ÍSLENSK DRAUMA JÓL Í IKEA ♡

IkeaÍslensk hönnunJóla

Það eru komnar nokkrar vikur síðan ég byrjaði að stelast til að hlusta á fyrstu jólalögin, en ein af ástæðum þess að ég kemst snemma í jólagírinn er án efa elsku IKEA – þar byrja nefnilega jólin í október! Halelúja.

Jólalínan þeirra í ár sem ber heitið VINTER er sú allra glæsilegasta en þau sóttu innblástur til Íslands í ár og fengu auk þess nokkra íslenska hönnuði til liðs við sig til þess að hanna vörur fyrir línuna. Og ég sem hélt ég gæti ekki elskað þessa línu meira. Ég er með augun á nokkrum vörum en hef heyrt af því að íslensku vörurnar rjúki út eins og heitar lummur svo ég mæli með að kíkja við sem fyrst. Það voru þau Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, Þórunn Árnadóttir og Jón Helgi Hólmgeirsson sem hönnuðu vörur fyrir VINTER, Guðrún Lilja var einmitt einn uppáhalds kennarinn minn og svo lærðum við Jón Helgi vöruhönnun saman svo þið getið ímyndað ykkur að það ískraði í mér af spenningi yfir þessari línu!

VINTER línan einkennist af hvítum, gráum og rauðum litum, prjónamynstri, mjúkum feldpúðum, klassískum jólasveinum til að skreyta tréð með og ýmsu fallegu sem minna á íslensku jólin. Ég verð að segja að mér þykir þeim hafa tekist mjög vel til að fanga íslenskan jólaanda, þið sjáið það ekki endilega strax á fyrstu myndinni sem fylgir með færslunni þar sem sjá má jólaskreytta stofu í stílhreinum skandinavískum stíl, en ef þið skoðið hverja vöru fyrir sig þá er auðveldlega hægt að finna nokkrar vörur sem minna á jólaskraut frá ömmu. Svo fallegt og heimilislegt ♡

IKEA er alltaf með svo fallegar uppstillingar og þessar myndir heilla mig mikið. Það var svo fyrir tilviljun að ég rakst á myndina hér að neðan af VINTER línunni, gjörólík stemming en það er eitthvað svo ótrúlega íslenskt við þessa mynd. Minnir að vissu leiti á safn og ég skil vel að efri myndirnar rati frekar í fjölmiðla – en falleg er hún, svo íslensk og hrá.

 Myndir : Ikea

Hverjar eru ykkar uppáhalds vörur? Ég er sérstaklega hrifin af öllum vörunum eftir íslensku hönnuðina, en piparkökumótin eru einnig sérstaklega falleg ásamt prjónamynstaða stellinu og ýmsu öðru jólapunti… ahh elsku jólin.

 

BÓKIN TIL AÐ EIGNAST: LÍFIÐ Í LIT

BækurÓskalistinn

Ein af fallegustu instagram síðunum sem ég fylgist með er hjá Guðrúnu Láru @gudrunlara en þar deilir hún með fylgjendum sínum einstökum myndum frá daglegu lífi, heimilinu sínu, myndum af fallegum blómvöndum og ýmsu öðru sem þykir fallegt – ég mæli svo sannarlega með því að fylgja henni. Það kom því skemmtilega á óvart að bókin sem situr efst á mínum óskalista í dag, Lífið í lit er einmitt þýdd af Guðrúnu Láru en bókin kom út á dögunum og fæst í flestum bókaverslunum landsins ásamt því að fást í Sérefni. Lífið í lit fjallar um liti, mikilvægi þeirra fyrir manninn og hvernig nota megi þá til að skapa gott og notalegt umhverfi. Hljómar aldeilis vel en undanfarið hefur verið mikil vakning um notkun lita á heimilum og hvíti liturinn er ekki ennþá allsráðandi eins og var fyrir nokkrum árum síðan, virkilega jákvæð og skemmtileg þróun.

“Í þessari bók ræðst litasérfræðingurinn Dagny Thurmann-Moe til atlögu við sífellt grárri tilveru okkar. Hún sýnir hvernig samfélagið, sem áður var litríkt og örvandi, hefur smám saman orðið litaleysinu að bráð og bendir á leiðir til að græða það lit að nýju. Dagny fjallar um litafræði og skoðar litanotkun á byggingum og opinberum stofnunum. Einnig kemur hún með dæmi um hvernig hægt er að nota liti inni á heimilinu og í klæðnaði og útskýrir hvers vegna litir eiga alltaf við, óháð stíl og tískustraumum.”

Það er eitthvað svo ótrúlega girnilegt við myndirnar sem Guðrún Lára tekur. Myndirnar hér að neðan fékk ég á instagram síðunni hennar @gudrunlara. Þessi færsla átti í upphafi aðeins að fjalla um bókina sem ég er svo spennt fyrir en ég get ekki annað en deilt þessari fegurð með ykkur í leiðinni.

Bókin verður mín á næstu dögum og ég hlakka til að sýna ykkur betur frá henni, þangað til þá getið þið kíkt yfir á instagram síðu Lífið í lit og hjá Guðrúnu Láru fyrir áhugasama.

Eigið svo góða helgi kæru lesendur,

Á ÓSKALISTANUM : ALVAR AALTO SKÁLAR Í RÓSAGULLI

HönnunÓskalistinn

Rósagylltu Alvar Aalto skálarnar frá iittala eiga hug minn allan þessa dagana. Fyrst þegar ég sá að þær voru væntanlegar fékk ég fiðring í magann því fallegar voru þær en á sama tíma var ég alveg róleg því ég hafði ákveðið að þær yrðu svo agalega dýrar að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa að ég myndi láta freistast. Þær eru alveg ekta borðpunt eða “centerpiece” ef svo má kalla, og ekki skemmir fyrir að svo megi bera fram salat í þeim svona fyrir spariboðin – það er jú vissulega plús að puntið hafi notagildi. Skálarnar voru kynntar fyrr í haust sem partur af nýju Alvar Aalto línunni, en í henni mátti einnig finna skálar og vasa í nýrri útgáfu sem svipa til Savoy vasanna frægu og koma með ferskan andblæ í þessa klassísku línu. Alvar Aalto og iittala kynntu þó blómalaga formið uppúr árinu 1930 sem kom mér skemmtilega á óvart. Það eru jú alveg stórar fréttir þegar nýjar vörur bætast við í dag undir nafni meistara Aalto – eða það þykir mér að minnsta kosti. Hér er nefnilega á ferð klassík framtíðarinnar.

Ég er ein af þeim sem get endalaust á mig bætt þegar kemur að heimilinu – jafnvel þegar ég er búin að lofa Andrési mínum að núna hætti ég að koma heim með fleiri hluti fyrir heimilið. Haha – og hann trúði mér…

SUNNUDAGSINNLIT : DRAUMAHEIMILI Í GAUTABORG

Heimili

Sunnudagsinnlitið er ekki af verri endanum að þessu sinni, draumaheimili í Gautaborg uppfullt af fallegri hönnun og góðum hugmyndum. Eldhúsið er sérstaklega fallegt, opið og stílhreint með marmara sem nær upp á vegg og ljósgráar innréttingar, takið einnig eftir hvað gardínurnar gera mikið og þá sérstaklega í eldhúsinu sem er nokkuð óvenjuleg sjón. Ef það væri eitthvað eitt sem ég mætti óska mér fyrir mitt heimili þá væru það gólfsíðar gardínur í stofu og svefnherbergi – sjáið bara hvað þetta er fallegt.

Myndir via Alvhem 

BLEIKUR DAGUR ♡

HeimiliPersónulegt

Bleiki dagurinn getur ekki verið annað en einn af mínum uppáhalds dögum. Bleiki dagurinn er vissulega gerður til þess að vekja athygli á bleiku slaufunni og baráttunni gegn krabbameini hjá konum og ótrúlegt að sjá hvað margir taka þátt í að vekja athygli á þessu fallega og góða málefni. Ég skellti mér í kimono skreyttum bleikum blómum og með bleikan trefil en gleymdi þó varalitnum og naglalakki sem var á planinu en það mætti þó segja að það sé bleiki dagurinn alla daga ársins á mínu heimili. Ég elska jú bleikann eins og þið mörg vitið nú þegar – ég deili því bleikum heimilismyndum í tilefni dagsins.

Ég er alltaf mikið spurð út í sófaborðið mitt, en það er úr Svartan línunni frá Ikea sem kom í takmörkuðu upplagi, sófinn Söderhamn er einnig frá Ikea og toppaði ást mína á bleikum.

Ég er fyrst núna að sjá hvað Finnsdóttir vasinn er skakkur í hillunni haha.. Hillan er hinsvegar Besta frá Ikea og ég sleppti að setja á hurð. Við skulum kalla þetta verkefni í vinnslu. Þessi gullfallegi spegill er eftir vinkonu mína Auði Gná sem hannar undir nafninu Further North – hægt að kaupa spegilinn hér. 

Blóm í vasa gera svo mikið fyrir heimilið, þessi komu með mér heim eftir heimsókn til ömmu í gær sem fagnaði 80 ára afmæli og þurfti að losna við nokkra blómvendi ♡

Þessi fallegu silkiblóm fékk ég nýlega í Byko og mér finnst þau æðisleg, ég er nefnilega að reyna að minnka óþarfa eyðslu og ég var farin að leyfa mér ansi oft blómvendi. Þessi uppfylla að miklu leyti þörf mína fyrir að hafa falleg blóm í vösunum mínum:)

Þið skiljið bara eftir línu ef það er eitthvað annað sem ykkur langar til að vita.