SUMARLEGT & SJARMERANDI DANSKT HEIMILI

Heimili

Bolig Magasinet er mitt uppáhalds tímarit og kemur þetta fallega heimili einmitt frá vefnum þeirra. Litríkur og persónulegur skandinavískur stíll er einmitt eins og ég vil hafa heimilið mitt og því hitta þessar myndir beint í mark hjá mér. Húsið sem byggt er í fúnkís stíl er 170fm á stærð og er staðsett rétt fyrir utan Kaupmannahöfn í bænum Snekkersten. Hér býr 5 manna fjölskylda sem hefur komið sér mjög vel fyrir og er heimilið skreytt með gersemum frá flóamörkuðum ásamt plöntum, listaverkum og geggjuðum lömpum í hverju horni. Hér gæti ég búið.

Via Bolig Magasinet // P.Wessel

Ég mæli sérstaklega með því fyrir ykkur sem lesið dönsku að lesa viðtalið sjálft þar sem húsfreyjan, Louise Buus Kaus situr fyrir svörum – skemmtilegar skoðanir sem hún hefur á innanhússhönnun sem mætti gjarnan taka til fyrirmyndar.

“Þetta snýst um að finna þinn eigin stíl og innrétta út frá hjartanu. Innanhússhönnun á að þýða eitthvað fyrir þig. Mitt besta ráð er að heimilið á að enduspegla hvað vekur áhuga þinn. Ef þú hefur áhuga á list, átt þú að búa með list. Ef þú elskar náttúruna, átt þú að skreyta heimilið með náttúrulegum elementum…. Ég heillast af öðruvísi, alþjóðlegum stílum sem koma mér á óvart. Ég hrífst af fólki sem hefur þor til að skreyta heimilið á annan hátt en með hvítum veggjum og leysa lausnir með dýrri hönnun.” segir Louise Buus Kaus. 

Ykkur er velkomið að fylgjast með á Instagram @ svana.svartahvitu // snapchat @svartahvitu

GUÐDÓMLEGT SUMARHÚS RUTAR KÁRA

HeimiliÍslensk hönnun

Guðdómlega fallegt sumarhús Rutar Kára og fjölskyldu hefur ferðast víða í hönnunartímaritum og á vefnum en mig langaði til þess að rifja það upp í dag á þessum fallega sunnudegi. Vinkona mín sendi mér myndirnar eftir að hafa rekist á það á Airbnb í leit að gistingu fyrir erlenda vini en sumarhúsið sem staðsett er í Borgarfirði er draumi líkast. Ég leyfi mér að dreyma um huggulegar stundir í bústaði en það er þónokkuð langt í að ég komist í helgarfrí og heimsæki bústaðinn okkar ♡

Ljósmyndari : Gunnar Sverrisson 

Ykkur er velkomið að fylgjast með á Instagram @ svana.svartahvitu // snapchat @svartahvitu

220 HFJ ♡ KRYDD VEITINGAHÚS

Mæli með

Um helgina gafst mér loksins tækifæri til að kíkja við á veitingastaðinn KRYDD sem opnaði fyrir stuttu síðan í Hafnarborg í miðbæ Hafnarfjarðar. Ég hafði fylgst spennt með framkvæmdum þeirra á samfélagsmiðlum en ég er sérstaklega áhugasöm um allt nýtt í firðinum fagra og fagna því að svona fallegur veitingastaður sé loksins kominn þar sem flott innanhússhönnun – góður matur og kokteilar haldast í hendur. Tilefnið var að skála fyrir brúðkaupi æskuvina okkar sem giftu sig fyrr um daginn ásamt því að ein uppáhalds vinkona var mætt á klakann alla leið frá L.A. Það er hreint út sagt lúxus í mínum huga að þurfa ekki alltaf að fara í miðbæ Reykjavíkur í leit að flottum veitingastað og það að skella sér á stefnumót með göngutúr og út að borða í leiðinni er frekar heillandi tilhugsun.

     

Ég og Inga mín í stuði eftir matinn … og þónokkra kokteila. 

Búið er að breyta staðnum töluvert frá því sem áður var og þið ykkar sem hafið borðað á matsölustöðunum sem áður voru í Hafnarborg munuð heillast upp úr skónum. Veggir og loft eru málaðir í dökkum litum sem gera andrúmsloftið hlýlegt ásamt því að þessi líka flotti kokteilabar var settur upp. Litrík og töff málverk skreyta veggi ásamt plöntum í hverju horni sem gera huggulega stemmingu. Gluggarnir í Hafnarborg eru með fallegri gluggum á landinu og ég er svo ánægð hvað þeir njóta sín núna vel innan um dökkmálaða veggina og útkoman er vægast sagt flott.

Barinn flotti og barþjónninn á stórt hrós skilið, drykkurinn Tiki er með betri kokteilum sem ég hef smakkað og hitti beint í mark eftir að ég lýsti fyrir þjóninum hvað mér þætti gott án þess að vita hvað ég vildi. – Mæli með!

Skála við uppáhalds L.A. búann minn hana Öglu – okkur var boðið upp á freyðivín fyrir að merkja KRYDD veitingahús á Instagram sem við þáðum að sjálfsögðu ♡

Ég mæli 100% með – næst á dagskrá hjá mér er að prófa brönsinn sem þau eru með um helgar mmmmm…

Áfram 220 HFJ & KRYDD veitingahús.

KRÚTTLEGT DIY Í BARNAHERBERGIÐ

BarnaherbergiDIY

Það er orðið ansi langt síðan ég fjallaði um sniðugt DIY verkefni en hér áður fyrr var það nánast það eina sem ég skrifaði um. Ég stóðst ekki mátið þegar ég sá þennan  hrikalega krúttlega loftbelg sem gerður var í samstarfi við Ikea á blogginu Husligheter en hann er fullkominn fyrir barnaherbergið.

Það sem þarf er m.a. : Regolit skermurLjusnan karfa og Östernas leðurhöldur allt úr Ikea. Einnig þarf fingrabrúður eða önnur krúttleg leikföng, spotta, tréperlur og límdoppur sem fást í föndurverslun.

Ef þið kíkið yfir á bloggsíðu Husligheter sjáið þið nákvæmar leiðbeiningar hvernig útbúa á þennan fallega loftbelg – sjá hér.

Skemmtilegt og öðruvísi heimaföndur sem má jafnvel föndra með barninu sjálfu?

RÓMANTÍK Í PARÍS

BarnaherbergiHeimili

Í dag færi ég ykkur fallegt draumaheimili í París – hér búa eigendur frönsku barnafataverslunarinnar Frangin Frangine, og kemur því ekki á óvart að barnaherbergin sem eru þónokkur eru mjög falleg. Íbúðin sem er 200 fermetrar er innréttuð í rómantískum stíl og eru húsgögnin mörg hver gersemar af flóamörkuðum sem setja mikinn svip á heimilið. Íbúðin er björt með fallegum frönskum gluggum sem sumir hverjir snúa út að Eiffel turninum sjálfum samkvæmt Elle Decor – þvílíkur draumur.

Myndir via Elle

NÝTT FRÁ ROYAL COPENHAGEN : BLOMST

HönnunKlassík

Royal Copenhagen heimsfrumsýnir nú nýja línu af borðbúnaði sem ber heitið Blomst. Royal Copenhagen er gamalgróin dönsk postulínsverksmiðja sem stofnuð var árið 1775 og er borðbúnaður þeirra samofinn dönsku samfélagi og hafa heilu kynslóðirnar alist upp með “Blue Fluted” matarstelli sem þykir mjög eftirsótt í dag.

Það eru mikil tíðindi þegar svona klassískt og rótgróið hönnunarfyrirtæki kynnir nýja vörulínu, og var Blomst um fimm ár í vinnslu. Það var hollenski listamaðurinn Wouter Dolk sem túlkaði blómamynstrið í nýrri mynd en Blue Flower var annað mynstrið sem Royal Copenhagen kynnti árið 1779 og var það handmálað blómaskreytt stell innblásið af dönskum blómagörðum. Mikil nákvæmni var lögð í samsetningu forms, mynsturs, staðsetningu og stærð og er útkoman nútímaleg og klassísk í senn. Mikið afskaplega er þetta fallegt mynstur…

“With blomst, we have created something beautiful and meaningful.”

Wouter Dolk – Artist

Myndir via Royal Copenhagen

YFIRHÖNNUÐUR ARTEK BÝR SMART –

Heimili

Það kemur varla á óvart að yfirhönnuður finnska hönnunarveldisins Artek búi nokkuð huggulega, og hvað þá þegar Lotta Agaton stílistadrottningin sjálf mætir á svæðið og stillir öllu vel upp. Það má vissulega sjá nokkra gullmola úr smiðju Artek á þessu fallega heimili en þó kemur það mér skemmtilega á óvart að hún er ekki óhrædd við að sýna hönnun úr öðrum áttum og má þar nefna húsgögn og ljós frá Vitra, Fritz Hansen og Louis Poulsen.

Hér gæti ég búið ♡

Myndir via Residence Magazine

HEIMILI ÓLAFS ELÍASSONAR ER DRAUMI LÍKAST

Heimili

Heimili heimsfræga listamannsins Ólafs Elíassonar er draumi líkast en það er nú til sölu. Húsið sem er eins og klippt úr ævintýri ( sjá útihurðina sem er eins og ugla ) er 270 fm og er staðsett í Hellerup sem er rétt utan Kaupmannahafnar. Það sem er áhugaverðast að mínu mati er að sjá nokkur listaverka hans í svona persónulegu umhverfi en ekki í listasöfnum þar sem ég hef venjulega séð þau. Það hefur alltaf verið mikið talað um Ólaf Elíasson í minni fjölskyldu en afi minn og amma hans voru systkini, og þar af leiðandi allir í fjölskyldunni hálfgerðir aðdáendur og mikið dáðst af hans afrekum sem eru þónokkur.

En það er enginn vafi á því að þetta er með glæsilegra heimili sem sést hefur og eitt er víst… ég mun aldrei gleyma þessari uglu-hurð.

Myndir Boliga / via Smartland

Hvað finnst ykkur um þetta ævintýralega heimili og mikilvægara er … gætuð þið hugsað ykkur uglu útidyrahurð? Ég óska ykkur annars góðrar helgi !

NÝTT FRÁ IITTALA // 2018

Hönnuniittala

Ef það er einhver staður í heiminum þar sem ég væri til í að vera akkúrat núna þá er það í Mílanó, en þar stendur yfir dagana 17. – 22. apríl ein stærsta og flottasta hönnunarsýning í heiminum. Ég fylgist þó vel með mörgum framleiðendum, hönnuðum og erlendum tímaritum í gegnum instagram og sé þar brot af fréttunum og nýjungum sem væntanlegar eru. Salone del Mobile í Mílanó er einn mikilvægasti viðburður ársins í hönnunarheiminum og það er þvílíkt ævintýri að vera í borginni þessa viku – ég mæli svo sannarlega með því að fara að minnsta kosti einu sinni á sýninguna fyrir áhugasama um hönnun.

Ég rakst á fallegar myndir frá iittala, nokkrar fallegar nýjungar væntanlegar frá þeim og nýir litir og eru þessar myndir alls ekki tæmandi listi. Eingöngu fallegar myndir sem ég vildi deila með ykkur. Það vakti athygli mína að iittala kynnti í samstarfi við ítalska framleiðandann Magis nokkra Toikka fugla í lampaútgáfu! – Sjá neðstu myndina.

Toikka fuglarnir eru alltaf jafn glæsilegir og heitir þessi King Vulture / Gammur sem bætist við safnið. Fallegur og tignarlegur í þessari útgáfu Toikka glerlistamannsins fræga en Gammur er jú þónokkuð ógnvekjandi fugl …

Myndir : iittala

Ég hef aldrei haldið mikið upp á Magis hinsvegar og varð mjög skeptísk þegar ég heyrði af þessu samstarfi, en verð að segja að uglurnar eru þónokkuð sætar sem lampar. Ég væri helst til í að sjá þær í persónu til að geta alveg sagt um hvort þær eigi roð í glerfuglana sem ég er alltaf svo hrifin af.

Hvernig væri nú einfaldlega að hoppa með næstu vél til Mílanó – hver er til!

GÆÐASTUNDIR UTANDYRA Í FALLEGU UMHVERFI

Garðurinn

Sumardagurinn fyrsti er rétt handan við hornið og þá er tilvalið að skoða nokkrar myndir af fallegum útisvæðum fyrir fjölgandi gæðastundum utandyra í garðinum, pallinum eða á svölunum. Útisvæðin okkar eru ólík eins og þau eru mörg, sum okkar hafa mjög smáar svalir á meðan aðrir skarta stærðarinnar garði með palli, en stærðin skiptir aldeilis ekki máli því það er hægt að gera minnstu svalir huggulegri en stofuna innandyra með réttum ráðum. Pallurinn eða svalir eiga að vera einhversskonar framlenging á stofunni þegar veðrið er gott og vera hvetjandi til að eyða sem mestum tíma utandyra. Til að gera þessa staði sem huggulegasta þarf að hugsa örlítið lengra en bara garðhúsgögn. Við viljum hafa luktir, mottur, blóm og tré í pottum og jafnvel að draga út innihúsgögnin þegar veðrið er sérstaklega gott. Smáhlutirnir gera svo andrúmsloftið extra spennandi en þá erum við að tala um ljósaseríur, smart púða á stólana og falleg glös ásamt karöflu.

Vonandi veita þessar myndir ykkur innblástur,

Myndir via Ikea Livet hemma og Pinterest // Svartáhvítu

Persónulega er ég hrikalega spennt fyrir sumrinu en við erum að undirbúa mjög skemmtilega ferð til Svíþjóðar en einnig erum við svo heppin þetta sumarið að á þessu tímabundna heimili okkar (hjá mömmu og pabba) er þessi fíni garður og er gengið beint úr eldhúsinu út á pallinn þar sem ég ætla að eyða mínu sumri.