirnar eru til dæmis tilvaldar undir bómull, eyrnapinna eða förðunarbursta. //10. Stílhreint handklæði, Snúran. //11. L:A bruket handsápa, Snúran. //12. Bleikur tannbursti frá HAY en þó framleiddur af tannburstamerkinu Jordan. Ég á einn svona bleikan og Andrés á svartan. Væntanlegir í Epal. //13. Råskog hjólaborð, Ikea. //14. Sturtuhengi frá Ferm Living, Epal.

Ef ykkur líkaði við þessa færslu þá yrði ég þakklát ef þið væruð til í að smella á like hnappinn eða skilja eftir orð hér að neðan. Hvernig væri nú síðan að ég tæki létt baðherbergja innlit hér heima á snappinu mínu? Það er orðið þó nokkuð langt síðan ég sýndi frá því:)

svartahvitu-snapp2-1